Fitulifur (e. Fat liver disease) er ástand þegar fita hefur safnast fyrir í lifrinni en ástæður þess geta verið af ólíkum toga.
Orsök getur verið vegna misnotkunar áfengis til lengri tíma eða af öðrum ástæðum, einkum offitu. Fitulifur er í flestum tilfellum meinlaus en getur þróast í krabbamein eða skorpulifur sé ekki brugðist við í tíma.
Einkenni
Sé starfsemi lifrar skert að einhverju leyti hlaðast eiturefni upp og komast út í líkamann í stað þess að skiljast út. Helstu einkenni skertrar lifrarstarfsemi:
- Breytt bragðskyn
- Hvíta í augum gulnar
- Gulleit húð
- Kláði í húð
- Mikil þreyta
- Minnkuð matarlyst
- Uppköst
- Útbrot
Lifrin er stærsti kirtill líkamans og hlutverk hennar er margþætt. Má nefna stjórn blóðsykurs, geymslu umframmagns af járni og A, D og K vítamíni, framleiðslu galls sem er nauðsynlegt fyrir meltingu og hreinsun eiturefna úr blóðinu til dæmis lyf, áfengi og eiturefni.
Orsakir
Tvær megin orsakir eru fyrir uppsöfnun fitu í lifur:
Vegna misnotkunar áfengis (e. Alchoholic steatohepatitis):
Mikil áfengisneysla til lengri tíma veldur álagi á lifrina en hún sér um að brjóta niður alkóhól svo unnt sé að skilja það út úr líkamanum. Ferlið við að brjóta niður alkóhól getur myndað skaðleg efni sem skemma lifrarfrumur, valda bólgu og veikja varnir líkamans. Langvarandi neysla áfengis veldur uppsöfnun á fitu og með tímanum verða skemmdir á lifur sem þróast geta í skorpulifur eða krabbamein. Hafi skorpulifur myndast eru skemmdir á lifur varanlegar. Það er lífshættulegt ástand enda verða þá truflanir á starfsemi lifrar, sem getur kallað á lifrarígræðslu.
Vegna annarra þátta en áfengis (e. Nonalcoholic fatty liver disease/NAFLD):
Það getur tekið mörg ár fyrir þessa tegund fitulifur að valda lifrarskemmdum eða skorpulifur. Mikilvægt er að gera lífsstílsbreytingar til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar. Ef fitulifur af þessum toga er greind snemma er möguleiki á að snúa þróuninni við og minnka fitusöfnun í lifur. Þekktar orsakir fyrir fitulifur sem ekki eru vegna áfengismisnotkunar:
- Ofþyngd
Offitu fylgir fitusöfnun í lifur en slíkt leiðir sjaldan til lifrarskemmda. Með breyttu mataræði og meiri hreyfingu má ná kjörþyngd og þá minnkar fitumagn í lifur sem og annars staðar í líkamanum. Þannig má snúa við ástandinu og koma í veg fyrir lifrarskemmdir.
- Sykursýki
Fitulifur er þekkt meðal þeirra sem greindir eru með sykursýki en hafa ekki fulla stjórn á sjúkdómnum. Sé sykursýki vel stjórnað með mataræði og lyfjum er lítil hætta á fitulifur.
- Eiturefni
Ákveðnar efnablöndur geta valdið fitulifur því skal ávallt fylgja leiðbeiningum við blöndun og notkun hættulegra efna.
- Lyf og vítamín
Ákveðnar tegundir lyfja, vítamína og bætiefna hafa áhrif á lifrina og geta aukið hættu á lifrarskemmdum. Má nefna A - vítamín í stærri skömmtum en ráðlögðum en slíkt skal aðeins taka undir eftirliti læknis. Mikilvægt er að fylgja fyrirmælum allra lyfja, vítamína og bætiefna og leita til heilsugæslunnar til að fá ráðleggingar eða ef fólk finnur fyrir einkennum frá lifur.
- Næringarskortur
Við mikinn og langvarandi næringarskort stækkar lifrin og fita safnast upp í henni. Sé mataræði próteinskert er meiri hætta á fitulifur.
Greining
Fitulifur finnst oft af tilviljun þegar blóðprufur eru teknar eða fólk sent í ómskoðun af hinum ýmsu ástæðum. Ef í ljós kemur að lifrarpróf eru brengluð eða lifrin stækkuð eru gerðar frekari rannsóknir.
Við grun um fitulifur eða skemmdir á lifur eru gerðar rannsóknir eins og sérstakar ómskoðanir á lifur, sneiðmyndataka og í einstaka tilfellum eru tekin sýni úr lifur með ástungu sem send eru til rannsóknar.
Meðferð
Í flestum tilfellum er fitulifur hættulaus en orsök fitulifrar stýrir meðferð. Engin lyf eru til sem sporna gegn fitulifur eða vinna á henni. Ráðlagt er að bæta mataræði og draga úr áfengisnotkun ef grunur vaknar um fitulifur til að koma í veg í fyrir alvarlegar afleiðingar hennar. Hægt er að beita lyfjameðferð gegn áhættuþáttum fitulifrar eins og háum blóðþrýstingi, háu kólesterólgildi, sykursýki og offitu.
Sé fólk greint með fitulifur er mikilvægt að vera undir eftirliti læknis sem fylgist með lifrarstarfsemi en einnig öðrum einkennum sem geta verið merki um versnun.
Hvað get ég gert?
Sé fólk greint með fitulifur kallar það á ákveðnar lífsstílsbreytingar:
- Viðhalda kjörþyngd
- Fjölbreytt mataræði og regluleg hreyfing
- Forðast áfengsneyslu
- Forðast eiturefni sem geta haft áhrif á lifur.
- Fylgja fyrirmælum allra lyfja hvort sem þau eru lyfseðilskyld eða seld í lausasölu. Fá ráðleggingar hjá heilbrigðisstarfólki þegar bætiefni eru tekin þar sem einhver þeirra geta haft alvarleg áhrif á lifrina.
- Reyna að viðhalda stjórn á blóðsykri
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef grunur er um skerta lifrarstarfsemi skal leita til heilsugæslunnar eða bráðamóttöku hið fyrsta.
Finna næstu heilsugæslu hér.