Hegðunarröskun (e. conduct disorder) er hegðunarvandi barna og unglinga sem lýsir sér þannig að réttur annarra er ekki virtur og/eða reglur samfélagsins eru brotnar endurtekið. Þá þarf hegðunin að valda markverðri skerðingu í samskiptum við jafnaldra, innan fjölskyldu eða í skóla.
Talið er að um 2-10% barna greinist með hegðunarröskun og er röskunin algengari meðal drengja.
Einkenni og greining
Til þess að hegðun barns eða unglings sé greind hegðunarröskun þurfa þrjú einkenni af 15 að hafa verið til staðar á síðustu 12 mánuðum þar sem a.m.k. eitt þeirra hefur verið viðvarandi síðastliðna sex mánuði.
Árásargirni í garð fólks eða dýra
1. Leggur oft aðra í einelti, hótar eða ógnar
2. Á oft frumkvæði að slagsmálum
3. Hefur notað vopn sem getur valdið alvarlegum líkamlegum áverkum á öðrum
4. Hefur sýnt líkamlega harðneskju gagnvart öðru fólki
5. Hefur sýnt líkamlega harðneskju gagnvart dýrum
6. Hefur stolið andspænis fórnarlambi til dæmis rán, hrifsa veski, kúgun eða vopnað rán
7. Hefur þvingað einhvern til kynferðislegra athafna
Skemmdarverk
8. Hefur stundað íkveikju með þeim ásetningi að valda skemmdum
9. Hefur vísvitandi eyðilagt eignir annarra án þess að kveikja í
Svik og þjófnaður
10. Hefur brotist inn á heimili annarra eða inn í bíl annarra
11. Lýgur oft til að fá hluti eða greiða eða til að forðast skyldur
12. Hefur stolið verðmætum án þess að mæta fórnarlambi, til dæmis þjónaður úr búð án þess að brjótast inn eða falsanir
Alvarleg brot á reglum
13. Barn yngra en 13 ára er oft úti á nóttunni þrátt fyrir bann foreldra
14. Hefur strokið úr foreldrahúsum yfir heila nótt að minnsta kosti tvisvar eða einu sinni án þess að snúa aftur í lengri tíma
15. Barn yngra en 13 ára skrópar oft í skóla
Gerður er greinamunur á hvort barnið/unglingurinn upplifi takmarkaðar félagslegar tilfinningar. Barnið eða unglingurinn þarf þá til viðbótar því sem áður er talið einnig að sýna tvö af eftirfarandi einkennum á 12 mánaða tímabili í mismunandi aðstæðum við mismunandi fólk:
1. Skortur á eftirsjá eða sektarkennd
2. Kaldranaleg/ur, skortur á samúð
3. Hirðulaus um eigin frammistöðu í skóla, vinnu eða við aðrar mikilvægar athafnir
4. Yfirborðskennd eða skert tilfinningatjáning
Skoðað er hvort hegðunin komi fram í hópi jafnaldra eða hvort hegðunin sé að frumkvæði barnsins.
Flokkun einkenna:
- Væg - veldur öðrum minniháttar skaða
- Miðlungs - veldur öðrum miðlungs skaða, líkt og að stela, skemma eigur annarra
- Alvarleg - veldur öðrum allverulegum skaða
Fyrstu einkenni hegðunarröskunar koma oft fram á miðstigi grunnskóla og fram að unglingsárum.
Hvað get ég gert?
Ef grunur vaknar um að barn/unglingur sé með hegðunarröskun er fyrsta skrefið gjarnan að fá ráðleggingar í nærumhverfi barnsins. Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er best að leita til:
- kennara
- skólastjóra
- námsráðgjafa
- skólahjúkrunarfræðings
Þessir aðilar geta óskað eftir frumgreiningu hjá sérfræðiþjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu.
Einnig er hægt að leita til heimilis- eða barnalæknis eða sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Ef frumgreining gefur til kynna að nánari greiningar sé þörf er málum vísað á Þroska- og hegðunarstöð eða Barna- og unglingageðdeild Landspítala ef barnið er í þjónustu þar.