Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Exem

Kaflar
Útgáfudagur

Exem (e. dermatitis) einkennist af litlum upphleyptum útbrotum á yfirborði húðar sem valda oft óþægindum. Algengt er að fólk glími við exem til lengri tíma. Einkenni exems hjá börnum geta minnkað og jafnvel horfið þegar þau eldast. 

Helstu ástæður exems

Exem getur komið fram vegna minni hæfileika húðar til að framleiða raka. Húðin verður því þurr og viðkvæm og rauðleit útbrot koma fram. Exem getur erfst í fjölskyldum en það er ekki smitandi.

Einkenni

Útbrotin eru yfirleitt staðbundin á húð og einkennast oftast af roða, þurrki og kláða.

Exem útbrot geta komið fram hvar sem er á líkamanum. Algengast er að þau komi fram á eftirfarandi svæðum:

  • Bak 
  • Hné að framanverðu
  • Olnbogar að utan- og innanverðu
  • Háls
  • Hársverði
  • Hendur

Til eru mismunandi tegundir af exem útbrotum:

  • Bráðaofnæmis exem (e. atopic eczema) er algengasta gerðin og erfist gjarnan. Slíkt exem er oft tengt við aðra sjúkdóma eins og til dæmis astma.
  • Snertiexem stafar af snertingu við tiltekið efni til dæmis fatnað úr ull.
  • Æðahnútabólga, einnig þekkt sem bláæða- eða stasexem, er langtíma húðsjúkdómur sem kemur fram á fótleggjum. Það er algengt hjá fólki með æðahnúta.
  • Flasa einkennist af rauðum, hreistruðum blettum sem geta myndast í hársverði, hliðum nefs, augabrúnum  og eyrum.
  • Hringlaga exem (e.discoid dermatitis), er langtíma húðsjúkdómur sem veldur því að húðin verður aum, bólgin og sprungin og útbrot verða hringlaga eða sporöskjulaga.
  • Blöðruexi  (e. dyshidrotic eczema) veldur því að litlar blöðrur myndast oftast á fingrum, í lófum og stundum á iljum.
  • Sólarexem getur verið af ýmsum toga. Það lýsir sér eins og mikill sólbruni í húð og einkennist af útbrotum sem koma einungis á þau húðsvæði sem sólin hefur skinið á.

Þættir sem geta haft neikvæð áhrif á exem

  • Ertandi efni eins og sápur, sjampó og ilmefni
  • Umhverfisþættir svo sem kalt og þurrt loftslag, ryk, mygla, frjókorn og hár frá gæludýrum
  • Fæðuofnæmi til dæmis mjólk, egg, hnetur og hveiti.
  • Sérstök efni í fatnaði eins og ull og plast, gerviefni
  • Hormónabreytingar meðal kvenna, til dæmis getur exem versnað nokkra daga fyrir blæðingar eða á meðgöngu
  • Húðsýkingar
  • Streita

Hvað get ég gert?

Markmið meðferðar við exemi er að vinna á útbrotunum og halda þeim í skefjum en ekki er til lækning við exemi. Sjálfsumönnun er stór þáttur í meðferð og mikilvægt fyrir hvern og einn að þekkja einkenni exems og huga vel að húð sinni þegar útbrot eru til staðar.

  • Forðastu það sem getur haft áhrif á exem útbrot eins og sérstök efni í fatnaði, sterkar sápur, ilmefni o.fl. Gott er að velja mildar og ilmefnalausar sápur sem valda ekki ertingu í húð.
  • Gott getur verið að klæðast mjúkum fatnaði til dæmis úr bómull. Ef hiti frá umhverfi hefur áhrif á exem er gott að stilla hita í hóf á heimilinu, sérstaklega í svefnherbergi. 
  • Breytingar á lífsstíl og mataræði getur hjálpað til að halda exem útbrotum í skefjum. Ef um staðfest fæðuofnæmi er að ræða eins og ofnæmi fyrir mjólk, hnetum og eggjum er mikilvægt að forðast slíkar fæðutegundir. Hafa þarf í huga að taka inn vítamín og steinefni. Mikilvægt er að fá ráðleggingar frá heilbrigðisstarfsfólki ef gera á miklar breytingar varðandi mataræði.
  • Húðmeðferð sem miðar að notkun á rakagefandi kremum og jafnvel kremum sem innihalda stera. Mild sterakrem draga úr kláða og óþægindum. Þau fást án lyfseðils í apótekum. 
  • Ekki klóra í húðina þar sem það getur aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling dregur úr kláða ásamt því að hægt er að fá lyf s.s. Histasín og Lóritín sem slá á kláða án lyfseðils í apótekum.
  • Í lagi er að taka verkjalyf sem fást án lyfseðils í apótekum ef verkir eru til staðar í húð.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Exem getur verið þess eðlis að það þurfi aðstoð frá heilbrigðisstarfsmanni.

Ef eftirfarandi er til staðar skaltu leita til heilsugæslunnar sem fyrst:

  • Nýtilkomin útbrot er að ræða sem lagast ekki á nokkrum dögum þrátt fyrir ráð heima.
  • Exem útbrot sem vitað er um fyrir, lagast ekki á nokkrum dögum eða versna.
  • Ef þarf lyfseðil fyrir kremi sem inniheldur sterkari stera.
  • Einkenni húðsýkingar svo sem roði, hiti, aukinn sársauki og gröftur eru til staðar.
  • Exem útbrot valda vanlíðan og hafa áhrif á daglegt líf.

Finna næstu heilsugæslu.