Beinþynning (e. osteoporosis) er sjúkdómur sem einkennist af minnkuðum beinmassa og rýrnun beina sem veldur því að bein brotna auðveldlega. Úlnliðsbrot og samfallsbrot á hrygg eru algengustu brotin ásamt mjaðmabroti. Beinbrot valda takmörkun á hreyfingu og virkni sem veldur oft minni sjálfsbjargargetu og skerðingu á lífsgæðum. Hætta á beinþynningu eykst með aldrinum og eru konur í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar.
Einkenni
Beinþynning getur verið einkennalaus og er oft talað um hana sem þöglan sjúkdóm. Hún greinist oft ekki fyrr en fólk hefur brotið bein við lítinn áverka, t.d. við fall á jafnsléttu. Önnur einkenni geta verið bakverkir, kryppa, hæðarlækkun eða aðrar líkamlegar hömlur.
Greining
Beinþynningu er hægt að greina með sértækri röntgenrannsókn þar sem þéttni beinsins er mæld.
Helstu ástæður beinþynningar
Eftirfarandi þættir geta aukið líkur á beinþynningu:
- Erfðir - Um 70% beinþéttninnar stýrist af erfðum
- Aldur - Beinþéttni minnkar með aldrinum
- Breytingaskeið kvenna - Kvenhormónið estrógen er beinverndandi en á breytingaskeiðinu minnkar styrkur þess í líkamanum
- Skortur á kalsíum og D-vítamíni
- Óhófleg áfengisneysla
- Reykingar
- Hreyfingarleysi
- Að vera undir kjörþyngd
- Lyf - sykursterar (prednisolon), skjaldkirtilslyf og flogaveikilyf
Hvað get ég gert?
Eftirfarandi þættir geta minnkað líkur á að fá beinþynningu:
- Borða næringarríkan mat. Taka inn lýsi eða D-vítamíntöflur. Ráðleggingar um mataræði.
- Regluleg hreyfing- Viltu auka hreyfingu? Hér má finna styrktaræfingar og stólaleikfimi sem auðvelt er að gera heima.
- Hætta reykingum – Viltu draga úr eða hætta reykingum?
- Takmarka áfengisneyslu - Viltu draga úr eða hætta áfengisneyslu?
- Minnka neyslu drykkja sem innihalda mikið magn af koffíni eða sykri.
- Byltuvarnir - Forðast að hafa lausar snúrur og mottur á heimilinu og hafa góða lýsingu innan dyra.
- Góður skóbúnaður skiptir máli, sérstaklega í hálku.