Gallsteinar (e. gallstones) eru litlar þéttingar eða steinar sem geta myndast í gallblöðrunni. Oftast myndast þeir úr kólesteróli. Fæstir finna fyrir óþægindum eða einkennum vegna þeirra og þá er ekki þörf á meðferð.
Gallblaðran er lítið pokalaga líffæri hægra megin í kviðarholi fyrir neðan lifrina. Lifrin framleiðir gall sem meltir fitu. Gallið safnast í gallblöðru sem hefur það hlutverk að geyma gall þar til meltingarkerfið þarf á því að halda. Ef melta þarf fitu losar gallblaðran gall til meltingarkerfisins.
Einkenni
Gallsteinar eru algengir og valda sjaldan einkennum. Ef gall þéttist of mikið og gallsteinn myndast sem festist í gallgangi og stíflar rennsli galls getur það valdið sárum krampakenndum verkjum sem geta varið í nokkra klukkutíma. Það geta liðið dagar og jafnvel mánuðir á milli verkjakasta.
Orsakir
Talið er að gallsteinar myndist vegna ójafnvægis í efnasamsetningu galls í gallblöðrunni. Í flestum tilfellum verður magn kólesteróls í galli of hátt og umfram kólesteról þéttist og myndar steina.
Gallsteinar eru algengir meðal fólks en helstu áhættuþættir eru:
- Ofþyngd
- Aldur yfir 40 ára
- Konur, einkum þær sem hafa eignast börn
Greining
Helstu þættir sem koma til sögu við greiningu:
- Sjúkrasaga
- Skoðun á kvið og einkennum
Dæmi um rannsóknir sem mögulega þarf að gera:
- Blóðprufur
- Ómskoðun (lifur, gall, bris)
- Segulómskoðun (MRI)
- Holsjár- röntgenmyndataka af gall- og brisrás (ERCP)
- Tölvusneiðmynd (CT) til að greina fylgikvilla gallsteina eins og bráða brisbólgu
Meðferð
Meðferðar er aðeins þörf ef gallsteinar valda einkennum eins og sárum kviðverkjum eða fylgikvillum eins bráðri gallblöðrubólgu, gulu eða bráðri brisbólgu. Í slíkum tilfellum er hugsanlegt að fjarlægja þurfi gallblöðruna. Það er tiltölulega lítil aðgerð.
Í einhverjum tilfellum geta gallsteinar valdið alvarlegum fylgikvillum. Þetta á einkum við ef gallsteinar stífla gallgang eða þeir færast til annarra líffæra innan meltingarkerfisins. Um leið og búið er að greina fólk með gallsteina er metið hversu mikilvægt og hvernig best sé að grípa inní. Þekktir fylgikvillar eru meðal annars:
- Bráð gallblöðrubólga
- Gula
- Sýking í gallgöngum
- Bráð brisbólga
- Krabbamein í gallblöðru eða gallgöngum
Hvað get ég gert?
- Nota verkjalyf við verkjum
- Halda dagbók yfir ítrekaða verki, hversu löngu eftir máltíð hann byrjar, hversu lengi hann varir í hvert skipti, hvað borðað var í það skiptið.
- Fylgja ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði
- Stunda reglulega hreyfingu
- Forðast fæðu með mikilli mettaðri fitu
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til heilsugæslunnar ef:
- Verkur er yfir hægri hluta kviðar með leiðni upp í öxl sem kemur oft stuttu eftir máltíðir.
- Ógleði og vanlíðan stuttu eftir máltíðir
- Gula - húðin er gulleit eða hvítan í augum er gul
Leita til bráðamóttöku ef:
- Skyndilegur og sársaukafullur verkur yfir hægri hluta kviðarhols sem minnkar ekki innan nokkurra klukkustunda
Ef verknum fylgir:
Talið er að jákvæðar breytingar á lífsstíl og að ná sinni kjörþyngd, sé fólk í yfirþyngd, dragi úr líkum eða geti komið í veg fyrir myndun gallsteina.
Með því að fylgja ráðleggingum landlæknis um heilsusamlegt mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda. Á þann hátt má stuðla að góðri heilsu og vellíðan.
Þar sem gallsteinar virðast aðallega myndast úr kólesteróli er ráðlagt að forðast fæðu með mikilli mettaðri fitu. Hér má nefna:
- Kökur og kex
- Smjör, smjörolía og dýrafita
- Rjómi og harðir ostar
- Pylsur og kjötálegg
- Kókos- og pálmaolíu
Ekki er mælt með skyndilausnum í mataræði og léttast of hratt með megrunarkúrum. Slíkt getur truflað samsetningu galls og aukið frekar hættuna á að gallsteinar myndist.
Fyrsta skrefið í að breyta venjum sínum er oft að taka stöðuna og vinna svo út frá því.