Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Athyglisbrestur og ofvirkni, ADHD - hjá börnum

Kaflar
Útgáfudagur

Athyglisbrestur og ofvirkni, ADHD (e. attention deficit hyperactivity disorder) er röskun í taugaþroska sem kemur yfirleitt fram snemma á ævinni.

Athyglisbrestur getur bæði verið með eða án ofvirkni eða hvatvísi. Flestir sem greinast með ofvirkni hafa einnig einkenni athyglisbrests að einhverju marki. Algengt er að nota styttinguna ADHD í daglegu tali yfir báðar eða aðra röskunina.

Talið er að 5-10% barna og unglinga sé með ADHD. Drengir líklegri en stúlkur til að greinast en kynjamunurinn minnkar með hækkandi aldri.

Orsakir

Orsakir ADHD eru truflun í boðefnakerfi heilans. Röskunin skýrist að miklu leyti af erfðum. 

Einkenni

Einkenni athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi hjá barni fara ekki alltaf saman eða eru til staðar í mismiklum mæli hjá barninu. 

Einkenni athyglisbrests:

  • Utanaðkomandi áreiti trufla auðveldlega
  • Barnið virðast ekki hlusta þegar talað er til þess
  • Erfitt að fylgja fyrirmælum
  • Erfiðleikar með að halda athygli, sérstaklega við viðfangsefni krefst einbeitingar, eru seinleg, leiðinleg eða ekki sjálfvalin
  • Einbeitingarskortur til dæmis við lestur eða úrvinnslu verkefna
  • Erfiðleikar við að byrja á eða ljúka verkefni
  • Forðast eða frestar verkefnum
  • Erfitt að vera með mörg verkefni í gangi á sama tíma
  • Fljótfærni eða kæruleysisleg mistök í verkefnum
  • Óstöðugleiki í frammistöðu
  • Skipulagsleysi - týna hlutum, slök yfirsýn, slakt tímaskyn
  • Gleymska

Einkenni ofvirkni:

  • Stöðugt á hreyfingu, hlaupa og klifra í aðstæðum þar sem það er ekki viðeigandi
  • Sífellt á ferðinni og hefur mikla orku
  • Erfiðleikar með að sitja kyrr – stendur oft upp þegar það er ekki viðeigandi
  • Þarf stöðugt að hafa eitthvað í höndunum, fikta í hlutum, naga neglur
  • Hendur og fætur á hreyfingu eða iða í sæti
  • Gefur frá sér óviðeigandi hljóð
  • Á erfitt með að leika sér hljóðlega
  • Talar of mikið
  • Á erfitt með að slaka á og róa sig

Einkenni hvatvísi:

  • Hegðun kemur á undan hugsun
  • Truflar eða ónáðar aðra
  • Getur ekki beðið eftir að röðin komi að sér í leikjum og athöfnum
  • Vill fá hluti strax
  • Á erfitt með að rétta upp hönd og bíða eftir að mega svara eða tala
  • Hrópar upp yfir sig – oft á óviðeigandi hátt
  • Kann reglur og afleiðingar en gera samt endurtekið sömu mistök eða brjóta reglur
  • Á erfitt með að standa í röð
  • Hugsa ekki um afleiðingar og meiða sig oft, skeyta ekki um hættur og sýna áhættuhegðun
  • Lenda oft í óhöppum
  • Talar án þess að hugsa, kemur með óviðeigandi athugasemdir, segir allt sem kemur upp í hugann
  • Hefst handa við verkefni án þess að kynna sér leiðbeiningar
  • Flýtir sér með verkefni, einkum þau sem eru óspennandi, til að ljúka þeim af og gerir mikið af kæruleysislegum villum
  • Leiðist auðveldlega, eirðarleysi
  • Slær stundum frá sér í bræði eða tekur hluti frá öðrum – heldur ekki aftur af sér né hugsar um afleiðingar

Greining

Ef grunur vaknar um að barn sé með ADHD er fyrsta skrefið gjarnan að fá ráðleggingar í nærumhverfinu. Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er best að leita til tengiliða farsældar. Viti foreldrar ekki hver tengiliðurinn er ætti skólinn að geta upplýst um það. Einnig má leita til kennara, skólastjóra, skólahjúkrunarfræðings eða sérfræðinga sem geta óskað eftir frumgreiningu hjá sérfræðiþjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu. Einnig er hægt að leita til heimilis- eða barnalæknis.

Í frumgreiningu hjá börnum og unglingum er færni þeirra kortlögð, meðal annars með mati á vitsmunaþroska. Auk þess eru lagðir fyrir skimunarlistar.

Gefi frumgreining til kynna að nánari greiningar sé þörf er tilvísun send á Geðheilsumiðstöð barna eða á stofu sem sinnir nánari greiningum. Í nánari greiningu fer fram frekara mat á einkennum með greiningarviðtölum og stöðluðum matstækjum. Auk þess er farið vel yfir þroska-, heilsufars- og fjölskyldusögu. Fengnar eru upplýsingar frá leikskóla og/eða grunnskóla. ADHD greining er unnin í þverfaglegum teymum sem hefur sérhæfða þekkingu á almennum þroska barna og röskunum í taugaþroska.

Meðferð

Þegar greining á ADHD liggur fyrir fá viðkomandi og aðstandendur fræðslu um ADHD og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Hafi ekki áður verið óskað eftir samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns þurfa foreldrar að gera það. Beiðni um samþættingu þjónustu.

Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er mikilvægt að samvinna á milli heimilis og skóla sé góð. Málstjóri farsældar gegnir mikilvægu hlutverki við að byggja upp teymi til stuðnings barninu. Ýmis stuðningur er í boði og gott að kynna sér það vel.Upplýsingar og fræðslu má m.a. nálgast á vefsíðu ADHD samtakanna

Lyfjameðferð við ADHD getur komið til álita. 

Gagnlegar upplýsingar eru á vefnum um hegðun barna, ráð við mótþróa og erfiðri hegðun og hvað virkar í uppeldinu.

Hvað get ég gert?

Fjölmargt hefur áhrif á möguleika barna til að lifa farsælu lífi með ADHD þar koma uppalendur sterkir inn og geta meðal annars:

Fylgiraskanir

Algengar fylgiraskanir ADHD eru meðal annars: