Heilsukvíðaröskun er algeng geðröskun sem einkennist af því að eyða miklum tíma í að hafa áhyggjur af því að vera með einhvern alvarlegan sjúkdóm eða af því að vera að þróa með sér sjúkdóm. Áhyggjurnar verða það miklar að þær hafa áhrif á daglegt líf.
Öll finna öðru hvoru fyrir kvíða og stundum snýst kvíðinn um líkamlegar breytingar eða líkamleg einkenni. Yfirleitt líður kvíðinn fljótlega hjá og haldið er áfram með verkefni dagsins.
Ef kvíðinn er orðinn það hamlandi til lengri tíma að hann hefur áhrif á lífsgæði og getu til að sinna og njóta athafna daglegs lífs getur verið að um sé að ræða heilsukvíðaröskun.
Heilsukvíðaröskun er kvíðaröskun og er meira en það að taka stundum eftir líkamlegum einkennum, hafa öðru hvoru skammtíma áhyggjur af því að það geti verið eitthvað alvarlegt að heilsunni eða að fletta stundum upp líkamlegum einkennum á netinu.
Ef áhyggjurnar snúast um að smitast af einhverjum sjúkdómi eða að smita aðra af sjúkdómi getur verið að um sé að ræða áráttu- og þráhyggjuröskun. Ef áhyggjurnar snúast um hræðslu við uppköst eða ælu getur verið að um sé að ræða sértæka fælni.
Röskunin felur í sér endurteknar óboðnar og áleitnar þráhyggjukenndar hugsanir um heilsuna sem valda kvíða og leiða til áráttuhegðunar sem getur leitt til tímabundins léttis. Þráhyggjuhugsanir koma hinsvegar fljótt aftur ásamt kvíðanum og þar með hefst vítahringurinn aftur.
Heilsukvíðaröskun getur verið mjög streituvaldandi og haft verulega hamlandi áhrif á daglegt líf, sjálfstraust, fjölskyldulíf, nám og störf. Mörg þurfa sértæka meðferð til að takast á við þessa kvíðaröskun.
Ef einkenni heilsukvíðaröskunar eru farin að hafa áhrif á líf þitt og lífsgæði er mikilvægt að leita hjálpar. Til er áhrifarík meðferð við þessari kvíðaröskun. Án viðeigandi meðferðar geta kvíðaraskanir einnig leitt af sér annan vanda, sem dæmi þunglyndi.
Einkenni
Einkenni heilsukvíðaröskunar birtast á mismunandi hátt og það er mismunandi á milli fólks hvaða hugsanir eru sérstaklega erfiðar og hvað veldur mestum kvíða. Heilsukvíðaröskun einkennist af þráhyggju (hugsanir), áráttum (hegðun) og tilfinningum eins og kvíða.
Hugsanir
Það getur verið að um sé að ræða heilsukvíðaröskun ef áhyggjurnar snúast til dæmis um:
- Heilsuna, að vera með alvarlegan sjúkdóm eða einhvern tiltekinn sjúkdóm
- Að læknir eða læknisrannsóknir hafi misst af einhverju mikilvægu
Það getur verið að um sé að ræða heilsukvíðaröskun ef óþægilegar hugsanir um heilsuna taka það mikið pláss í huganum að þær trufla aðrar hugsanir og geta þannig haft áhrif á einbeitinguna.
Gott er að hafa í huga að hugsanir sem vekja kvíða geta leitt til einkenna kvíða eins og höfuðverkja eða aukins hjartslátts sem hægt er að mistúlka sem einkenni líkamlegs sjúkdóms.
Hegðun
Margt fólk með heilsukvíðaröskun finnur sig knúið til að framkvæma hegðun, hvort sem er líkamlega eða huglæga, til að létta tímabundið á óþægindum sem stafa af þráhyggjuhugsunum um veikindi eða líkamleg einkenni.
Hegðunin hefst sem leið til þess að reyna að draga úr eða fyrirbyggja kvíðann sem þráhyggjuhugsunin veldur. Hegðuninni er ætlað að afstýra því sem er óttast og er því einskonar öryggisráðstöfun. Til dæmis, ef óttinn snýst um að líkamleg einkenni séu merki um alvarlegri heilbrigðisvanda gæti hegðunin verið að leita til læknis eða biðja um skimun fyrir þeim vanda.
Hegðunin getur verið rökrétt í fyrstu en yfirleitt eykst hún með þróun vandans og getur tekið mikinn tíma og getur þar af leiðandi skemmt fyrir öðrum verkefnum sem þarf að sinna. Mörg með heilsukvíðaröskun átta sig á því að hegðunin tekur óþarflega mikinn tíma eða orku og er ekki endilega rökrétt en eiga erfitt með að sleppa henni og upplifa þörf fyrir að framkvæma hana „til öryggis“.
Dæmi um algenga áréttukennda hegðun í heilsukvíðaröskun:
- Athuga líkamann reglulega og endurtekið með tilliti til sjúkdómseinkenna, svo sem hnúða, náladofa eða verkja
- Fylgjast með líkamlegum einkennum með tækjum eins og t.d. blóðþrýstingsmæli
- Leita þráhyggjukennt að heilsufarsupplýsingum á netinu eða í fjölmiðlum
- Ráðfæra sig við aðra til að fá fullvissu um að ekki sé um veikindi að ræða
- Forðast allt sem tengist alvarlegum veikindum, svo sem læknisfræðilega sjónvarpsþætti
- Hegða sér eins og veikur einstaklingur, t.d. forðast líkamlega áreynslu
- Fylgjast með þróun einkenna og bera saman við fyrri einkenni í huganum
- Hegðunin getur verið framkvæmd í huganum og er ekki alltaf sýnileg öðru fólki.
Líðan
Það getur verið að um sé að ræða heilsukvíðaröskun ef:
- Líkamleg einkenni eins og ógleði, sviti, skjálfti eða ör hjartsláttur aukast þegar hugsað er um heilsuna eða heilsufarsóttann
- Líkamlegar breytingar vekja upp kvíða eða ótta
- Brugðist er við með endurtekinni og áráttukenndri hegðun
Börn geta líka verið með kvíða. Einkenni kvíða hjá börnum geta meðal annars verið:
- Að gráta eða fara í uppnám oftar en venjulega
- Reiði eða pirringur
- Þurfa mikinn stuðning af foreldrum eða umönnunaraðilum
Börn geta líka haft áhyggjur af heilsunni. Einkenni geta verið svipuð og hjá fullorðnum.
Greining á geðrænum vanda
Notað er staðlað geðgreiningarviðtal til þess að meta einkenni og alvarleika geðraskana. Stundum þarf fleiri en eitt viðtal til þess að greina vandann. Mikilvægt er að tryggja rétta greiningu, þar sem rétt greining er forsenda þess að geta vísað í viðeigandi meðferð.
Við greiningu á geðrænum vanda er yfirleitt spurt um núverandi og fyrri sögu um líkamlega og andlega heilsu, félagsaðstæður, lífsstíl og streituvaldandi aðstæður. Spurt er um einkenni algengra geðraskana og annars geðheilbrigðisvanda, ásamt áhrifum einkenna á getu til að sinna daglegu lífi.
Við greiningu á geðröskun meta fagaðilar alvarleika eftir fjölda og tegund einkenna, hve lengi þau hafa verið til staðar og hömlun þeirra á daglegt líf. Spurt er um aðstæður sem valda kvíða, hugsanir eða áhyggjur í tengslum við slíkar aðstæður og hegðun í tengslum við það sem er óttast.
Fyrirkomulag matsviðtals er ólíkt eftir stöðvum. Á mörgum stöðvum er notast við rafræna spurningalista til þess að auka aðgengi og flýta fyrir þjónustu en víða eru matsviðtölin tekin í gegnum síma. Tímalengd matsviðtals getur verið allt að 90 mínútur en það fer eftir eðli vandans, fyrirkomulagi og aðstæðum hverju sinni. Í sumum tilfellum þarf fleira en eitt viðtal til þess að geta greint vandann og veitt ráðgjöf varðandi viðeigandi meðferð eða viðbrögð við vandanum.
Í sumum tilfellum ráðleggur heimilislæknir blóðprufu til að útiloka aðrar orsakir fyrir einkennunum. Í sumum tilfellum er framkvæmd læknisskoðun til þess að útiloka aðrar orsakir fyrir einkennum. Notendur hafa rétt á túlki ef þörf krefur.
- Skrifa niður og hafa í huga nýleg dæmi sem eru lýsandi fyrir vandann. Auðveldast er að taka dæmi um aðstæður sem eru nýliðnar, það er að segja aðstæður sem ollu þér kvíða undanfarna viku.
- Skrifa niður hvar vandinn átti sér stað síðast, með hverjum, hvað var í gangi, hvað var óþægilegt við aðstæðurnar og hvaða hegðun notuð til að bregðast við þeim eða minnka vanlíðan.
- Samtal við fagaðila er trúnaðarmál og það er mikilvægt að segja rétt frá til þess að auka líkur á viðeigandi þjónustu. Trúnaður er aðeins brotinn ef talið er að notandi eða einhver annar geti orðið fyrir skaða.
Meðferð
Meðferð fullorðinna með heilsukvíðaröskun
Mælt er með samtalsmeðferð í einstaklingsmeðferð til þess að takast á við einkenni heilsukvíðaröskunar, nánar tiltekið hugrænni atferlismeðferð, sem veitt er af sérþjálfuðum meðferðaraðila. Hugræn atferlismeðferð (HAM) við heilsukvíðaröskun felur yfirleitt í sér vikuleg einstaklingsviðtöl, yfirleitt 60 mín í senn fyrstu 5-8 vikurnar, í 7-14 skipti á heildina litið.
Á heilsugæslu fer fram meðferð við vægum til miðlungsalvarlegum einkennum kvíðaraskana, eins og heilsukvíðaröskun.
Mælt er með hugrænni atferlismeðferð við kvíðaröskunum byggt á hugrænni atferlismeðferð (HAM) fyrir börn og ungmenni.
Meðferðin er aðlöguð að aldri og kvíða barnsins og felur yfirleitt í sér aðstoð og samvinnu við umönnunaraðila. Það getur verið að skjólstæðingar fái þjálfun og sjálfshjálparefni til þess að nota á milli tíma. Stundum fer meðferðin fram í litlum hópum.
Hvað get ég gert?
Sjálfshjálp getur verið gagnlegt fyrsta skref til að takast á við einkenni heilsukvíðaröskunar, áður en leitað er til fagaðila.
Eftirfarandi ráðleggingar gætu hjálpað við vægum vanda:
- Það getur verið hjálplegt að skilja kvíðann betur og prófa að takast á við hann á annan hátt, til dæmis með að breyta um hegðun eins og að draga úr öryggisráðstöfunum.
- Það er hægt að draga hægt og rólega úr því að kanna líkamann, biðja um hughreystingu eða skoða heilsufarstengdar upplýsingar og færa athyglina frekar yfir á önnur verkefni sem skipta máli hverju sinni.
Almennar ráðleggingar til þess að takast á við væg einkenni kvíða má finna hér.
Ef grunur leikur á að barn geti verið að glíma við einkenni heilsukvíðaröskunar er mikilvægt að ræða við það.
Það þarf að taka barnið alvarlega, sama um hvað málið snýst eða hvað öðrum finnst. Það er ekki víst að fullorðnum finnist það vera stórt vandamál en barnið gæti upplifað það sem slíkt.
Ef barn vill ekki tala við foreldri/forráðamann, skal láta það vita af áhyggjum af líðan þess og að foreldrar/forráðamenn séu til staðar ef barnið þarf á þeim að halda. Gott er að hvetja barnið til þess að ræða við einhvern sem það treystir, eins og annan fjölskyldumeðlim, vin eða einhvern í skólanum.
Það gæti verið hjálplegt að ræða við aðra sem þekkja barnið eins og aðra umönnunaraðila eða fjölskyldumeðlimi. Það getur verið gott að ræða við skóla barnsins til þess að komast að því hvort áhyggjur hafi vaknað þar. Æskilegt er að sé til staðar gott samstarf á milli skóla og fjölskyldu til þess að tryggja að barnið fái þann stuðning þar sem það þarf.
Mikilvægt er að huga m.a. að grunnþörfum barnsins, að barnið:
- Fái nægan svefn
- Borði reglulega hollt og fjölbreytt mataræði
- Hreyfi sig reglulega
- Eigi vini
- Geti sinnt eigin áhugamálum
- Upplifi öryggi í daglegu lífi
Hér er að finna ráðleggingar í tengslum við kvíða hjá börnum.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Hægt er að leita til heilsugæslunnar til þess að fá mat á einkennum heilsukvíðaröskunar, sérstaklega ef kvíðinn er farinn að hafa mikil áhrif á líf og lífsgæði. Á heilsugæslu fer fram mat og meðferð við algengum geðrænum vanda eins og heilsukvíðaröskun.
Við grun um heilsukvíðaröskun gæti verið vísað áfram til sálfræðings á heilsugæslustöðinni sem getur gert ítarlegt mat á vanda og veitt sértæka meðferð við heilsukvíðaröskun. Ef sálfræðiþjónustu er óskað skal hafa samband við þá heilsugæslustöð sem notandi er skráður á.
Í sumum tilfellum er vísað áfram í þjónustu á öðrum þjónustustigum eins og í geðheilsuteymi eða í sérhæfða þjónustu, til dæmis á spítalanum. Einnig er hægt að leita til fagaðila á stofu.
Finna næstu heilsugæslu hér.