Fara á efnissvæði

Flatlús

Kaflar
Útgáfudagur

Flatlús (e. Pubic lice) er sníkjudýr og finnst oftast í hárum við kynfæri. Lúsin getur einnig fundist í líkamshárum á öðrum stöðum svo sem í handakrika, bringuhárum, augabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.

Einkenni

Lúsin er um 2mm að lengd, grábrún að lit en verulega sjaldgæft er að sjá hana með berum augum. Einkenni koma oftast fram nokkrum vikum eftir smit, þau helstu eru:

  • Staðbundinn kláði, oft verri á nóttunni 
  • Litlir rauðir eða dökkir blettir á húðinni í kring, geta verið merki um lúsarbit
  • Litlar hvítar eða gular kúlur á hárum, geta verið merki um nit/egg lúsarinnar

Smitleiðir

  • Náin snerting, algengast er að lúsin smitist við kynmök
  • Deila handklæðum, sængurfatnaði eða fötum með einstakling með flatlús

Smokkur og aðrar getnaðarvarnir koma ekki í veg fyrir smit við flatlús en geta varið fólk gegn öðrum kynsjúkdómum. 

Meðferð

  • Bera lúsadrepandi krem á alla hærða staði. Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í apóteki. 
  • Bíða með allan líkamsþvott í tvo sólarhringa eftir að krem er borið á.
  • Bólfélagi og heimilisfólk á að fá meðferð á sama tíma svo smit endurtaki sig ekki, hvort sem einkenni eru til staðar eða ekki. 

Flatlús fer ekki án meðferðar.

Hvað get ég gert?

  • Ekki deila fötum, handklæði eða rúmfötum með öðru fólki ef grunur er um smit
  • Ekki stunda kynmök á meðan meðferð við flatlús stendur
  • Ryksuga rúmdýnuna
  • Þvo rúmföt, handklæði og föt eða setja föt og aðra tauhluti í lokaðann poka í að minnsta kosti viku til þess að koma í veg fyrir endursmit

Ef grunur er um flatlús eða ef óskað er eftir að láta skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að bóka tíma á heilsugæslu eða hjá göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 milli kl 08:15-15:00 eða á smáforriti Landspítalans. 

Finna næstu heilsugæslu hér