Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Flís í húð

Kaflar
Útgáfudagur

Flís (e. splinter) eða oddhvass hlutur getur auðveldlega stungist í húð. Flís getur verið úr ýmsum efnum en algengast er að þær séu úr við, gleri eða málmi. Í flestum tilvikum finnst vel fyrir því ef flís stingst í húðina. 

Hvað get ég gert?

  • Ef sést í flísina er best að grípa ákveðið um enda hennar með sótthreinsaðri flísatöng og draga rólega út í sömu stefnu og hún fór inn. Ef það er ekki gert er hætt á að hún brotni og þá verður erfiðara að ná restinni út.
  • Sjáist ekki í endann á flísinni má stinga með sótthreinsaðri nál og opna efsta lag húðarinnar og reyna að sjá flísina með berum augum. Þá fyrst er hægt að ná utan um enda hennar og draga út í sömu stefnu og hún fór inn. Ekki kreista húðina meðan verið er að reyna að ná flísinni því þá eykst hættan á að hún brotni.
  • Stundum getur verið gott að hita húðina umhverfis flísina með volgu vatni. Það getur auðveldað að ná flísinni.
  • Finnist flísin ekki þarf að leita til heilsugæslunnar til að fá flísina fjarlægða.
  • Eftir að flísin hefur verið fjarlægð þarf að þvo svæðið vel með volgu sápuvatni, þerra, sótthreinsa og setja plástur yfir á meðan húðin er að lokast.
  • Öngul með agnhaldi sem komið er á kaf í húð þarf að fjarlægja þannig að oddi öngulsins sé stungið áfram og út úr húðinni. Þá má klippa öngulinn í sundur upp við húðina, taka um odd öngulsins og draga út í sömu stefnu og hann kom inn í húðina.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita á heilsugæsluna ef:

  • Ekki tekst að ná flísinni út
  • Öngull með agnhaldi stingst langt inn í húðina
  • Flís er í auga eða nálægt auga
  • Flís er úr jarðvegi og meira en 5 ár eru frá síðustu sprautu gegn stífkrampa. Hægt er að sjá yfirlit yfir bólusetningar á ,,mínar síður" Heilsuveru
  • Gröftur kemur úr sári eftir flís eða svæðið í kring roðnar, bólgnar eða æðasláttur finnst þar

Finna næstu heilsugæslu