Fara á efnissvæði

Hægðatregða hjá fullorðnum

Kaflar
Útgáfudagur

Hægðatregða (e. constipation) er algengt heilsufarsvandamál og orsakir hennar margvíslegar. Það er einstaklingsbundið hversu oft fólk hefur hægðir, sum hafa hægðir einu sinni í viku meðan að önnur hafa hægðir nokkrum sinnum á dag.

Hægðatregða er óeðlileg hægðalosun og/eða erfiðleikar við að hafa hægðir.

Einkenni

  • Harðar hægðir og erfiðleikar við losun þeirra
  • Hægðalosun sjaldnar en þrisvar í viku
  • Kviðverkur
  • Harður og þaninn kviður
  • Tilfinning um ófullkomna tæmingu
  • Verkir og þrýstingur við endaþarm við að hafa hægðir
  • Minni svengdartilfinning en venjulega
  • Ógleðitilfinning
  • Vanlíðan
  • Afrifur við endaþarmsop geta myndast við langvarandi hægðatregðu og valdið blæðingu
  • Ef um langvarandi hægðatregðu eða hægðastopp er að ræða geta hægðir stíflað ristilinn þannig að linar hægðir renna framhjá og skila sér út um endaþarm sem linar hægðir

Greining

Læknir getur greint hægðatregðu með viðtali, líkamsskoðun og mögulega ristilspeglun og yfirlitsröntgenmynd af kvið.

Helstu ástæður hægðatregðu hjá fullorðnum

Hægðatregða er algeng á síðustu vikum meðgöngu og allt að sex vikum eftir fæðingu.

Neðangreind lyf geta meðal annars valdið hægðatregðu:

  • Lyf sem innihalda kódein
  • Lyf sem innihalda morfín
  • Járn
  • Sum geðlyf
  • Blóðþrýstingslækkandi lyf sem teljast til kalsíumgangaloka
  • Parkinsonlyf

Mikilvægt er að einstaklingar sem taka þessi lyf séu meðvitaðir um aukna hættu á hægðatregðu og bregðist skjótt við ef einkenni koma fram. Mælt er með að lesa alltaf fylgiseðil lyfja.

Hvað get ég gert?

  • Auka neyslu trefjaríkrar fæðu, s.s. grænmetis, ávaxta og heilkorns
  • Mögulega neyta trefjaviðbótar svo sem Metamucil eða Husk
  • Drekka vatn, 1 – 2 lítra daglega
  • Auka hreyfingu, dagleg hreyfing í a.m.k. 30 mín. á dag
  • Fara reglulega á klósett og alltaf þegar þörf fyrir hægðalosun gerir vart við sig. Þarmahreyfingar aukast eftir máltíðir og eru virkastar á morgnana
  • Hjálplegt getur verið að setja koll undir fæturna þegar setið er á klósettinu
  • Draga úr neyslu fæðu sem eykur hægðatregðu, s.s. mjólkurafurðir, hvítt hveiti, hvít hrísgrjón og bláber
  • Velja frekar fæðutegundir sem vinna á móti hægðatregðu, s.s. sveskjur, kíví, rúsínur, rauðrófusafi, hörfræ og trefjarík fæða
  • Taka inn hægðamýkjandi olíu, t.d. paraffínolíu

Ef ofangreind ráð duga ekki má reyna hægðalyf sem fást án lyfseðils í apóteki og getur starfsfólks apóteka veitt ráðgjöf.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef eftirfarandi einkenni koma fram:

  • Hægðatregðan lagast ekki þrátt fyrir ofangreind ráð
  • Ef blóð er í hægðum
  • Slæmir kviðverkir
  • Kviðurinn verður skyndilega harður
  • Óskilgreint þyngdartap
  • Ef skyndileg breyting verður á útliti og formi hægða án skýringa 

Finna næstu heilsugæslu