Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hægðatregða hjá börnum

Kaflar
Útgáfudagur

Hægðatregða (e. constipation) er algengt vandamál hjá börnum. Helstu einkenni eru að hægðir eru fátíðari, harðar og lítið kemur í einu. Hægðatregðu fylgja oft kviðverkir við að losa hægðir.

Einkenni

  • Hægðir koma sjaldnar en venjulega eða sjaldnar en þrisvar í viku
  • Hægðir eru harðari en venjulega og litlar
  • Þaninn kviður
  • Sársauki eða erfiðleikar við hægðalosun
  • Klíníngur í buxum og barnið missir hægðir í buxur (á við þegar barn er hætt með bleiu)
  • Minni matarlyst

Helstu ástæður hægðatregðu hjá börnum

Orsakir hægðatregðu hjá börnum geta verið fjölmargar og eru þær yfirleitt tengdar mataræði, venjum, líðan og hegðun.

  • Mataræði: Borða of lítið af trefjaríkri fæðu s.s. grænmeti og ávöxtum
  • Vökvainntaka: Drekka of lítið af vökva
  • Hreyfing: Of lítil hreyfing
  • Breyting á venjum og líðan:
    • Barnið hættir á brjósti og fer yfir á þurrmjólk eða fasta fæðu
    • Barnið hættir með bleiu og á að venja það á klósett
    • Breytingar í umhverfi, s.s. ferðalög, upphaf skólagöngu eða breytingar hjá fjölskyldunni

Hvað get ég gert?

Hjá börnum er hægðatregða oftast væg og vandamálið lagast venjulega með einföldum breytingum. Prófaðu eftirfarandi:

Auka vökvainntöku

  • Barn sem er eingöngu á brjósti getur haft gagn að drekka meiri brjóstamjólk.
  • Barn sem drekkur þurrmjólk getur fengið smá vatn milli þess sem það drekkur fullnægjandi skammt af þurrmjólkurblöndu.
  • Bjóða eldri börnum reglulega vatn að drekka eða ávaxtasafa eins og sveskjusafa.

Hreyfing

  • Hreyfðu fætur barnsins mjúklega líkt og það sé að hjóla.
  • Nuddaðu magann með olíu.
  • Farðu í leiki með barninu sem kalla á hreyfingu og barnið hefur ánægju af.

Mataræði

  • Auka neyslu ávaxta og grænmetis, t.d. sveskjur, döðlur, fíkjur, blómkál, spergilkál, hvítkál - hægt að mauka saman við grauta.
  • Draga úr mjólkurmat hjá eldri börnum, hæfilegt magn er 2-3 glös á dag (skyr og jógúrt meðtalið).
  • Forðast kex, kökur og önnur sætindi.

Breyting á venjum og líðan

  • Vera vakandi fyrir einkennum hægðatregðu þegar barn hættir á brjósti og fer yfir á þurrmjólk eða fasta fæðu.
  • Ef barnið er með sprungur við endaþarminn er hægt að bera vaselínkrem eða annað mýkjandi krem á sprungurnar.
  • Ef hægðatregða kemur upp þegar verið er að venja af bleiu getur verið ráðlegt að stöðva það tímabundið og reyna aftur síðar.
  • Hjá börnum sem eru hætt með bleiu getur verið gagnlegt að sitja í 5-10 mín á salerni/koppi stuttu eftir máltíð.
  • Látið barnið hafa eitthvað undir fætur þegar það situr á salerni svo þeir lafi ekki, þá nær barnið að slaka betur á.
  • Umbunarkerfi við salernisferðir getur gagnast eldri börnum, t.d. að gefa lítinn límmiða eftir hverja ferð og stóran límmiða ef barnið losar hægðir.

Ferðalög

  • Löng kyrrseta í bílum og flugvélum. Gott að leyfa börnunum að standa upp og hreyfa sig.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef:

  • Barn er yngra en fjögurra mánaða
  • Barnið er kvalið af verkjum
  • Barn er oft með hægðatregðu
  • Ráðin heima skila ekki árangri
  • Blóð er í hægðum

Vaktsími heilsugæslunnar 1700 er opinn allan sólarhringinn. Finndu næstu heilsugæslu hér.