Fara á efnissvæði

Berklar

Kaflar
Útgáfudagur

Berklar (e. mycobacterium tuberculosis) er smitsjúkdómur af völdum berklabakteríu  sem hefur áhrif á öndunarfæri. Nokkur berklasmit greinast árlega á Íslandi.

Einkenni

Helstu einkenni berkla eru:

Berklabakterían sýkir oftast lungu og veldur þá langvarandi hósta, takverk, og stundum blóðlituðum uppgangi. Bakterían getur einnig lagst á önnur líffæri eins og nýru, miðtaugakerfi og bein. 

Ómeðhöndlaðir berklar geta einnig valdið:

• Sýkingu í þvagfærum getur valdið tíðum þvaglátum og blóði í þvagi
• Sýkingu í beinum veldur bólgu og verkjum

Fólk sem smitast en er einkennalaust er sagt vera með leynda berkla eða hulduberkla. Við hulduberkla er bakterían til staðar í líkamanum en veldur ekki sýkingu og viðkomandi er ekki smitandi. 

Smitleiðir

Bakterían berst manna á milli með loftbornu smiti um öndunarfæri. Þaðan berst hún um líkamann með blóðrásinni og getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum.

Berklar smitast í flestum tilvikum aðeins ef samskipti eru nokkuð náin. Fólk sem býr á sama heimili, vinnur á sama vinnustaðnum eða er í sama skóla og sá berklaveiki, er í hættu á að smitast.

Greining

Berklar eru greindir með húðprófi eða blóðprufu. Í húðprófinu er sprautað í húðina á framhandlegg svolitlu magni af vökva sem inniheldur prótín. Ef ónæmiskerfið hefur áður kynnst berklabakteríunni koma fram ofnæmisviðbrögð.

Það tekur líkamann 8-12 vikur að kynnast berklabakteríunni áður en hann fer að kannast við prótínið í berklaprófinu. Af þessum sökum þarf stundum að berklaprófa tvisvar.

Til þess að koma í veg fyrir að berklabakterían dreifi sér og fólk veikist af berklum eru allir sem hafa verið í nánd við smitandi berklaveikan einstakling berklaprófaðir.

Meðferð

Berklar eru meðhöndlaðir með sýklalyfjum. Meðferðin er ákveðin í hverju tilviki fyrir sig. Það fer eftir því hvort viðkomandi er með berklaveiki eða hulduberkla.

Berklaveikur einstaklingur með lyfnæmar bakteríur er gjarnan meðhöndlaður með fjórum berklalyfjum í 6 mánuði. Einstaklingur með hulduberkla fær varnandi meðferð til að koma í veg fyrir að berklaveiki leysist úr læðingi síðar á ævinni. Venjulega er meðhöndlað með einu berklalyfi í 6 mánuði en stundum með 2 lyfjum í 3 mánuði.

Mikilvægt er að klára meðferðina bæði við hulduberklum og berklaveiki.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku. 

Forvarnir

Ekki hefur enn tekist að búa til berklabóluefni sem virkar vel.

Besta aðferðin í baráttunni við berklana er að greina og meðhöndla fljótt og vel. Gera húðpróf meðal þeirra sem hafa verið í nánd við berklaveikann einstakling og stundum er gefin fyrirbyggjandi meðferð.

Fólk á ferðalögum til landa þar sem nýgengi berklaveiki er hátt þarf að vera á varðbergi. Ef fólk er innan um einstaklinga sem sýna einkenni berklaveiki, er ráðlagt að passa upp á hreinlæti og nota andlitsgrímu. Alltaf er hægt að láta berklaprófa sig þegar heim er komið.