Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Einkirningasótt

Kaflar
Útgáfudagur

Einkirningasótt (e. glandular fever/mononucleosis) er veirusýking af völdum human herpesvirus týpu 4 sem nefnist Ebstein-Barr (EBV). Sjúkdómurinn hefur einnig verið nefndur Kossasótt þar sem helsta smitleið veirunnar er með munnvatni. 

Einkirningasótt er að jafnaði hættulaus ef ráðleggingum er fylgt. Mótefni sem myndast gegn veirunni endast ævilangt og ekki er hægt að fá einkirningasótt nema einu sinni.

Einkenni

Margir fá veiruna sem börn og fá þá oft engin einkenni. Þeir sem smitast á unglings- eða fullorðinsárum eru líklegri til að fá eftirfarandi einkenni:

  • Væg kvefeinkenni í upphafi
  • Hálssærindi
  • Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
  • Eitlastækkanir í hálsi, handarkrikum og nára
  • Þreyta - getur verið mikil og varað í meira en mánuð
  • Höfuðverkur
  • Kviðverkir - um helmingur þeirra sem fá einkirningasótt fá miltisstækkun sem gengur yfirleitt til baka í þriðju viku veikinda.

Smitleiðir

Helsta smitleið veirunnar er með dropasmiti. Til að forðast smit er mikilvægt að:

  • Huga að almennu hreinlæti og handþvotti
  • Forðast að deila glösum eða mataráhöldum

Einkirningasótt er smitandi áður en einkenna verður vart og líða oftast 30-50 dagar þar til einkenni koma fram.  

Hvað get ég gert?

Engin læknismeðferð er til en eftirfarandi ráð geta bætt líðan og komið í veg fyrir fylgikvilla:

  • Hvíld
  • Forðast líkamlega áreynslu
  • Drekka 6-8 glös af vatni daglega og huga að næringu
  • Heitt sítrónuvatn með hunangi finnst sumum gott að fá
  • Taka verkjalyf svo sem paracetamól eða íbúprófen
  • Forðast áfengisneyslu

Flestir jafna sig á 1-2 vikum og þá er í lagi að fara í skóla eða vinnu þó þreyta geti enn verið til staðar.
Vegna áhrifa einkirningasóttar á miltað er ekki mælt með því að stunda íþróttir fyrr en a.m.k. fjórum vikum eftir að veikindi eru yfirstaðin.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Þar sem veikindin geta tekið tíma er mikilvægt að sýna einkennum þolinmæði en hins vegar ef eftirfarandi einkenni breytast eða versna er rétt að leita til heilsugæslunnar.

  • Hækkun hita
  • Sár hálsbólga
  • Aukinn slappleiki
  • Útbrot
  • Kviðverkir
  • Öndunarerfiðleikar

Leitaðu á bráðamóttöku ef eftirfarandi einkenni eru til staðar:

  • Miklir öndunarerfiðleikar
  • Kyngingarerfiðleikar
  • Miklir kviðverkir
  • Minnkuð meðvitund
  • Máttleysi í andliti eða útlimum
  • Minnkuð geta til að sinna veikindum sínum heima fyrir

Vaktsími heilsugæslunnar 1700 er opinn allan sólarhringinn.
Finndu næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku hér.