Fara á efnissvæði

Kossageit

Kaflar
Útgáfudagur

Kossageit (e. impetigo) er bakteríusýking í húð. Bakteríurnar geta fundist í hálsi og á órofinni húð án þess að valda einkennum en getur valdið sýkingu ef bakterían berst í minni háttar húðrof.

Kossageit er vanalega hættulaus sýking en mjög smitandi og getur borist auðveldlega á önnur svæði húðarinnar. Sýkingin berst auðveldlega milli einstaklinga ef ekki er hugað að hreinlæti. Kossageit er algeng hjá börnum en fullorðnir geta líka smitast.

Einkenni

  • Kossageit byrjar oftast sem litlar vessafylltar blöðrur sem rofna og við það myndast gulleitt eða brúnleitt hrúður.
  • Algengt er að útbrotin séu í andliti, á útlimum og húðsvæðum þar sem raki getur myndast svo sem í holhönd, hálsi og á bleiusvæði. Útbrotin geta þó myndast hvar sem er á húðinni.
  • Kláði getur fylgt útbrotunum en verkir fylgja sjaldan.
  • Hiti fylgir vanalega ekki, en ef hiti er til staðar er líklegt að ekki sé um kossageit að ræða.

Kossageit

Smitleiðir

  • Sýkingin berst milli manna með snertismiti, annað hvort með beinni snertingu á sýkta húð eða með snertingu við mengaða hluti. Kossageit getur því smitast með hlutum t.d. leikföngum og handklæðum.
  • Hrúðrið inniheldur mikið magn af bakteríum og ef klórað er í útbrotin getur sýkingin borist til annarra húðsvæða eða á milli manna. Fleiri sár geta þá myndast nálægt upprunalega sárinu eða á öðrum svæðum húðarinnar.
  • Hægt er að fá kossageit oftar en einu sinni.

Greining

Greining fæst með skoðun á útbrotunum og í sumum tilfellum er tekið sýni frá húðsvæðinu til að kanna hvaða baktería veldur sýkingunni.

Meðferð

  • Við lítil útbrot er oftast nóg að þvo sýkta svæðið með vatn og sápu (ilmefnalausri) og mýkja upp hrúðrið og fjarlægja það varlega. Varast skal að fjarlægja hrúður sem situr fast á húðinni.
  • Ef sú meðferð dugar ekki má nota sýkladrepandi krem en stundum getur sýklalyfjameðferð reynst nauðsynleg. 

Hvað get ég gert?

  • Passa upp á hreinlæti og tíðan handþvott
  • Forðast að snerta sár
  • Klippa neglur stuttar þar sem bakteríur geta leynst undir nöglum
  • Hver og einn skal nota sitt eigið handklæði eftir sturtuferðir
  • Hylja sárin með lausum klæðnaði eða umbúðum til að hindra frekari smit
  • Nota einnota pappírsþurrkur í staðin fyrir handklæði inni á baði þar til sár gróa
  • Varast skal að nota umbúðir sem festast í sárinu

Sýktir fullorðnir ættu að halda sig frá vinnu og sýkt börn ættu að vera fjarri skóla eða leikskóla þar til allar útbrotsblöðrur hafa þornað og engar nýjar birtast. 

Ef einstaklingur fær sýklalyf (krem eða í inntöku) má mæta aftur til starfa/skóla þegar 48 tímar eru liðnar frá fyrsta sýklalyfjaskammti.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita til heilsugæslunnar ef:

  • Hiti er í meira en þrjá sólarhringa
  • Útbrot breiðast út til annarra húðsvæða
  • Sárin gróa ekki þrátt fyrir meðferð
  • Sýkingar eru endurteknar

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Forvarnir
  • Reglulegur handþvottur
  • Rétt er að halda barninu heima þar til útbrotin eru orðin þurr og hrúðrið fallið af
  • Ef barn hefur fengið sýklalyf má það koma í dagvistun þegar 24 klukkustundir eru liðnar frá fyrsta sýklalyfjaskammti
  • Ekki er til bóluefni gegn kossageit
Áhættuþættir

Húðrof - Bakterían kemst inn fyrir varnir húðarinnar við lítil húðrof eins og litla skurði, skordýrabit eða útbrot.

Ungur aldur - Kossageit er algengust hjá börnum á aldrinum tveggja til fimm ára.

Náin snerting - Þeir sem eru í náinni snertingu t.d. í barnaskólum, leikskólum og í íþróttum.

Veðurfar - Hlýtt og rakt loftslag eykur líkur á smiti.

Heilsufar - Börn með húðvandamál eins og exem eru líklegri til þess að fá kossageit. Fullorðnir sem eru með sykursýki eða skert ónæmiskerfi eru einnig líklegri til að fá kossageit.