Til eru yfir 100 gerðir af HPV-veirum (e. human papillomavirus). Af þeim eru 14 tegundir þekktar sem geta þróast yfir í krabbamein t.d. í leghálsi, leggöngum, endaþarmi, ytri kynfærum, hálsi og berkjum. Sumar HPV-veirur orsaka kynfæravörtur en margar valda engum einkennum.
Flestir sem eru kynferðislega virkir smitast af veirunni einhvern tímann á lífsleiðinni og sumir oftar en einu sinni. Líkaminn nær oftast að uppræta sýkinguna sjálfur á nokkrum mánuðum. Ef sýking af völdum ákveðnum veirutegundum hverfur ekki þá eykst hætta á að fá frumubreytingar sem þarf að meðhöndla með skurðaðgerð.
Af þeim sem fá leghálskrabbamein þá er HPV-veiran í 99% tilfellum orsakavaldur, bólusett er gegn veirunni.
Karlmenn fá HPV alveg eins og konur. HPV getur valdið kynfæravörtum hjá báðum kynjum og getur einnig valdið krabbameini í getnaðarlim, endaþarmi, munni og koki.
Ekki er leitað sérstaklega að afleiðingum HPV-sýkingar hjá körlum eins og gert er með leghálskrabbameinsleit hjá konum vegna þess að engar góðar leitaraðferðir eru til fyrir karlmenn og flestar sýkingar hverfa án inngrips. En hér gildir hið almenna, ef einstaklingur hefur einkenni sjúkdóms er ráðlegt að leita til læknis.
Einkenni
Forstigsbreytingar í leghálsi valda ekki augljósum einkennum um sýkingu en hafi breytingarnar þróast yfir í krabbamein geta komið fram einkenni eins og:
- Blæðing úr leggöngum eftir samfarir
- Óeðlileg útferð úr leggöngum
- Verkir í kynfærum
Smitleiðir
HPV-veira smitast við snertingu húðar eða slímhúðar, oftast við kynmök við sýkta húð/slímhúð. HPV getur líka smitast við munnmök og við snertingu kynfæra, t.d. með fingrum. Flestir sýktir einstaklingar vita ekki að þeir eru með HPV-veiru sýkingu eða að þeir séu hugsanlega að smita aðra við kynmök. Hægt er að smitast af fleiri en einni tegund HPV-veiru.
Aukin hætta á HPV-smiti tengist:
- Ungur aldur við fyrstu kynmök
- Fjölda rekkjunauta
- Reykingum
- Öðrum kynsjúkdómum, svo sem klamydíu-smiti
- Veikluðu ónæmiskerfi
Að meðaltali greinast 19 konu árlega með leghálskrabbamein á Íslandi og er það fjórða algengasta krabbamein kvenna í heiminum en nær ekki í hóp 10 algengustu krabbameina kvenna á Íslandi. Það er eitt af fáum krabbameinum sem hægt er að greina á forstigi og lækna.
Meðferð
Ekki er hægt að lækna HPV sýkingu en hægt er að fjarlægja frumubreytingar með lítilli skurðaðgerð sem kallast keiluskurður. Það tekur yfirleitt nokkur ár eða áratugi frá því HPV sýking á sér stað þar til leghálskrabbamein myndast. Þess vegna er nauðsynlegt að mæta reglulega í leghálssýnatöku.
Forvarnir
Bólusetningin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi en læknar ekki sjúkdóma sem orsakast af HPV-sýkingum. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með að minnsta kosti 6 mánaða millibili. Til að fá sem mesta vörn er mikilvægt að gefa sprauturnar tvær innan árs.
Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni er mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsleit. Tekið er frumustrok frá leghálsi til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi.
Hvað get ég gert?
Konur á aldrinum 23 – 29 ára fá boð í skimun fyrir leghálskrabbameini á 3 ára fresti og konur frá 30 – 64 ára á 5 ára fresti. Boð berast frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Hægt er að bóka tíma á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is eða hafa samband við þína Heilsugæslu.
Ráðlagt er að fara reglulega í skimun þó að þú hafir fengið HPV bólusetningu. HPV bólusetning minnkar líkur á leghálskrabbameini en getur aldrei komið að fullu í veg fyrir það.
Ef grunur er á að kynfæravörtur eru til staðar eða ef óskað er eftir að skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að leita til næstu heilsugæslu, til sérfræðilæknis eða á göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 eða á smáforriti Landspítalans.
Árið 2023 var byrjað að bólusetja öll börn við 12 ára aldur með bóluefninu Gardasil9® sem veitir vörn gegn níu stofnum mannapapillomaveiru. Bóluefnið er gefið í grunnskólum landsins.
Bólusetning stúlkna hófst haustið 2011 með bóluefninu Cervarix® sem veitir vörn gegn tveimur stofnum mannapapillomaveiru eða HPV.
Fyrirkomulag barnabólusetninga.
Það er hægt að fá lyfseðil fyrir bóluefni gegn HPV-veiru fyrir fólk sem er eldra en 12 ára en fólk þarf að greiða fullan kostnað af lyfinu.