Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Bakflæði

Kaflar
Útgáfudagur

Bakflæði (e. reflux) er það kallað þegar magainnihald rennur til baka upp í vélinda. Þetta er vel þekkt ástand, sem veldur óþægindum en er sjaldnast hættulegt. Helstu einkenni bakflæðis eru uppþemba og brjóstsviði eftir máltíðir. Við langvarandi bakflæði er hætta á skemmdum á slímhúð vélinda og því ástæða til að ráðfæra sig við lækni þegar áhyggjur vakna.

Einkenni

Það eru ýmis einkenni sem fylgja bakflæði. Þau helstu eru:   

  • Brjóstsviði  
  • Uppþemba   
  • Hæsi   
  • Nábítur 
  • Hóstakjöltur  
  • Kyngingarörðugleikar   

Einkenni geta versnað:

  • Eftir máltíðir
  • Við það að leggjast niður eða beygja sig

Orsakir

Á milli vélinda og maga er sterkur hringvöðvi sem kemur í veg fyrir að magainnihald renni til baka úr maga og upp í vélinda. Þegar þessi vöðvi starfar ekki eðlilega er talað um bakflæði eða vélindabakflæði. Það er ýmislegt sem getur orsakað það að vöðvinn starfi ekki eðlilega t.d. ofþyngd, þindarslit og meðganga. Þá eru nokkrar fæðutegundir sem auka sýrumyndun í maga en það er einkum sterkur, brasaður og feitur matur. Kaffi, áfengi, nikótín og súkkulaði veikir hringvöðvann og eykur hættu á bakflæði.

Slímhúð vélindans þolir illa súrt magainnihald og því er hætt við bólgu og jafnvel blæðandi sárum ef ekkert er að gert. Kyngingarörðugleikar geta verið vísbending um að örvefur hafi myndast sem þrengir vélindað. 

Greining

Ef grunur er um bakflæði er sjúkdómssaga skoðuð. Oft eru teknar röntgenmyndir og jafnvel gerð speglun. Þá eru einnig algengt að gerðar séu þrýstings- og sýrumælingar í vélinda til að skoða hvort og hversu mikil áhrif séu af bakflæðinu.

Hvað get ég gert?

Það er ýmislegt sem einstaklingur getur gert til að fyrirbyggja bakflæði: 

  • Borða hæfilega mikið í einu samkvæmt ráðleggingum (forðast ofát) 
  • Borða síðustu máltíð fyrir svefn 3-4 klst áður en farið er að sofa
  • Eftirfarandi fæða eykur einkenni bakflæðis og því rétt að forðast hana:
    Sterkur, brasaður og feitur matur, súrir ávextir og safi, kaffi, súkkulaði og mjólk. 
  • Forðast áfengi og tóbak  
  • Klæðast fötum sem ekki þrengja að kviðnum
  • Sitja vel uppi við og eftir máltíðir 
  • Stefna að og halda kjörþyngd  
  • Hækka höfðalag fyrir svefn 

Hér má finna ráð til þess að breyta venjum sínum.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef þér tekst ekki að ná tökum á bakflæðinu með almennum ráðum er rétt að leita til heilsugæslunnar. 

Læknir ráðleggur stundum lyf sem draga úr bakflæði. Sum eru lyfseðilsskyld, önnur fást án lyfseðils. Annars vegar eru það lyf er flýta magatæmingu niður í skeifugörn og hins vegar lyf sem draga úr sýrumyndun magainnihalds.  

Á flestum heilsugæslustöðvum er heilsueflandi móttaka. Þar getur þú fengið aðstoð ef þig vantar stuðning til að efla heilsu, auka lífsgæði eða hjálp til að ná betri stjórn á aðstæðum þínum. 

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.