Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

MPOX veirusýking

Kaflar
Útgáfudagur

MPX veirusýking  (e. Mpox) er sjaldgæfur veirusjúkdómur sem getur smitast á milli manna. Veiran var fyrst greind í Danmörku 1958 eftir að faraldur kom þar upp meðal apa. Í dag finnst veiran ekki í öpum heldur aðallega í nagdýrum. Veiran sem veldur MPX barst fyrst í menn í vestur og mið Afríku í upphafi sjöunda áratugar. Faraldrar hafa komið upp meðal manna og þá verið tengdir flutningi á nagdýrum til landa utan Afríku.

Einkenni

Fyrstu einkenna verður vart 4-20 dögum eftir að hafa fengið veiruna í sig. Þau helstu eru:

  • Hár hiti
  • Höfuðverkur
  • Bólgnir eitlar
  • Vöðvaverkir
  • Þreyta
  • Hrollur

Í framhaldi af þessum einkennum koma fram útbrot á húð sem verða að vökvafylltum blöðrum með þykku hrúðri. Oftast koma útbrot fyrst fram í andliti en dreifast síðar á búk og útlimi.

Veikindi af völdum MPOX geta staðið yfir í 2-4 vikur og langflestir komast í gegnum þau án nokkurra vandræða. Einstaka tilfelli geta orðið alvarleg og þurft á meðferð á sjúkrahúsi að halda. MPOX veiran fer ekki í manngreinarálit og því er nauðsynlegt að huga vel að smitvörnum. 

Smitleiðir

  • Sjúkdómurinn getur borist með nánu samneyti við fólk sem hefur veiruna í sér, bæði með snertingu og kynlífi.
  • Veiran getur borist með rotnandi kjöti af villtum dýrum, einkum nagdýrum t.d. rottum, músum og íkornum.
  • Dýrabit og klór dýra sem hafa veiruna í sér. Helstu hættusvæðin eru mið og vestur Afríka.
  • Bit eða snerting við blóð, líkamsvökva eða sár á sýktu dýri.
  • Borða kjöt af sýktu dýri sem ekki hefur verið eldað nógu vel, eða með því að snerta afurðir sýktra dýra s.s. feld þess.
  • Snerting við fatnað, rúmföt eða handklæði sem einstaklingar með veiruna hafa notað.
  • Úðasmit, forðast hósta eða hnerra frá sýktu fólki.

Greining

Hægt er að staðfesta smit með því að taka sýni úr sárum sem myndast hafa á húð fólks. Sýnin eru send á rannsóknarstofu til að kanna hvort DNA erfðaefni MPOX veirunnar sé til staðar.

Meðferð

Meðferð við MPOX felst aðallega í að draga úr einkennum sjúkdómsins. Flestir fá aðeins mild einkenni og ná sér innan fjögurra vikna án nokkurs inngrips. Einstaka tilfelli þurfa innlögn á sjúkrahús og þá eru gefin sérstök veirulyf sem bæði draga úr einkennum og smithættu. Bóluefni gegn bólusótt veitir u.þ.b. 85% vörn gegn apabólu. Fyrri bólusetning gegn bólusótt kemur hugsanlega í veg fyrir alvarleg veikindi en hætt var að bólusetja gegn bólusett hér á landi árið 1978.

Hvað get ég gert?

MPOX er sjaldgæfur sjúkdómur en það er æskilegt að hafa þessa þætti í huga til að draga úr líkum á smiti:

  • Handþvottur, hreint vatn og sápa
  • Spritta hendur
  • Forðast hrátt kjöt og borða aðeins kjöt sem hefur verið eldað vel í gegn
  • Forðast návígi við villt dýr og einnig hræ dýra
  • Forðast návígi við veik dýr
  • Forðast að snerta eða borða kjöt af villtum dýrum
  • Ekki deila rúmi eða handklæði með fólki sem er veikt og gæti haft apabólu
  • Ekki hafa náið samneyti við fólk sem er veikt og gæti haft apabólu

Þó MPOX læknist oftast af sjálfu sér er hún tilkynningaskyldur sjúkdómur og því þarf að láta vita hafi fólk grun um að hafa smitast. 

Ef grunur er um smit skal hafa samband við heilsugæsluna eða læknavaktina. Ekki mæta á staðinn án þess að hafa samband þar sem um smitsjúkdóm er að ræða. Gott er að vera í einangrun þar til greining og fyrirmæli liggja fyrir.

Ef grunur um smit kemur upp erlendis skal hringja í næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahús á þeim stað sem dvalið er og fá ráðleggingar. 

Þú finnur næstu heilsugæslustöð hér.