Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Japönsk heilabólga

Kaflar
Útgáfudagur

Japönsk heilabólga (e. Japanese Encephalitis) er sjaldgæf en alvarleg veirusýking sem berst í fólk með moskítóbitum. Flest þau sem veikjast finna fyrir litlum einkennum en alvarlegri einkenni geta valdið varanlegum taugakvillum og dauða. Sjúkdómurinn er árstíðabundinn í ákveðnum heimshlutum. Hægt er að fá bólusetningu ef dvelja á lengi á hættusvæðum eða stunda útivist.  

Einkenni

Flest þau sem fá sjúkdóminn finna fyrir mildum einkennum og sum jafnvel engum. Þekkt einkenni sýkingarinnar líkjast flensueinkennum:  

  • Hár hiti
  • Höfuðverkur 
  • Kviðverkir 
  • Þreyta og mikill slappleiki

Oftast líða þessi einkenni hjá án meðferðar en í einstaka tilfellum nær sýkingin til heila og þá verða einkennin mun alvarlegri:  

  • Heilabólga 
  • Heilahimnubólga
  • Krampar
  • Máttminnkun
  • Ruglástand
  • Slæmur höfuðverkur

Af þeim hópi sem fær alvarleg einkenni munu 30% eiga við varanlega taugakvilla. Dánartíðni hjá fólki sem smitast af japanskri heilabólgu er allt að 30%. 

Orsök og smitleiðir

Veirusýkingin getur borist í fólk verði það bitið af moskítóflugum á svæðum þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Þau helstu eru:

  • Indland
  • Indónesía
  • Japan
  • Kína
  • Malasía
  • Suður-Kórea
  • Taíland
  • Víetnam

Í þessum löndum er mesta hættan í kringum votlendi eins og hrísgrjónaakra en einnig nálægt svínarækt.

Lítil hætta er talin á smiti fyrir ferðamenn sem dvelja stutt í borgum þessara landa (einn af hverjum milljón ferðalanga). Áhættan eykst eftir því sem ferðin er lengri, dvalið er lengur í dreifbýli eða við útivist í villtri náttúru.  

Þar sem sjúkdómurinn berst með moskítóflugum er hann árstíðabundinn og því mikilvægt að fá ráðleggingar áður en lagt er af stað í ferðalag. 

Greining

Sjúkdómsgreining felst aðallega í upplýsingum um ferðalag, hugsanleg moskítóbit og lýsingu á einkennum. Blóðrannsóknir og myndatökur geta staðfest smit.  

Meðferð

Meðferð felst í einkennameðferð, helsta lyfjameðferð er:

  • Verkjalyf
  • Steralyf

Hvað get ég gert?

Ef fólk hefur verið bitið af moskítóflugu eða möguleiki er á biti þar sem sjúkdómurinn er landlægur og flensulík einkenni koma fram, er mælt með því að leita til næstu heilsugæslu. Ef einkenni eru mikil er mælt með því að fara á næstu bráðamóttöku.  

Forvarnir

Flugurnar geta bitið allan sólarhringinn en mesta hættan er á bitum í ljósaskiptum og fram á dögun. Mælt er með notkun skordýravarna, viðeigandi fatnaði og flugnaneti fyrir þá sem eru í hættu.

Bóluefnið

Til er bóluefni gegn japanskri heilabólgu sem gefið er í 2 skömmtum með mánuði á milli gjafa. Mælt er með bólusetningu ætli fólk að dvelja á svæðum þar sem sjúkdómurinn er landlægur og ef eitthvað af eftirfarandi þáttum á við:  

  • Dvöl í landi er lengri en 4 vikur  
  • Ferðast er um svæði þar sem hrísgrjónaakrar og svínarækt eru algeng 
  • Langvarandi útivist í dreifbýli  
  • Tíð ferðalög til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur