Áráttu-og þráhyggjuröskun (e. obsessive-compulsive disorderer, OCD) er algeng kvíðaröskun sem einkennist af endurteknum hugsunum eða ímyndum (þráhyggju) sem valda vanlíðan og endurtekinni hegðun (áráttu) sem ætlað er að minnka óþægindin eða fyrirbyggja skaða.
Allir finna öðru hvoru fyrir kvíða og fá alls kyns hugsanir sem geta komið á óvart eða valdið skammtíma óþægindum. Yfirleitt líða slíkar hugsanir fljótt hjá og hafa lítil áhrif á líðan og hegðun. Ef kvíðinn er orðinn hamlandi til lengri tíma og farinn að hafa áhrif á lífsgæði og getu til að sinna eða njóta athafna daglegs lífs, getur verið að um sé að ræða áráttu-og þráhyggjuröskun.
Áráttu-og þráhyggjuröskun er algeng kvíðaröskun sem byrjar oft í kringum kynþroskaaldurinn eða snemma á fullorðinsárum en einkenni geta gert vart við sig frá barnsaldri.
Röskunin felur í sér þrjá megin þætti: þráhyggju, kvíða og áráttu. Þráhyggjan veldur kvíða og áráttuhegðunin leiðir til tímabundins léttis. Þráhyggjuhugsanir koma hinsvegar fljótt aftur ásamt kvíðanum og þar með hefst vítahringurinn aftur. Í flestum tilfellum eru til staðar bæði þráhyggjur og áráttur.
Áráttu- og þráhyggjuröskun getur verið mjög streituvaldandi og haft verulega hamlandi áhrif á daglegt líf, sjálfstraust, fjölskyldulíf, nám og störf.
Ef einkenni áráttu-og þráhyggjuröskunar eru farin að hafa áhrif á líf og lífsgæði er mikilvægt að leita hjálpar. Til er mjög áhrifarík meðferð við þessari kvíðaröskun. Án viðeigandi meðferðar geta kvíðaraskanir einnig leitt af sér annan vanda, sem dæmi þunglyndi.
Einkenni
Einkenni áráttu-og þráhyggjuröskunar birtast á mismunandi hátt og það er mismunandi á milli fólks hvaða aðstæður eru sérstaklega erfiðar og hvað veldur mestum kvíða. Áráttu-og þráhyggjuröskun einkennist af þremur megin þáttum: þráhyggju (hugsanir), áráttum (hegðun) og tilfinningum eins og kvíða.
Hugsanir
Þráhyggja er óvelkomin, óboðin og uppáþrengjandi hugsun, hvöt eða ímynd sem kemur endurtekið upp í hugann og veldur tilfinningum eins og kvíða, viðbjóði eða skömm.
Nánast allir hafa fengið óþægilega eða óvelkomna hugsun á einhverjum tímapunkti. Eins og að telja að það hafi gleymst að læsa útidyrahurðinni eða jafnvel sjá skyndilega fyrir sér ofbeldisfulla eða óviðeigandi ímynd í huganum. Það er eðlilegt að fá allskonar hugsanir. Yfirleitt líða slíkar hugsanir hjá og gleymast fljótt aftur.
Ef óþægileg hugsun kemur hinsvegar endurtekið upp í hugann og tekur það mikið pláss í huganum að hún truflar aðrar hugsanir getur verið að um þráhyggju sé að ræða.
Dæmi um algengar hugsanir í áráttu-og þráhyggjuröskun:
- Áhyggjur af því að skaða sig eða einhvern annan viljandi. Sem dæmi mætti nefna hræðslu við að beita einhvern annan ofbeldi.
- Áhyggjur af því að skaða sig eða einhvern annan óvart. Sem dæmi mætti nefna hræðslu við að gleyma að slökkva á eldavélinni sem gæti leitt til þess að það kvikni í húsinu.
- Hræðsla við að smitast til dæmis af sjúkdómi, sýkingu eða ógeðslegu efni.
- Þörf fyrir reglu eða samhverfu. Eitt dæmi er að hafa þörf fyrir að allir merkimiðar á dósum í eldhússkápum snúi í sömu átt.
- Ofbeldisfullar eða kynferðislegar hugsanir sem þér finnst ógeðslegar eða valda ótta.
Hegðun
Árátta er endurtekin hegðun, hvort sem er líkamleg eða huglæg, sem einstaklingur með áráttu- og þráhyggjuröskun finnur sig knúinn til að framkvæma til að létta tímabundið á óþægindum sem stafa af þráhyggjuhugsunum.
Hegðunin hefst sem leið til þess að reyna draga úr eða fyrirbyggja kvíðann sem þráhyggjuhugsunin veldur. Hegðuninni er ætlað að afstýra því sem er óttast og er því einskonar öryggisráðstöfun.
Til dæmis, ef óttinn snýst um að verði brotist inn á heimilið gæti hegðunin verið að athuga endurtekið hvort gluggar og hurðir séu lokuð og læst áður en húsið er yfirgefið. Ef óttinn snýst um hræðslu við smit getur hegðunin verið að þvo sér um hendurnar endurtekið og lengi. Annað dæmi er hvöt um að endurtaka einhverja athöfn mörgum sinnum til þess að eyða út hugsuninni.
Hegðunin getur verið rökrétt í fyrstu en yfirleitt eykst hún með þróun vandans og getur tekið mikinn tíma og getur þar af leiðandi skemmt fyrir öðrum verkefnum sem þarf að sinna. Mörg með áráttu-og þráhyggjuröskun átta sig á því að hegðunin tekur óþarflega mikinn tíma eða orku og er ekki endilega rökrétt en eiga erfitt með að sleppa henni og upplifa þörf fyrir að framkvæma hana „til öryggis“.
Dæmi um algenga áráttukennda hegðun í áráttu-og þráhyggjuröskun:
- Athuga endurtekið. Til dæmis hvort hurðar og gluggar séu lokuð og læst eða hvort sé slökkt á eldavélinni eða raftækjum
- Endurtaka orð í huganum
- Forðast staði og aðstæður sem gætu vakið upp þráhyggjuhugsanir
- Hugsa „eyðandi“ hugsanir sem mótvægi við þráhyggjuhugsunum
- Leita eftir hughreystingu frá öðrum
- Raða og endurraða
- Safna
- Telja
- Þrif og handþvottur
Áráttan getur verið framkvæmd í huganum og er ekki alltaf sýnileg öðru fólki.
Líðan
Það getur verið að um sé að ræða áráttu-og þráhyggjuröskun ef:
- Þráhyggjuhugsanir vekja upp óþægilega líðan og tilfinningar eins og ógeð, skömm eða kvíða
- Gripið er til endurtekinnar og áráttukenndara hegðunar til að forðast þá vanlíðan
Án viðeigandi meðferðar getur áráttu-og þráhyggjuröskun leitt til annars vanda eins og þunglyndi.
Verðandi foreldrar og umönnunaraðilar ungra barna upplifa stundum einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar en þá er algengt að óttinn snúist um það að eitthvað geti komið fyrir barnið eða um að valda barninu skaða.
Dæmi um hugsanir:
- Hvað ef ég borða eitthvað og það skaðar fóstrið?
- Hvað ef ég tek ekki eftir því að það er eitthvað að fóstrinu?
- Hvað ef barnið hættir að anda þegar það sefur?
- Hvað ef ég sótthreinsa pelann ekki nógu vel og barnið veikist?
- Hvað ef ég missi barnið, sleppi vagninum eða festi bílstólinn ekki nógu vel og barnið verður fyrir skaða?
- Hvað ef ég skaða barnið mitt viljandi þótt mig langi ekki til þess?
- Hvað ef ég misnota barnið mitt þótt ég hafi engan áhuga á því?
Dæmi um hegðun:
- Banna öðrum að halda á barninu
- Forðast að fara með barnið úr húsi
- Forðast að sinna barninu
- Fylgjast með andardrætti barnsins, kanna hvort það andi þegar það sefur
- Halda sérstaklega fast utan um barnið
- Stýra og huga mikið að mataræðinu á meðgöngu
- Vakta hjartslátt og hreyfingar barnsins á meðgöngu
- Vakta allt sem barnið gerir
Börn geta líka verið með áráttu- og þráhyggjuröskun. Einkenni áráttu-og þráhyggjuröskunar hjá börnum geta meðal annars verið:
- Endurtekin hegðun eða rútína sem skiptir barnið máli en virðist ekki endilega vera rökrétt fyrir öðrum
- Gráta eða fara í uppnám oftar en venjulega
- Hegðun endurtekin frá upphafi ef hún er trufluð í miðri rútínu
- Heimta að hlutir séu gerðir á ákveðinn hátt eða í ákveðinni röð eða rútínu
- Hugsanir sem innihalda mjög skýrar og óhugnanlegar ímyndir, koma endurtekið upp úr þurru og valda uppnámi
- Ósveigjanleg trú á „hvað ef“ hugsanir um að eitthvað slæmt geti gerst eða um yfirvofandi hættu sem barnið gæti borið ábyrgð á eða gæti verið kennt um á einhvern hátt
- Reiði eða pirringur
Greining á geðrænum vanda
Notað er staðlað geðgreiningarviðtal til þess að meta einkenni og alvarleika geðraskana. Stundum þarf fleiri en eitt viðtal til þess að greina vandann. Mikilvægt er að tryggja rétta greiningu, þar sem rétt greining er forsenda þess að geta vísað í viðeigandi meðferð.
Við greiningu á geðrænum vanda er yfirleitt spurt um núverandi og fyrri sögu um líkamlega og andlega heilsu, félagsaðstæður, lífsstíl og streituvaldandi aðstæður. Spurt er um einkenni algengra geðraskana og annars geðheilbrigðisvanda, ásamt áhrifum einkenna á getu til að sinna daglegu lífi.
Við greiningu á geðröskun meta fagaðilar alvarleika eftir fjölda og tegund einkenna, lengd þess tíma sem þau hafa verið til staðar og hömlun þeirra á daglegt líf. Spurt er um aðstæður sem valda kvíða, hugsanir eða áhyggjur í tengslum við slíkar aðstæður og hegðun í tengslum við það sem þú óttast.
Áráttu- og þráhyggjuröskun fylgir oft annarskonar geðrænn vandi, eins og þunglyndi, almenn kvíðaröskun eða felmtursröskun.
Fyrirkomulag matsviðtals er ólíkt eftir stöðvum. Á mörgum stöðvum er notast við rafræna spurningalista til þess að auka aðgengi og flýta fyrir þjónustu en víða eru matsviðtölin tekin í gegnum síma. Tímalengd matsviðtals getur verið allt að 90 mínútur en fer eftir eðli vanda, fyrirkomulagi og aðstæðum hverju sinni og í sumum tilfellum þarf fleira en eitt viðtal til þess að geta greint vandann og veitt ráðgjöf varðandi viðeigandi meðferð eða viðbrögð við vandanum.
Í sumum tilfellum ráðleggur heimilislæknir blóðprufu til að útiloka aðrar orsakir fyrir einkennunum. Notendur hafa rétt á túlki ef þörf krefur.
- Skrifa niður og hafa í huga nýleg dæmi sem eru lýsandi fyrir vandann. Auðveldast er að taka dæmi um aðstæður sem eru nýliðnar, það er að segja aðstæður sem ollu þér kvíða undanfarna viku.
- Skrifa niður hvar vandinn átti sér stað síðast, með hverjum, hvað var í gangi, hvað var óþægilegt við aðstæðurnar og hvaða hegðun notuð til að bregðast við þeim eða minnka vanlíðan.
- Samtal við fagaðila er trúnaðarmál og það er mikilvægt að segja rétt frá til þess að auka líkur á viðeigandi þjónustu. Trúnaður er aðeins brotinn ef talið er að notandi eða einhver annar geti orðið fyrir skaða.
Meðferð
Við vægum einkennum er mælt með samtalsmeðferð með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).
Ef einkenni eru væg til miðlungsalvarleg er mælt með vali um HAM eða lyfjagjöf. Ef hvorki samtalsmeðferð né lyfjameðferð ber árangur, gæti verið boðin breytt lyfjameðferð; meðferð með samtalsmeðferð og lyfjameðferð samtímis, eða þunglyndislyf. Á heilsugæslunni fer fram meðferð við vægum til miðlungsalvarlegum einkennum kvíðaraskana, eins og áráttu-og þráhyggjuröskun. Stundum er vísað áfram í önnur eða sérhæfðari meðferðarúrræði eins og geðheilsuteymi eða þjónustu á spítala.
Samtalsmeðferð (hugræn atferlismeðferð)
Hugræn atferlismeðferð við áráttu-og þráhyggjuröskun felur yfirleitt í sér vikuleg einstaklingsviðtöl sem veitt eru af sérþjálfuðum meðferðaraðila. Fjöldi viðtala fer eftir einkennum og alvarleika vanda og er á bilinu frá 8-20 skipti á heildina litið, yfirleitt um 60 mín í senn.
Meðferðin getur verið krefjandi til skammtíma en ber yfirleitt skjótan árangur og leiðir til minni kvíða og betri lífsgæða til langtíma. Við alvarlegri einkennum eða flóknari einkennamynd getur verið þörf á fleiri viðtölum.
Hugræn atferlismeðferð felur í sér að brjóta niður vandann í smærri einingar, eins og hugsanir, líkamleg einkenni og hegðun. Unnið að því að takast á við það sem er óttast og að læra að ráða við þráhyggjukenndar hugsanir án þess að þurfa að bregðast við þeim með áráttukenndri hegðun.
Lyf við áráttu- og þráhyggjuröskun
Í sumum tilfellum er notuð lyfjameðferð, eins og SSRI lyf. Það getur tekið allt að 12 vikur þar til meðferð með lyfjum ber árangur. Yfirleitt er mælt með því að taka lyf í a.m.k. eitt ár. Stundum er hægt að hætta lyfjameðferð eftir árið en sumir þurfa að halda áfram að taka lyfin í mörg ár til að viðhalda árangri.
Mælt er með því að hætta ekki að taka lyf án þess að eiga samtal við lækni þar sem það getur valdið óþægilegum aukaverkunum að hætta skyndilega að taka lyf. Yfirleitt er lyfjameðferð tröppuð út rólega til að draga úr líkum á aukaverkunum. Einnig getur verið þörf fyrir að auka aftur skammtinn ef einkennin koma aftur.
Mögulegar aukaverkanir af SSRI lyfjum geta verið:
- Breytingar á kynhvöt
- Höfuðverkur
- Meltingartruflanir eins og niðurgangur eða harðlífi
- Ógleði
- Óþreyja eða kvíði
- Svefntruflanir
- Svimi
- Sjálfsvígshugsanir
Flestar aukaverkanir líða hjá á nokkrum vikum þegar líkaminn venst lyfjunum. Mikilvægt er að upplýsa lækninn um þungun þegar lyfjagjöf er rædd.
Mælt er með því að hefja meðferð við vægum einkennum áráttu- og þráhyggjuröskunar hjá börnum og ungmennum með sjálfshjálparefni ásamt stuðningi byggðum á hugrænni atferlismeðferð (HAM).
Við miðlungs til alvarlegum einkennum áráttu-og þráhyggjuröskunar hjá börnum er mælt með hugrænni atferlismeðferð.
Meðferðin er aðlöguð að hverjum og einum og felur yfirleitt í sér aðstoð og samvinnu við umönnunaraðila. Það getur verið að umönnunaraðili fái þjálfun og sjálfshjálparefni til þess að nota á milli tíma. Stundum fer meðferðin fram í litlum hópum.
Í einstaka tilfellum er mælt með lyfjagjöf fyrir börn og ungmenni með áráttu- og þráhyggjuröskun. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir aukaverkunum.
Hvað get ég gert?
Sjálfshjálp getur verið gagnlegt fyrsta skref til að takast á við einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar, áður en leitað er til fagaðila.
Eftirfarandi ráðleggingar gætu hjálpað við vægum vanda:
- Það getur verið hjálplegt að skilja kvíðann betur og prófa að takast á við hann á annan hátt, til dæmis með að breyta um hegðun eins og að draga úr öryggisráðstöfunum.
- Stundum er hjálplegt að skipta krefjandi aðstæðum niður í minni skref. Þá er hægt að æfa sig að takast á við eitt skref í einu.
- Gott er að hafa í huga að það er eðlilegt að fá allskonar hugsanir og innihald þeirra segir ekki endilega neitt um okkur eða hegðun okkar.
- Hér er að finna almennar ráðleggingar til þess að takast á við væg einkenni kvíða.
Ef talið er að barn geti verið að glíma við einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar er mikilvægt að ræða við það.
Það er mikilvægt að taka barnið alvarlega, sama hvað málið snýst um og hvað umönnunaraðilanum finnst um það. Það er ekki víst að öðrum finnist það vera stórt vandamál en barnið gæti upplifað það sem slíkt. Ef barnið vill ekki ræða málið er gott að upplýsa barnið um að það geti leitað til umönnunaraðila ef það þarf á því að halda. Gott er að hvetja barnið til þess að ræða við einhvern sem það treystir, eins og annan fjölskyldumeðlim, vin eða einhvern í skólanum.
Það gæti verið hjálplegt að ræða við aðra sem þekkja barnið eins og aðra umönnunaraðila eða fjölskyldumeðlimi. Það getur verið gott að ræða við skóla barnsins til þess að komast að því hvort áhyggjur hafi vaknað þar. Æskilegt er að það sé til staðar gott samstarf á milli skóla og fjölskyldu til þess að tryggja að barnið fái þann stuðning þar sem það þarf.
Ef barnið lýsir kvíða í tengslum við ákveðnar aðstæður er hægt að prófa að:
- Útskýra fyrir barninu að við fáum öll allskonar hugsanir sem koma óbeðnar upp í hugann og geta innihaldið óvenjulegar eða óþægilegar ímyndir eða hvatir. Innihald hugsana þýði ekkert sérstakt og segir ekki að einhver sé vond manneskja. Það að hugsa eitthvað geti ekki látið það gerast og það þurfi ekki að bregðast við hugsunum á neinn hátt.
- Hvetja barnið til þess að prófa sig áfram í aðstæðum sem veldur því kvíða og fylgjast með því hvort það sem það óttast gerist raunverulega til þess að auka sjálfstraustið í mismunandi aðstæðum.
Mikilvægt er að huga að grunnþörfum barnsins, að barnið:
- Fái nægan svefn
- Borði reglulega hollt og fjölbreytt mataræði
- Hreyfi sig reglulega
- Eigi vini
- Geti sinnt eigin áhugamálum
- Upplifi öryggi í daglegu lífi
Nánar um kvíða hjá börnum.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ráðlagt er að leita til heilsugæslunnar til þess að fá mat á einkennum áráttu-og þráhyggjuröskun, sérstaklega ef kvíðinn er farinn að hafa mikil áhrif á líf og lífsgæði. Á heilsugæslu á að fara fram mat á geðrænum vanda og meðferð við algengum geðrænum vanda eins og áráttu-og þráhyggjuröskun.
Við grun um áráttu-og þráhyggjuröskun gæti verið vísað áfram til sálfræðings á heilsugæslustöðinni sem getur gert ítarlegt mat á vanda og veitt sértæka meðferð við áráttu-og þráhyggjuröskun. Ef sálfræðiþjónustu er óskað skal hafa samband við þá heilsugæslustöð sem notandi er skráður á.
Í sumum tilfellum er vísað áfram í þjónustu á öðrum þjónustustigum eins og í geðheilsuteymi eða í sérhæfða þjónustu, til dæmis á spítalanum. Einnig er hægt að leita til fagaðila á stofu.