Fara á efnissvæði

Járnskortsblóðleysi

Kaflar
Útgáfudagur

Járnskortsblóðleysi (e. iron deficiency anemia) er skortur á járni í blóðinu sem getur verið með eða án skorts á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin eru mikilvægur þáttur í flutningi súrefnis til líffæra. 

Einkenni

Járnskortsblóðleysi getur verið lúmskt vegna þess að líkaminn getur lagað sig að ástandinu þegar breytingin er hæg. Sumir finna ekki fyrir neinum einkennum.

Helstu einkenni eru:

  • Þreyta og orkuleysi, sérstaklega við áreynslu
  • Aukin mæði eða andþyngsli
  • Föl húð
  • Hraður hjartsláttur
  • Höfuðverkur
  • Pirringur eða fótaóeirð
  • Svartar hægðir

Greining

 Helstu blóðgildi eru þá mæld og þannig skorið úr um hvort járnskortur valdi einkennunum. Ef járnskortur greinist í blóðprufu og orsökin er ekki augljós mun læknirinn þinn leita skýringa á járnskortinum með frekari rannsóknum og nákvæmri sjúkrasögu áður en meðferð er hafin.

Helstu ástæður járnskortsblóðleysis

Algengast er að járnskortur verði vegna blóðtaps, annaðhvort við mikla og skyndilega blæðingu eða þegar blæðing er hæg og yfir lengri tíma. 

Helstu ástæður:

  • Miklar tíðablæðingar
  • Meðganga
  • Blæðingar í meltingarvegi
  • Járnsnautt fæði

Járnskortsblóðleysi er algengara hjá konum.

Meðferð

Mikilvægt er að byrja á að leiðrétta orsök járnskortsins til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekara blóð- og járntap.

Ef járnskortur er vægur eða nýtilkominn er oft mælt með:

  • Járni til inntöku sem fást gegn lyfseðli. Algengustu aukaverkanir eru meltingaróþægindi eins og ógleði, hægðatregða og dökkleitar hægðir
  • Að taka C-vítamín (250 mg) eða drekka eitt glas af appelsínusafa á sama tíma og járn er tekið inn, þar sem C-vítamín hjálpar til við upptöku járns í meltingarveginum
  • Taka inn hægðalosandi (magnesia medic) ef hægðatregða kemur fram 

Ef járnskortur er mikill, endurtekinn eða upptaka járns í meltingarveginum er takmörkuð, t.d. vegna sjúkdóma og járn í töfluformi hefur ekki skilað nógu góðum árangri er oft mælt með:

  • Járngjöf í æð
  • Blóðgjöf í æð

Læknirinn skrifar upp á lyfið, metur hve stóran skammt og hve oft þarft að fá járngjöf í æð. Flestar heilsugæslur bjóða upp á tímabókanir í járngjafir hjá hjúkrunarfræðingum. Blóðgjöf er öllu jöfnu framkvæmd innan spítalanna þegar önnur úrræði hafa ekki skilað nægilega góðum árangri.

Hvað get ég gert?

Borða meira af járnríkum fæðutegundum eins og lifur, rauðu kjöti, baunum, hnetum, fræjum, þurrkuðum ávöxtum, dökkgrænu grænmeti og heilkorni. Kaffi, te og mjólkurvörur er rétt að nota í hófi þar sem þær geta dregið úr upptöku járns.

Hægt er að kaupa járntöflur og mixtúrur án lyfseðils í apótekum.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef einkenni blóðleysis eru til staðar er ráðlagt að hafa samband við heilsugæsluna.

Finna næstu heilsugæslu.