Klamydía (e. Chlamydia) er kynsjúkdómur af völdum bakteríunnar Chlamydia trachomatis. Hún tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra og þvagrásar og getur valdið bólgum þar.
Einkenni
Algengt er að fólk sé einkennalaust en annars er mismunandi hvernig kynin finna fyrir einkennum. Klamydía í hálsi eða endaþarmi er oftast einkennalaus.
Einkenni hjá konum:
- Blæðing eftir samfarir
- Milliblæðingar
- Óvenjuleg útferð frá leggöngum
- Verkir í grindarholi
- Verkir við samfarir
- Verkur við þvaglát
Einkenni hjá körlum
- Óvenjuleg útferð frá þvagrás
- Verkur í pung
- Verkur við þvaglát
Ómeðhöndluð sýking getur valdið frjósemiskvillum hjá konum en hjá körlum getur það valdið verkjum og bólgum í kynfærum.
Algengi
Klamydía er algengari hjá ungu fólki. Einnig hjá fólki sem skiptir oftar um kynlífsfélaga og meðal þeirra sem nota ekki smokk.
Smitleiðir
- Klamydía smitast við óvarið kynlíf hvort sem það eru kynmök, endaþarmsmök eða munnmök.
- Getur smitast með óhreinum kynlífstækjum ef þeim er deilt milli einstaklinga
- Ef móðir er með klamydíu við fæðingu er hætta á að barnið smitist. Því er mikilvægt að fá meðferð við sjúkdómnum fyrir fæðingu.
Greining
Ef grunur er um klamydíu er sýni tekið til staðfestingar.
Konur skila stroksýni frá leggöngum
Greiningarprófið er ónákvæmt ef það er blandað blóði og því má kona ekki vera á blæðingum þegar sýnið er tekið
Karlar skila þvagsýni
- Eftir þörfum eru tekin stroksýni frá hálsi og endaþarmi
- Greining og meðferð er einstaklingi að kostnaðarlausu
Til að fá áreiðanlegar niðurstöður þurfa að líða minnst 10 dagar frá mögulegu smiti þar til sýni er tekið.
Meðferð
- Meðhöndluð með sýklalyfjameðferð
- Mikilvægt er að báðir aðilar í sambandi séu meðhöndlaðir á sama tíma
- Vegna smithættu má ekki stunda kynlíf fyrr en þremur dögum eftir að meðferð lýkur og einkenni eru horfin.
Yfirleitt er ekki þörf á endurkomutíma í kjölfar greiningar en í eftirfarandi tilfellum er þó nauðsynlegt að koma í endurkomu eða leita á næstu heilbrigðisstofnun:
- Ef einkenni ganga ekki yfir á tveimur vikum
- Ef lyfin hafa ekki verið tekin rétt
Forvarnir
- Með því að nota smokk eða kvennsmokk
- Deila ekki kynlífstækjum með öðru fólki eða að gæta fyllsta hreinlætis þegar slíkt er gert, semsagt þvo tækin vel og/eða setja smokk yfir þau
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef einkenni klamydíu eru til staðar eða ef óskað er eftir að skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að leita til næstu heilsugæslu, til sérfræðilæknis, á göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 eða á smáforriti Landspítalans.