Fara á efnissvæði

Glerungseyðing tanna

Kaflar
Útgáfudagur

Glerungseyðing (e. dental erosion) er það kallað þegar sýra leysir upp tannvef. Bein tannkrónunnar er hulið hörðu lagi sem nefnt er glerungur. Glerungurinn er harðasti vefur líkamans og er 95% steinefni en að öðru leyti vatn og lífræn efni.

Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi. Glerungseyðing gæti orðið tannsjúkdómur framtíðarinnar í ljósi þess að neysla ungmenna á orkudrykkjum er stöðugt að aukast.

Helstu ástæður glerungseyðingar

Þegar fólk drekkur eða borðar eitthvað sem er súrt, eins og t.d. gosdrykki og orkudrykki getur það skaðað tennurnar. Ysta lag glerungsins leysist upp. Mjög þunnt lag af yfirborði tannarinnar skolast burt og kemur ekki aftur.

Form tannanna breytist. Fyllingar í jöxlum virðast rísa upp yfir glerunginn sem áður var þeim jafnhár. Glerungur framtanna eyðist að innanverðu og við það þynnast tennurnar.

Í fyrstu er glerungseyðing sársaukalaus og erfitt er að sjá hana sjálfur. Á seinni stigum geta tennurnar hins vegar orðið næmari fyrir kulda og hita og viðkvæmar þegar þær eru burstaðar.

Hvað get ég gert?

Ráðleggingar til að varðveita glerung tannanna. 

  • Takmarka neyslu súrra drykkja og matvæla og neyta þeirra eingöngu á matmálstímum.
  • Ljúka við súra drykkinn á stuttum tíma, frekar en að vera að dreypa á honum í langan tíma.
  • Það hlífir tönnum að drekka með röri. 
  • Skola munninn vel með vatni eftir að hafa fengið þér eitthvað súrt.
  • Bursta ekki tennurnar strax eftir súran mat eða drykk því hætta er á að bursta burt tannvef sem er viðkvæmur eftir sýruna.
  • Nota tannbursta með mjúkum hárum og tannkrem með litlu eða engu slípiefni.
  • Drekka frekar vatn eða mjólk í stað súrra drykkja.

Hér má sjá skýringarmyndbönd um glerungseyðingu.