Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Eyrnasuð

Kaflar
Útgáfudagur

Eyrnasuð (e. tinnitus) er hljóð sem einstaklingurinn sjálfur heyrir en ekki aðrir í kringum hann. Hljóðið getur verið staðsett í öðru eða báðum eyrum en í sumum tilvikum inni í höfðinu. Það getur verið stöðugt eða komið og farið.

Suð getur verið fyrsta merki þess heyrn sé að dofna, en þó getur suð einnig verið til staðar hjá fólki með eðlilega heyrn. Suð er sjaldan alvarlegt einkenni.

Stöðugt eyrnasuð getur haft truflandi áhrif og takmarkað lífsgæði verulega en það er mjög einstaklingsbundið hversu mikil áhrif suð hefur á einstaklinga. Greina þarf orsök suðsins og því ættu allir sem finna fyrir eyrnasuði að leita til læknis.

Helstu ástæður eyrnasuðs

Orsakir eyrnasuðs eru ekki alltaf þekktar en eftirfarandi þættir geta verið hugsanlegir orsakavaldar:

  • Eyrnamergur – Ef of mikill eyrnamergur safnast saman og nær ekki að losna sjálfur getur hann valdið tímabundinni heyrnarskerðingu og ertingu sem getur valdið eyrnasuði.
  • Eyrnabólga og vökvi í eyra
  • Heyrnarskerðing – Eyrnasuð fylgir mjög oft heyrnartapi
  • Mikill hávaði - Hægt er að koma í veg fyrir eyrnasuð af völdum hávaða með því að forðast hávaða og nota hlífar þegar við á. Um hávaðaskemmdir í eyrum og forvarnir.
  • Stoðkerfisvandamál geta framkallað eyrnasuð, sérstaklega stífleiki í kjálkaliðnum, ef einstaklingar gnísta t.d. mikið tönnum á nóttunni og vöðvabólga í hálsi, herðum og öxlum.
  • Andlegt álag eins og streita og kvíði
  • Lyf – Nokkrar gerðir lyfja (t.d. verkjalyf, krampalyf, sýklalyf) geta valdið eyrnasuði og því ætti alltaf að ræða við sinn lækni ef þú tekur lyf
  • Sjúkdómar eins og hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki, MS, skjaldkirtilsvandamál og völundarsvimi hafa verið tengd eyrnasuði.
  • Höfuð- og hálsmeiðsli

Hvað get ég gert?

Ekki er til eitt ráð sem virkar og hentar öllum með eyrnasuð. Upplifun fólks getur verið mismunandi. Eftirfarandi atriði hafa reynst sumum gagnleg sem hafa eyrnasuð:

  • Hlusta á tónlist – Getur dregið úr skynjun á eyrnasuði. Sumum finnst gott að hlusta á upptökur af náttúruhljóðum.
  • Slökun og núvitund – Streita getur magnað eyrnasuð og því getur regluleg slökun og núvitund hjálpað.
  • Góðar svefnvenjur - Margir hafa gagn af því að sofna út frá tónlist eða öðrum hljóðum ef eyrnasuð heldur fyrir þeim vöku.
  • Vernda heyrn t.d. með því að nota heyrnarhlífar við háværar aðstæður. Mikill hávaði getur aukið eyrnasuð.
  • Sálfræðiaðstoð – Hugræn atferlismeðferð hefur reynst gagnleg aðferð til að takast á við eyrnasuð en meðferðin kennir einstaklingum að takast á við suðið með því að breyta upplifun sinni.
  • Stuðningshópar - Að tala við einhvern sem hefur reynslu af sama vandamáli hjálpar mörgum. Á facebook er hægt að ganga inn í hóp sem kallast Hópur um eyrnasuð.
  • Nálastungur
  • Dáleiðsla
  • Sumum finnst ýmis vítamín, bætiefni eða náttúrulyf hjálpa sér en engar áreiðanlegar rannsóknir styðja það. Vilji fólk prófa slíkt ætti að athuga að fæðubótarefni geta haft áhrif á lyf sem fólk tekur og því ætti alltaf að ráðfæra sig við lækni ef um það er að ræða.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Greina þarf orsök eyrnasuðs og því ætti alltaf að fara í skoðun hjá heimilislækni ef vart verður við eyrnasuð. Einfaldir þættir eins og eyrnamergur eða sýking í eyra sem auðvelt er að meðhöndla geta valdið suði í eyrum.

Ef suð kemur skyndilega og sérstaklega samhliða skyndilegri heyrnarskerðingu og svima skal leita til heilsugæslunnar sem fyrst.

Ef eyrnasuðið er komið til að vera að mati læknis og ráðin hér að ofan virðast ekki bæta líðan þá gætu eftirfarandi þættir í samráði við lækni hugsanlega gagnast:

  • Heyrnartæki – Ef eyrnasuði fylgir heyrnartap geta heyrnartæki verið góð hjálp þar sem það magnar umhverfishljóð og deyfir oft eyrnasuð um leið.
  • Svonefndir suðari og masker eru tæki sem má reyna en þau geta sent samskonar hljóð í eyrað og virkar þá sem móthljóð frá innra hljóðinu.
  • Lyf – ýmis lyf er hægt að reyna við eyrnasuði til að draga úr styrk suðsins eða hjálpa við að umbera það. Mikilvægt er þó að ræða hugsanlega aukaverkanir af því lyfi sem læknir ávísar þar sem mörg lyf geta haft aukaverkanir sem valda e.t.v. meiri vandamálum en eyrnasuðið sjálft.

Finna næstu heilsugæslustöð hér.