Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Blöðrubólga hjá konum

Kaflar
Útgáfudagur

Myndin sýnir þvagfæri kvennaBráð blöðrubólga (e. cystitis) er sýking af völdum baktería sem hafa komist upp þvagrásina og í þvagblöðruna. Hún er algeng meðal kvenna og getur verið óþægileg en er oftast skaðlaus. Blöðrubólga er algengari hjá konum eftir breytingaskeið vegna minnkandi framleiðslu á kvenhormóninu estrógen.  

Um 30% kvenna læknast af sjálfu sér á einni viku án meðferðar. 

Orsök

Yfirleitt er um að ræða bakteríur frá endaþarmi sem komist hafa inn í þvagrásina og upp í þvagblöðruna. Líkur á blöðrubólgu aukast ef:

  • Breytingaskeið er liðið
  • Kona er ófrísk
  • Kynmök eiga sér stað
  • Nýrnasteinar loka fyrir þvagleiðara 
  • Óhreinlæti er á kynfærasvæði
  • Ónóg vökvainntaka
  • Veikt ofnæmiskerfi t.d. vegna lyfjameðferðar

Einkenni

Helstu einkenni:

  • Sviði við að pissa
  • Bráð þörf til að pissa
  • Pissar oftar en venjulega

Önnur einkenni geta verið til staðar svo sem:

  • Verkur yfir lífbeini
  • Þrýstingur yfir lífbeini
  • Sterk lykt af þvagi
  • Gruggugt eða dökklitað þvag

Í stöku tilvikum getur blöðrubólga leitt til sýkingar í nýrum. Einkenni sýkingar í nýrum eru einkum hiti, hrollur, verkir í baki/síðu, ógleði, uppköst, almennur verulegur slappleiki.

Greining

Greining er gerð út frá einkennum og sögu. Miklar líkur eru á að um blöðrubólgu sé að ræða ef tvö eða þrjú af eftirfarandi einkennum eru til staðar:

  • Sviði við að pissa
  • Bráð þörf til að pissa
  • Pissar oftar en venjulega

Séu þau ekki til staðar er vandamálið líklega annað.

Meðferð

  • Sýklalyf. Blöðrubólga sem fer ekki af sjálfu sér er meðhöndluð með sýklalyfjum. 

Um þriðjungur kvenna læknast af sjálfu sér á einni viku án meðferðar, gott er að drekka vel af vökva og passa upp á hreinlæti. 

Hvað get ég gert?

  • Drekka vel
  • Forðast drykki sem innihalda koffín og áfengi
  • Sleppa kynmökum
  • Byrja að framan og þurrka aftur að endaþarmi þegar þurrkað er að neðan
  • Velja nærbuxur úr bómull
  • Þvo kynfærin eingöngu með vatni eða sérstakri sápu fyrir kynfæri.
  • Ekki nota ilmklúta og ilmsprey á kynfæri

Hjálpar trönuberjasafi?

Engar rannsóknir hafa getað sýnt fram á að trönuberjasafi lækni eða fyrirbyggi blöðrubólgu. En ef þú vilt prófa trönuberjasafann í þessum tilgangi, skaðar hann líklega ekki heldur. 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef einkennin eru væg, er hægt að freista þess að blöðrubólgan lagist af sjálfu sér. Það gerir hún hjá um þriðjungi kvenna. Hægt er að hringja í heilsugæslunna sem metur hvort og þá hvaða lyfjameðferð er beitt.

Hafðu strax samband við heilsugæsluna ef einkenni blöðrubólgu eru til staðar og einhver eftirtalinna atriða eiga við um þig.

  • Ert barnshafandi
  • Einkenni koma aftur fram þrátt fyrir meðferð með sýklalyfjum
  • Hiti yfir 38°C eða hrollur
  • Verkur í síðu/baki
  • Ógleði og uppköst
  • Almennur slappleiki
  • Getur ekki pissað
  • Grunar að þú getir verið með kynsjúkdóm
  • Með sjúkdóm eða röskun t.d. meðfætt frávik í þvagfærum (nýrum, þvagleiðurum, blöðru, þvagrás)
  • Hefur farið í aðgerð á þvagfærum eða notað þvaglegg á síðustu tveimur vikum
  • Orðið fyrir áverka á þvagrás vegna slyss eða nauðgunar á síðustu tveimur vikum
  • Ef ónæmisbæling getur verið til staðar vegna sjúkdóma (t.d. sykursýki) eða lyfja
  • Dvöl (vegna veikinda, starfs eða annars) á sjúkrahúsi erlendis á sl 6 mánuðum.

Finna næstu heilsugæslustöð.