Hryggsúlan samanstendur af 24 smábeinum sem nefnast hryggjarliðir. Á milli hryggjarliðanna liggja disklaga hryggþófar sem gerðir eru úr brjóski og virka líkt og mjúkir púðar milli hryggjarliða. Þeir hafa mjúkan kjarna sem er umlukinn trefjabrjóski.
Brjósklos (e. herniated disk) verður þegar trefjabrjóskið rofnar og kjarninn leitar út og þrýstir á aðlæga taugarót. Brjósklos getur átt sér stað í einhverjum af þeim 23 hryggþófum sem eru á milli hryggjarliða í hryggsúlunni. Samtals eru 6 hryggþófar í hálsi, 12 í brjósthrygg og 5 í mjóhrygg. Einkenna getur því orðið vart frá hálsi og niður í tær eftir því frá hvaða liðbili þrýstingur er en algengast er að brjósklos verði í mjóhrygg.
Einkenni
- Verkir í hálshrygg, baki eða mjóhrygg – fer eftir í hvaða hryggþófa brjósklosið er. Verkir geta leitt niður í rass eða fótlegg ef brjósklosið er í mjóhrygg en út í handlegg ef brjósklosið er í háls- eða brjósthrygg.
- Doði eða náladofi í öxlum, baki, handleggjum, höndum, fótleggjum eða fótum
- Erfiðleikar við að beygja eða rétta bak
- Skyntruflanir í húð
- Máttleysi eða lamanir í vöðvum
- Dofi í kringum endaþarm og kynfæri
- Þvagteppa
- Tilfinningaleysi í báðum fótleggjum
- Missir skyndilega stjórn á þvagi eða hægðum
Greining
Læknir greinir brjósklos með líkamsskoðun og sjúkrasöga. Í líkamsskoðun er líkamsstaða skoðuð, hreyfimynstur, þreifing og taugaskoðun. Flestir læknar gera svokallað Laseque-próf til greiningar á brjósklosi í mjóbaki. Örugga sjúkdómsgreiningu og nákvæma staðsetningu á brjósklosi má fá með röntgenmyndatöku, tölvusneiðmyndatöku eða segulómun.
Meðferð
Læknir getur ávísað sterkari verkjalyfjum, vöðvaslakandi lyfjum, sterasprautum og meðferð hjá sjúkraþjálfara sem reynist oft mjög vel við brjósklosi.
Reikna má með að meðferð við brjósklosi sé langtíma verkefni og gott að gefa batanum góðan tíma. Ef þessar aðferðir duga ekki eða alvarleg einkenni brjósklos gera vart við sig getur þurft að grípa til skurðaðgerðar.
Hvað get ég gert?
- Dragðu úr álagi sem veldur sársauka
- Dagleg hreyfing er mikilvæg, t.d. að ganga um sem mest
- Forðastu að sitja eða liggja á daginn
- Kuldameðferð, kaldir bakstrar á verkjasvæði eða kaldir pottar
- Taktu verkjalyf á 4 klukkustunda fresti
- Forðastu að lyfta hlutum og hoppa
- Gott að sofa með kodda undir hnjám til stuðnings
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu til heilsugæslunnar ef:
- Verkur minnkar ekki þrátt fyrir verkjalyf
- Verkur er verri um nætur eða þegar lagst er niður
- Máttleysi er í útlimum
- Doði eða náladofi er til staðar í fótlegg/handlegg
- Ráðin heima virka ekki
Leitaðu til bráðamóttöku ef þú ert með:
- Máttleysi í fótleggjum/handleggjum eða erfitt að hreyfa fót/hönd eða tær/fingur
- Doða í kringum endaþarm og kynfæri
- Þvagteppu, þ.e. hefur ekki getað pissað í meira en 8 klukkutíma
- Óstjórn á þvagi eða hægðum
Eftirfarandi þættir auka líkur á brjósklosi:
- Kyrrseta
- Ofþyngd
- Aldur – eldri einstaklingar líklegri til að fá brjósklos þar sem trefjabrjóskið missir vökvainnihald með aldrinum sem eykur líkur á að kjarninn komist út
- Slys/fall, þar sem einstaklingur verður fyrir höggi sem berst upp hrygginn
- Röng líkamsbeiting, sérstaklega þegar þungum hlutum er lyft
- Lélegt líkamlegt ástand
- Mjög mikið líkamlegt álag
- Stöðugur titringur líkt og fæst við notkun/keyrslu á stórum vinnuvélum
- Reykingar – nikótín veikir trefjabrjóskið
Erfitt getur verið að koma alveg í veg fyrir brjósklos en eftirfarandi þættir geta minnkað líkurnar á að fá brjósklos.
- Dagleg hreyfing og líkamsrækt
- Rétt líkamsbeiting, t.d. beygja hnén þegar þungum hlutum er lyft og nota styrk í fótleggjum og lærum
- Heilsusamlegt mataræði
- Styrktaræfingar, sérstaklega fyrir kvið og bak
- Viðhalda kjörþyngd
- Ekki reykja