Gáttatif (e. atrila fibrillation) er truflun á rafleiðni hjartans. Rafboð hjartans byrja þá ekki á réttum stað í hægri gátt hjartans (sínushnút) heldur berast mörg rafboð frá mismunandi stöðum í gáttinni en ekki ná öll til slegla hjartans (AV-hnúðs) til að framkalla samdrátt. Við þetta ástand slær hjartað í óreglulegum takti og oft mun hraðar en venjulega.
Eðlilegur hjartsláttur í hvíld er 60-100 slög á mínútu. Eðlilegt er að hjartsláttur sé hraðari við áreynslu en á samt sem áður að haldast reglulegur.
Hjartað á að slá reglulega til þess að koma blóði til vefja líkamans. Ef hjartað slær of hratt og/eða óreglulega getur orðið skerðing á þessari virkni og blóðflæði til vefjanna skerðist því í kjölfarið. Hjartað skiptist í fjögur hólf; Hægri og vinstri gátt og hægri og vinstri slegil. Hjartað slær blóðinu taktfast og reglulega milli þessa hólfa í hverjum hjartslætti. Þegar gáttatif á sér stað slá gáttirnar hraðar og ekki í takt við slátt sleglanna, við það minnkar geta hjartans til þess að slá blóðinu á fullnægjandi hátt til vefjanna.
Til eru tvær gerðir af gáttatifi en þær eru:
Gáttatif í köstum er þegar hjartsláttaróreglan kemur og fer. Gáttatifið hættir þá innan klukkustunda, daga eða vikna, ýmist með eða án meðferðar. Það fer eftir tíðni, lengd og áhrifum kastanna á daglegt líf einstaklingsins hvort þörf er á meðferð og þá hvaða meðferð. Eftir því sem köstin koma oftar og standa lengur aukast líkurnar á að gáttatifið verði langvinnt.
Langvinnt gáttatif er þegar hjartsláttaróreglan hefur varað í sex mánuði eða lengur og meðferð til að koma hjartanu aftur í réttan takt hefur ekki borið árangur. Langvinnt gáttatif krefst oftast meðferðar til að draga úr hættu á fylgikvillum og myndun blóðsega.
Einkenni
Gáttatif getur verið einkennalaust, sérstaklega hjá eldra fólki. Algengustu einkennin eru:
- Brjóstverkur
- Hjartsláttaróþægindi
- Hraður óreglulegur hjartsláttur
- Mæði
- Svimi eða yfirlið
- Ógleði
- Þreyta og úthaldsleysi
Áhættuþættir
Ákveðnir þættir geta aukið líkur á að fólk fái gáttatif:
- Aldur yfir 60 ára
- Áfengis og vímuefnaneysla
- Reykingar
- Tíð aukaslög
- Ofþyngd
- Óhófleg koffín neysla
- Streita
- Ættarsaga
- Karlmenn eru líklegri til að greinast með gáttatif en konur
Í sumum tilvikum tengja einstaklingar ákveðnar venjur eða aðstæður við tilkomu gáttatifs, til dæmis mikla streitu, neyslu koffíndrykkja og/eða neyslu áfengis eða vímuefna.
Orsakir
Orsök gáttatifs eru óþekktar. Algengara er að fólk með aðra kvilla fái gáttatif í kjölfarið en er þó ekki algilt. Gáttatif getur komið fram hjá fólki sem er hraust að öðru leiti.
Dæmi um hjartakvilla sem geta aukið líkur á gáttatifi:
- Háþrýstingur
- Hjartalokusjúkdómar
- Hjartavöðvasjúkdómar
- Kransæðasjúkdómar
- Meðfæddir hjartasjúkdómar
Aðrir sjúkdómar sem geta valdið gáttatifi eru:
Greining
- Hjartalínuriti
- Skoðun hjá lækni.
Stundum þarf frekari rannsóknir til að staðfesta greiningu, sérstaklega þegar um er að ræða gáttatif í köstum. Með sólarhrings síriti á hjartslætti (Holter) er hægt að fylgjast með takti hjartans yfir lengri tíma.
Einnig gæti þurft að framkvæma aðrar rannsóknir:
- Blóðprufur
- Hjartaómskoðun
- Hjartaþræðing
- Röntgenmyndataka
Meðferð
Meðferð getur bæði miðað að því að koma reglu á hjartsláttinn eða að hægja á óreglulegum takti, dæmi um meðferðarform:
- Lyfjameðferð
- Rafvending
- Brennsluaðgerð
- Gangráður
Fylgikvillar
Ef einstaklingur er með gáttatif og er ekki á meðferð vegna þess, er aukin áhætta á blóðtappamyndun. Slíkur blóðtappi getur síðan farið af stað í blóðrásinni og ferðast upp í lungu, hjarta eða heila en slíkt ástand getur verið lífshættulegt.
Hvað get ég gert?
- Stunda heilbrigðan lífsstíl: Borða holla fæðu, stunda reglulega hreyfingu og passa upp á hvíld og svefn
- Forðast vímuefni
- Gæta hófs í neyslu áfengis
- Draga úr streitu
- Taka lyf samkvæmt fyrirmælum læknis
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu á næstu heilsugæslu ef:
- Finnur fyrir óreglulegum hjartslætti án annarra einkenna
- Mæði án öndunarerfiðleika
- Hjartsláttur er viðvarandi of lágur (undir 60 slög á mínútu) eða of hár (yfir 100 slög á mínútu) í hvíld
- Svimi eða yfirlið
- Þreyta eða þrekleysi
Leita á næstu bráðamóttöku ef:
- Andnauð
- Brjóstverkir eða þyngsli fyrir brjósti
- Mæði eða öndunarerfiðleikar
- Máttminnkun