Fara á efnissvæði

HIV og alnæmi

Kaflar
Útgáfudagur

HIV (e. human immunodeficiency virus) er veira sem leitt getur til alnæmis. Veiran veldur fækkun á T-hjálparfrumum og brýtur þannig niður ónæmiskerfi líkamans. Þeir sem hafa sýkst af veirunni geta þróað með sér alnæmi. Það gerist þegar fjöldi T-hjálparfruma er orðinn það lítill að ónæmiskerfið getur ekki lengur komið í veg fyrir veikindi af völdum sýkla sem það ræður venjulega við.

Það tekur ónæmiskerfið um 8-10 ár að komast í þrot ef engin meðferð er veitt. Með meðferð má í flestum tilvikum koma í veg fyrir að HIV smitaðir þrói með sér alnæmi.

Einkenni

  • Fyrstu tvær vikurnar eftir smit eru engin einkenni. Þá fjölga veirurnar sér ört og fjöldi T-hjálparfruma lækkar í blóði.
  • Eftir 2 til 4 vikur finna margir fyrir flensulíkum einkennum eins og hita, höfuðverk, vöðva- og liðverk, þreytu, útbrotum, kláða, hálssærindum og eitlastækkunum. Margir fá engin einkenni. Á þessu tímabili er HIV mjög smitandi þar sem magn veirunnar í blóðinu er mikið.
  • Eftir að fólk jafnar sig á einkennum bráðrar sýkingar tekur við tímabil þar sem einkenni eru lítil eða engin. Ónæmiskerfið nær að halda sýkingunni niðri en hægt og bítandi vinnur HIV veiran sitt verk, þeim fjölgar og ná að fækka T-hjálparfrumunum smám saman. Þetta tímabil getur tekið frá 3 upp í 20 ár sé fólk ekki á meðferð.
  • Án meðferðar hefur HIV veiran betur í baráttunni og nær að veikla ónæmiskerfið þannig að smitaður einstaklingur veikist af alnæmi með endurteknum sýkingum á borð við lungnabólgu, niðurgangssýkingar og sveppasýkingar. Auk þess er aukin hætta á krabbameinum. Ómeðhöndlað alnæmi leiðir til dauða. Lyfjameðferð, sem hafin er á þessu stigi getur bætt horfur fólk talsvert með því að efla ónæmiskerfið þannig að það nái að ráða niðurlögum sýkla sem annars hefðu gert einstaklinginn veikan.

Smitleiðir

HIV veiran berst manna á milli með eftirfarandi hætti:

  • Óvarin kynmök með HIV jákvæðum einstaklingi, sem ekki er á meðferð
  • Með HIV menguðum sprautum eða sprautunálum
  • Blóðgjöf með menguðu blóði. Hér á landi er allt blóð skimað og þannig reynt að tryggja að mengað blóð sé ekki notað.
  • Við fæðingu eða með brjóstamjólk HIV jákvæðrar móður sem ekki er á meðferð.

HIV veiran finnst í mestu magni í blóði en hún finnst líka í sæði, leggangaslími og brjóstamjólk. HIV veiran finnst ekki í munnvatni, tárum, svita eða hor og því geta þessir líkamsvessar ekki borið smit á milli einstaklinga.

Við legganga- og endaþarmsmök getur HIV smitast frá karli til konu, frá konu til karls og frá karli til karls. Líklegra er að kona smitist frá karli en karl frá konu. Meiri líkur eru á að smitast við endaþarmsmök en við mök í leggöng. Slímhúð endaþarms er mun viðkvæmari en slímhúð legganganna.

Þau sem eru smituð af öðrum kynsjúkdómi, eins og til dæmis klamydíu, lekanda og kynfæraáblæstri eru í verulega aukinni hættu á HIV smiti.

Greining

HIV er greint með blóðprufu.

  • Eftir upphaflegt smit tekur það líkamann 3 til 6 vikur að mynda mótefnið, sem hægt er að finna í blóði.
  • Ef mótefnamæling er jákvæð þarf að endurtaka blóðprufuna til að staðfesta greininguna. Endanleg greining á HIV er alltaf gerð á Göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala í Fossvogi.
  • Blóðprufuna er hægt að taka hvar sem er þar sem blóðprufur eru teknar. Til dæmis á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.

Þó líkaminn myndi mótefni við HIV veirunni getur hann ekki unnið á henni og sá sem smitast af HIV verður smitaður ævilangt.

Ef þig grunar að þú gætir hafa smitast af HIV er mikilvægt að þú leitir strax til heilsugæslunnar. HIV er ekki læknanlegur sjúkdómur þar sem ekki eru til nein lyf sem að útrýma veirunni úr líkamanum en til eru lyf sem draga úr fjölgun veirunnar, geta bætt líðan, lengt líf og dregið úr smithættu.

Meðferð

Miklar framfarir hafa orðið í meðferð HIV smitaðra á síðustu 25 árum. Beitt er lyfjameðferð sem er sérsniðin að hverjum einstaklingi fyrir sig. Til eru nokkrar gerðir HIV lyfja eftir því á hvaða stig lífsferils veirunnar þau virka. Lyfin geta ekki losað smitaðan einstakling við veirurnar úr líkamanum og því þarf að nota lyfin ævilangt.

Með lyfjameðferðinni er HIV veiran bæld niður og hún gerð óhæf til að valda skaða á ónæmiskerfinu. Þetta bætir heilsufar HIV smitaðra og dregur úr smithættu. Með lyfjameðferð hefur tekist að fyrirbyggja smit frá móður til barns á meðgöngu, í fæðingu og við brjóstagjöf. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að lyfin komi í veg fyrir hvers konar smit og góður árangur náðst í þeim efnum.

HIV lyf eins og öll önnur lyf, geta haft aukaverkanir. Þær eru mismunandi eftir lyfjum og einstaklingum. Flestir fá einhverjar aukaverkanir í byrjun meðferðar en þær lagast oftast af sjálfu sér við áframhaldandi notkun lyfjanna.

Mikilvægt er að taka lyfin á réttum tíma reglulega. Ef lyfin gleymast eða eru tekin á óreglulegum tímum veldur það aukinni hættu á lyfjaónæmi og aukaverkunum.

Sum fæðubótaefni og náttúrulyf geta haft áhrif á virkni HIV lyfjanna. Því er mikilvægt að láta lækninn þinn vita af öllum lyfjum og bætiefnum, sem þú tekur.

HIV smitaðir einstaklingar sem lifa heilsusamlegu lífi og taka lyfin samkvæmt læknisráði hafa í dag svipaðar lífshorfur og ósmitaðir einstaklingar.

Ítarlegar upplýsingar um HIV og alnæmi má lesa á vef Landspítalans í bæklingnum: „Að vera HIV jákvæður“.

Hér er hægt að finna upplýsingar um réttindi við veikindi.