Hjartaáfall (e. heart attack) eða bráð kransæðastífla verður þegar ein af æðunum sem næra hjartað stíflast. Þetta veldur því að það svæði hjartans sem þessi æð nærir skemmist. Því lengur sem æðin er stífluð þeim mun meiri verður skaðinn. Þessar æðar sem umlykja hjartað kallast kransæðar.
Hjartaáfall er venjulega afleiðing kransæðasjúkdóms, en í kransæðasjúkdómi setjast fituútfellingar innan á kransæðarnar. Stundum kemur rof í þessar fituútfellingar og þá getur blóðtappi myndast sem síðan stíflar æðina og veldur hjartaáfalli.
Einkenni
- Verkur, seyðingur, þrýstingur eða þyngsli fyrir brjóstinu
- Verkur, dofi eða óþægindi í efri hluta líkamans, s.s. í baki, handlegg, öxl, hálsi, maga eða kjálka/tönnum.
- Mæði
- Ógleði, uppköst, uppþemba eða brjóstsviði.
- Sviti og/eða kaldsveitt húð.
- Hraður eða ójafn hjartsláttur.
- Svimi eða yfirlið.
Mikilvægt er að fylgjast með þessum einkennum, ef þau vara í nokkrar mínútur eða þau koma fyrir aftur og aftur.
Ef þú telur að þú getir verið að fá hjartaáfall, hringdu þá strax í 112 og óskaðu eftir sjúkrabíl, ekki reyna að keyra á næstu bráðamóttöku.
Greining
Ef læknirinn þinn telur líklegt að þú sért með hjartaáfall mun hann væntanlega vísa þér í eina eða fleiri af eftirtöldum rannsóknum:
- Hjartalínurit, en þessi rannsókn mælir rafvirknina í hjartanu.
- Blóðprufur, til að athuga hvort ákveðin efni eru í blóðinu sem hjartað gefur frá sér við hjartaáfall.
- Hjartasónar, þá eru hljóðbylgjur notaðar til að greina mynd af hjartanu þegar það slær.
- Hjartaþræðing og kransæðamyndataka, þá er leggur þræddur inn í æð á fæti eða hendi og skuggaefni sprautað í legginn. Þá sjást æðarnar vel á röntgenmynd og hægt er að sjá hvort þær eru stíflaðar eða ekki.
Meðferð
Meðferðin sem þú munt fá á sjúkrahúsinu mun líklega fela í sér eftirfarandi:
- Súrefnisgjöf í gegnum maska eða súrefnisgleraugu, en súrefnið hjálpar til við að draga úr skemmdum á hjartavöðvann.
- Verkjalyf til að draga úr brjóstverknum og ef til vill einnig lyf til að slaka á.
- Blóðþynningarlyf til að fyrirbyggja myndun frekari blóðtappa í kransæðunum.
- Ef til vill færðu lyf sem kallast beta-blokkari sem dregur úr súrefnisþörf hjartans og þannig úr mögulegum skemmdum á hjartavöðvann.
- Reynt verður að fjarlægja stífluna, annað hvort með lyfjum sem gefin eru í æð eða þá að stoðnet er sett í æðina í hjartaþræðingunni, en stoðnetið hjálpar til við að halda æðinni opinni.
- Ef ekki er möguleiki á að nota stoðnetið gætir þú þurft að fara í aðgerð þar sem ný æð er búin til úr þínum æðum og grædd á hjartað, framhjá stíflunni.
Finna næstu heilsugæslustöð hér.
Eftir hjartaáfall munt þú líklega þurfa að:
- Taka fleiri lyf en áður. Mikilvægt er að þú takir lyfin þín reglulega og í þeim skömmtum sem læknirinn mælir fyrir um. Þessi lyf geta fyrirbyggt frekara hjartaáfall eða heilablóðfall. Ef þú hefur einhver óþægindi eða aukaverkanir af lyfjunum, ræddu þær þá við lækninn þinn, því oft eru lausnir sem hægt er að beita.
- Taka mataræðið í gegn, forðastu mikið steiktan og brasaðan mat og borðaðu minna af rauðu kjöti. Í staðinn skaltu auka grænmetis- og ávaxtaneyslu.
- Huga að þyngdinni ef þú ert í ofþyngd.
- Hreyfa þig meira, til dæmis ganga reglulega eða synda. Hér er finna góðar styrktaræfingar og stólaleikfimi sem hægt er að gera heima með engum tilkostnaði.