Heilahimnubólga (e. meningitis) er bráð eða krónísk bólga í himnum sem umlykja heila og mænu. Oftast er bakteríu- eða veirusýking sem veldur þessari bólgu en hún getur líka orsakast af sveppasýkingu eða sýkingu af völdum sníkjudýra.
Fólk á öllum aldri getur fengið heilahimnubólgu þó hún sé algengari meðal barna, unglinga og ungs fólks. Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkinga er alvarlegasta form heilahimnubólgu og er unnt að fá bólusetningu gegn nokkrum tegundum þeirra.
Einkenni
Fyrstu einkenni heilahimnubólgu geta komið snögglega fram. Þau algengustu eru:
- Hiti
- Höfuðverkur
- Hnakkastífleiki
- Punktblæðingar eða marblettir á húð
- Krampar
- Ljósfælni
- Lystarleysi
- Meðvitundarskerðing
- Mikil þreyta
- Niðurgangur
- Ógleði
Börn geta auk þess haft eftirfarandi einkenni:
- Lystarleysi
- Óróleiki
- Hávær grátur
- Stífleiki í líkama, almennur slappleiki og meðvitundarskerðing
- Afmörkuð útbungandi húð ofarlega á höfði
Orsakir
Heilahimnubólga getur orsakast af:
- Bakteríum
- Veirum
- Sveppasýkingu
- Sníkjudýrum
Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkingar er sjaldgæfari en um leið alvarlegri en heilahimnubólga sem orsakast af öðrum sýkingum. Mikilvægt er að leita til læknis um leið og grunur vaknar um heilahimnubólgu.
Þekktar bakteríusýkingar sem valdið geta alvarlegri heilahimnubólgu eru:
Smitleiðir
Sýkingar sem valdið geta heilahimnubólgu berast manna á milli með:
Úðasmiti: t.d. hósta eða hnerra
Snertismiti: t.d. kossar eða handaband
Smitberar eru oftast einkennalausir.
Greining
Sé grunur um heilahimnubólgu er gerð ástunga á mænu til að unnt sé að rannsaka mænuvökva og fá staðfest hvort um bakteríu, veiru- eða aðra sýkingu sé að ræða. Mikilvægt er að greina orsök hið fyrsta til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar sýkingarinnar.
Meðferð
Meðferð er háð orsök sjúkdómsins. Helsta lyfjagjöf er:
- Sýklalyf
- Veirulyf
- Sterar
Fyrsta meðferð við bráðri heilahimnubólgu eru sýklalyf en stundum eru einnig notuð veirulyf og sterar til að koma í veg fyrir fylgikvilla af völdum mikillar bólgu í heilahimnu. Önnur meðferð fer eftir einkennum.
Þegar heilahimnubólga hefur verið greind getur fólk í nánasta umhverfi við sjúklinginn þurft á fyrirbyggjandi lyfjameðferð að halda.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Í neyð skal hringja 112
Alltaf ætti að leita með börn á barnaspítala eða fara á bráðamóttöku sé grunur um heilahimnubólgu.
Hægt er að fá ráð hjá heilbrigðisstarfsfólki með því að hringja í 1700
Hvað get ég gert?
Í vægari tilfellum getur læknir metið að óhætt sé að dvelja heima til að ná bata. Oftast er þá um fullorðna að ræða sem jafna sig yfirleitt á heilahimnubólgunni án alvarlegra vandamála. Flestum líður betur á 7 til 10 dögum.
Mikilvægt er að huga að eftirfarandi heima:
- Drekka vel af vökva
- Ef um ógleði eða uppköst eru að ræða er gott að borða létt fæði og lítið í einu
- Næg hvíld
- Taka verkjalyf við höfuðverk eða almennum verkjum
Fylgikvillar
Heilahimnubólga getur leitt af sér ýmsa fylgikvilla sem geta verið varanlegir eða getur tekið tíma að losna við:
- Einbeitingarleysi
- Heyrnarskerðing eða varanlegt heyrnarleysi
- Jafnvægisleysi
- Minnisskerðing
- Vandamál tengd líkamsstarfsemi eins og liðbólgur og nýrnavandamál
Forvarnir
Hægt er að fá bólusetningu gegn ákveðnum tegundum heilahimnubólgu sem orsakast af bakteríum. Hér á landi er bólusett við:
- Haemofilus influenzae baktería af gerð b (Hib): 3, 5 og 12 mán.
- Pneumókokkum: 3, 5 og 12 mán. og ráðlagt fyrir allt fólk eldra en 60 ára
- Hettusótt og mislingum, (MRR bóluefni): 18 mán. og 12 ára
- Meningókokkum ACWY: 12 mán.
Með tilkomu þessarra bólusetninga snarfækkaði tilfellum heilahimnubólgu á Íslandi.