Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Astmi

Kaflar
Útgáfudagur

Astmi (e. asthma) er langvinnur bólgusjúkdómur í öndunarvegi. Helstu einkenni hans eru andþyngsli og mæði. Fólk á öllum aldri getur þjáðst af astma en sjúkdómurinn byrjar oft í barnæsku. Það er engin lækning til við astma en ýmsar fyrirbyggjandi meðferðir eru til sem draga úr einkennum og koma í veg fyrir að sjúkdómurinn hafi áhrif á daglegt líf.

Einkenni

  • Andþyngsli eða mæði 
  • Flautandi/hvæsandi hljóð við öndun, oftast í útöndun
  • Hósti, einkum á næturnar

Einkennin geta versnað tímabundið og er þá talað um astmakast. Áreynsluastmi er ein tegund astma þar sem einkenni koma einungis fram við áreynslu en ekki í hvíld.

Orsakir

Bólga í öndunarfærum og samdráttur í berkjum verður vegna ýmissa erfða- og umhverfisþátta. Orsakavaldar eru oft kallaðir astmavakar en þeir helstu eru:

  • Ofnæmi (rykmaurar, frjókorn, dýrafeldir)
  • Kalt og þurrt loft, reykur (sígarettu/grill), sterk hreinsi- og ilmefni, mygla, loftmengun
  • Öndunarfærasýkingar
  • Áreynsla

Greining

Greining fer fram hjá heimilislækni og byggir á eftirfarandi þáttum:

  • Heilsufarssögu
  • Mat á einkennum 
  • Öndunarmælingu
  • Svörun við lyfjum, ef grípa hefur þurft til þeirra
  • Ofnæmispróf

Meðferð

Meðferð við astma miðar að því að draga úr aðstæðum sem ýta undir astma og létta á einkennum. Lyfjameðferð er helsta úrræði við astma og eru það einkum tvenns konar innöndunarlyf (púst) sem notast er við en einnig lyf í töfluformi:

  • Skjótvirkandi lyf er slakar á vöðvum í öndunarvegi innan nokkurra mínútna. Loft kemst þá auðveldar í gegn og öndun verður léttari
  • Fyrirbyggjandi lyf sem notuð eru að staðaldri til að koma í veg fyrir einkenni astma
  • Lyf í töfluformi eru oft nauðsynleg viðbót við innöndunarlyf

Meðferð felur í sér:

  • Stjórn á astmavökum
  • Eftirlit með breytingum á einkennum eða lungnastarfsemi
  • Lyfjameðferð

Hvað get ég gert?

Það er mikilvægt að forðast aðstæður sem valda astmakasti og að fylgja fyrirmælum læknis varðandi lyfjanotkun. Það er mismunandi hvað veldur astmakasti en dæmi um nokkrar fyrirbyggjandi aðgerðir:  

  • Forðast nálægð við ofnæmisvalda 
  • Þvo hendur hendur reglulega til að fyrirbyggja sýkingar 
  • Fá bólusetningu gegn árlegri inflúensu   
  • Vera innandyra þegar loftmengun er mikil  
  • Nota trefil yfir munn og nef í köldu og þurru veðri 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita skal til heilsugæslunnar ef:

  • Aukin mæði
  • Hvæs heyrist við öndun
  • Hósti hefur verið í 3 vikur 

Ef astmaeinkenni verða alvarleg skal leita á bráðamóttöku eða hringja í 112 eftir neyðaraðstoð. Alvarleg astmaköst geta verið lífshættuleg og krefjast skjótrar og sérhæfðrar meðferðar heilbrigðisstarfsfólk.  

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.