Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Dýr- og mannsbit

Kaflar
Útgáfudagur

Flest dýr- og mannsbit eru meinlaus en ef sárið er stórt eða einkenni sýkingar eru til staðar er ráðlagt að leita sér aðstoðar. Hundaæði er ekki landlægt hér á landi og bólusett er við stífkrampa í reglubundnum barnabólusetningum.  

Meðferð

Ef ekkert rof er á húð eftir bit er engin smithætta. Annars snýr meðferð að sáraumbúnaði og metin er þörf á sýklalyfjum, mótefnagjöf og/eða bólusetningu gegn stífkrampa og/eða hundaæði.  

Ef bit kemur frá mögulega sýktum einstaklingi gæti verið boðið upp á blóðprufu til að athuga með lifrarbólgu- eða HIV smit. 

Hvað get ég gert?

  • Þrífa sár með volgu vatni og mildri sápu. Hreinsa í kringum sárið með sótthreinsandi efni 
  • Skola óhreinindi úr sárinu með volgu vatni 
  • Kreist sárið varlega svo að blæði örlítið (ef það blæðir ekki nú þegar) - það dregur úr líkum á sýkingu 
  • Þerra sárið eftir hreinsun og setja nýjar sáraumbúðir 
  • Þrýsta hreinni grisju að sárinu ef það blæðir 
  • Taka inn paracetamól og/eða íbúprófen til að draga úr verkjum og bólgu 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu á næstu heilsugæslustöð ef:

  • Óhreinindi nást ekki úr sárinu 
  • Sárið er heitt, aumt eða roði í kringum það 
  • Hiti >38°C 
  • Það lekur vökvi úr sárinu 
  • Sárið lyktar illa 
  • Bit á sér stað erlendis 

Finna næstu heilsugæslustöð hér

Leitaðu á næstu bráðamóttöku ef: 

  • Sárið er stórt og djúpt 
  • Bitsár er í andliti eða á höfði 
  • Ekki tekst að stöðva blæðinguna 

Forvarnir

Ráðlagt er að fara í bólusetningu við stífkrampa ef það eru 10 ár eða meira liðin frá seinustu bólusetningu. Stífkrampi smitast ekki manna á milli.  

Á ferðalagi í löndum þar sem hundaæði er landlægt gæti verið ráðlagt að fara í bólusetningu. 

Nánar um bólusetningar og ferðalög hér.

Bólusetningaráðgjöf Heilsuveru

Á netspjallinu hér á síðunni er hægt að sækja um bólusetningaráðgjöf. Ráðgjöfin byggir á fyrri bólusetningum viðkomandi.