Fara á efnissvæði

E. coli bakteríusýking

Kaflar
Útgáfudagur

Til eru margar gerðir af Escherichia coli (E. coli) bakteríu og eru flestar gerðir meinlausar og hluti af heilbrigðri þarmaflóru líkamans. Sumar gerðir af E. coli valda sýkingu í meltingarvegi með því að framleiða ákveðið eiturefni sem orsakar helstu einkenni sýkingarinnar.

Smit berst í menguðum matvælum eða vatni og á milli einstaklinga með snertismiti. 

Nánari upplýsingar

Þær tegundir E. coli baktería sem framleiða eiturefni sem valda sýkingum eru ýmist nefndar verotoxín myndandi E. coli (VTEC) eða shigatoxin myndandi E. coli (STEC). 

STEC má skipta í STEC 1 og 2 þar sem að þau bera genin stx1 og stx2 sem mynda eiturefnin sem valda veikindunum. Hægt er að greina stx1 og stx2 í undirtegundir sem eru mismikið meinvaldandi.

Þegar saursýni eru send í ræktun er verið að skoða hvaða gerð af E. coli olli sýkingunni og fer það eftir niðurstöðum hvaða sóttvörum er ráðlagt í kjölfarið.

STEC tegund E. coli er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnarlæknis.

Einkenni

  • Niðurgangur
  • Kviðverkur
  • Ógleði og/eða uppköst

Þessi fyrstu einkenni ganga venjulega yfir á 5–7 dögum. Hluti þeirra sem smitast fá blóðugan niðurgang. 

Smitleiðir

  • Ein helsta smitleiðin er með menguðum matvælum og vatni.
  • Smit getur einnig verið á milli einstaklinga, helst hjá litlum börnum t.d. með leikföngum eða mataráhöldum. 
  • Beint smit frá dýrum í menn er einnig þekkt.

Tími frá smiti til einkenna frá meltingarvegi er yfirleitt 2–4 sólarhringar.

Greining

Saursýni er sent í ræktun til að staðfesta sýkingu. 

Meðferð

  • Drekka vel af vökva
  • Hvíld
  • Almennt er ekki mælt með sýklalyfjum vegna þess að þau geta aukið hættuna á alvarlegum fylgikvillum og þau virðast ekki hjálpa til við að meðhöndla sýkinguna.

Oftast fer meðferð fram heima með því að drekka vel og hvíla sig, í slæmum tilfellum þarf innlögn á sjúkrahús. 

Hvað get ég gert?

  • Drekka vel af vökva sem inniheldur sölt, til dæmis vatnsblandaða íþróttadrykki (t.d. Gatorade, Powerade, Aquarius), tærar bollasúpur eða léttsykrað te. Einnig er hægt að kaupa sykursaltvatnsblöndur í apóteki. Best er að drekka oft og lítið í einu.
  • Forðast skal sterkan, fituríkan og basaðan mat. Einnig sykraðar vörur eins og gosdrykki, ávaxtasafa og sæta safa. Kaffi og orkudrykki ætti einnig að forðast.
  • Ekki skal taka inn lyf til að stöðva niðurgang - það hægir á meltingarkerfinu og kemur í veg fyrir að líkaminn losi sig við eiturefnin. 
  • Ekki skal mæta til vinnu, skóla eða í dagvistun fyrr en 48 tímum frá því að einkenni eru farin.
  • Frekari upplýsingar um niðurgang hjá börnum og niðurgang hjá fullorðnum

Forvarnir

  • Passa upp á geymslu og eldun matvæla
  • Hreinlæti í eldhúsi og passa upp á handþvott, sérstaklega fyrir meðferð matvæla, eftir salernisferðir og eftir snertingu við dýr
  • Drekka hreint vatn á ferðalögum
  • Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu
  • Forðast að gleypa ómeðhöndlað yfirborðsvatn í sundlaugum, heitum pottum, gosbrunnum, ám, lækjum og tjörnum.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef grunur eru um E. coli smit skal hafa samband við heilsugæsluna

Leita til bráðamóttökunnar ef:

  • Er einkenni eru svæsin
  • Ef hiti er ásamt niðurgangi
  • Mikill niðurgangur og/eða blóðugur niðurgangur
  • Mikill slappleiki og þróttleysi
  • Kviðverkur

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku hér.