Fara á efnissvæði

Flís undir húð

Kaflar
Útgáfudagur

Flís (e. splinter) er oddmjótt brot af stærri hlut sem stingst í gegnum húð og situr fast í vef undir húðinni. Flísar geta verið úr nánast hvaða efni sem er en þær algengustu eru úr við, gleri eða málmi. Mikilvægt er að fjarlægja flísar fljótt því þær geta auðveldlega og á skömmum tíma valdið sýkingu. 

Einkenni

Flest fólk finnur fyrir sársauka þegar flís stingst í gegnum húð. Algengast er að flís stingist í fingurgóm sem er mjög viðkvæmur og sár staður en flísar geta þó stungist hvar sem er inn í líkamann. Þá er vel þekkt að fólk fái flís í iljar eftir að hafa stigið á stærri hlut sem hefur brotnað eða hefur hrjúft yfirborð. Mikilvægt er að leita aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks strax hafi flís farið í eða nálægt auga og einnig ef flís er stór og óhrein og óþægindi fylgja.  

Orsakir

Það er talað um flísar þegar lítil brot hafa klofnað eða brotnað frá stærri hlut og stingast inn í húðina. Eftir að flís hefur komist í gegnum húð getur hún setið föst í vef undir húðinni. Allar flísar geta stungist djúpt í húðina og valdið þar sýkingu ef þær eru ekki fjarlægðar.  

Greining

Oftast má sjá gat / sár á húðinni þar sem flísin hefur stungist inn. Þá myndast oft roði fljótlega í kringum flísina undir húðinni, enda er þetta aðskotahlutur sem líkaminn vill losa sig við hið fyrsta. Stundum stingast flísar svo djúpt í húð að þær eru ekki sjáanlegar en fólk er aumt yfir og í kringum þann stað þar sem flísin situr föst.  

Hvað get ég gert?

Oft er auðvelt að ná flísum út með hreinni og sótthreinsaðri flísatöng. Mikla þolinmæði þarf við að fjarlægja flís. Þegar sést í flísina er best að grípa ákveðið um enda hennar með tönginni, draga rólega út í sömu stefnu og hún fór inn. Ef það er ekki gert er hætt á að hún brotni og þá verður erfiðara að ná restinni út.

Í þeim tilfellum sem endinn á flísinni sést ekki má stinga með sótthreinsaðri nál og opna efsta lag á húðinni og reyna að sjá flísina með berum augum. Þá fyrst er hægt að ná utan um enda hennar og draga út í sömu stefnu og hún fór inn. Ekki kreista húðina meðan verið er að reyna að ná flísinni því þá eykst hættan á að hún brotni. Sumar flísar stingast á kaf og nær ómögulegt er að ná þeim. Þá er oft betra að fá aðstoð við fjarlægja flísar.

Þegar flís er komin út skiptir miklu máli að þvo svæðið með volgu sápuvatni og sótthreinsa með spritti. Sé gatið stórt eða það blæðir er mælt með að setja plástur yfir sótthreinsað svæðið. Plásturinn er hafður rétt á meðan húðin er að lokast til að fyrirbyggja að óhreinindi komist þar inn.  

Mikilvægt er að ná flísum sem fyrst út því þær geta auðveldlega valdið sýkingum. Það getur reynst betra að láta svæðið liggja í heitu sápuvatni áður en reynt er að ná flís út. Með því verður húðin mýkri, gatið þar sem flísin stakkst inn opnast frekar og auðveldara verður að ná í endann á flísinni.

Í einstaka tilfellum þarf að leita aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks til að ná erfiðum flísum út og þá sérstaklega glerflísum. Fólki er bent á að leita aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks eða fara beint á bráðamóttöku hafi flís stungist í auga eða nálægt auga.  

Í neyðartilfellum

Það er mikilvægt að fjarlægja stórar og óhreinar flísar út úr líkamanum hið fyrsta til að koma í veg fyrir sýkingar. Sé ekki hægt að fjarlægja þær heima er fólki bent á að hafa samband við heilsugæsluna eða fara beint á bráðamóttökuna. Sérstaklega ef flís er á viðkvæmum stað eins og í kringum auga. Þá er mikilvægt að leita aðstoðar ef húð er orðin rauð og þrútin í kringum flísina eða jafnvel gröftur farinn að skila sér út. Það er merki um sýkingu.  

Þegar flísar eru stórar og mjög óhreinar er það metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort gefin sé stífkrampasprauta, einkum ef langt er um liðið frá síðustu bólusetningu. 

Finna næstu heilsugæslu hér. 

Finna næstu bráðamóttöku hér.