Fara á efnissvæði

Skjárinn og börnin

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn í dag alast upp í umhverfi sem er hlaðið tækjum og með stöðugum tækninýjungum. Með skynsamri umgengni við þessi tæki geta þau verið hluti af góðu uppeldi. Fyrstu kynni barna af snjalltækjum ættu alltaf að fara fram undir handleiðslu foreldra, forsjáraðila og/eða annarra fullorðinna.

Það er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra hversu mikil skjánotkun er á heimilinu. Skjátími getur haft neikvæð áhrif þegar hann kemur í stað jákvæðrar virkni, svo sem félagslegra samskipta, hreyfingar, nægilegs svefns og heilbrigðs lífernis. Foreldrar þurfa því að leitast við að skapa jafnvægi í lífi barna sinna og skipuleggja skjálausar stundir saman.

Foreldrar/forráðamenn eru fyrirmyndir barna sinna og mikilvægt að þau hugi að eigin skjánotkun þegar þau setja reglur um skjánotkun barna sinna.

Hér má sjá umfjöllun um þroska heilans í ungum börnum.

Skjánotkun barna eftir aldri

Börn 0 - 18 mánaða
  • Mælt er með að forðast allan skjátíma hjá börnum yngri en 18 mánaða. Hér er þó ekki átti við samskipti í gegnum netið við fjarstadda ættingja og vini.
  • Skjárinn er ekki barnfóstra.
  • Ekki er ráðlagt að nota skjátæki til að róa barnið ef það er í uppnámi. Hluti af eðlilegum þroska barna er að upplifa erfiðar tilfinningar og þau læra með auknum þroska að hafa stjórn á þeim. Ef notaður er skjár til að róa tilfinningar barnsins lærir barnið ekki upp á eigin spýtur að slaka á og sefa eigin tilfinningar. 
  • Ung börn læra af því að fylgjast með umhverfi sínu t.d með að horfa á fullorðna og herma eftir þeim í leik. Of mikil skjánotkun getur orðið til þess að börn fylgist minna með daglegum athöfnum fullorðinna og missa þannig af lærdómstækifærum. 
  • Börn undir tveggja ára læra minna af því að horfa á myndband en að horfa á manneskju gera það sama og í myndbandinu. Þó að börn geti fylgst með efni á skjá frá sex mánaða aldri skilja þau sjaldnast innihaldið fyrr en þau eru orðin að minnsta kosti tveggja ára. 

Þegar foreldrar kjósa að leyfa ungum börnum að horfa á sjónvarpsefni er mælt með að hafa eftirfarandi í huga:

  • Horfa á efnið með barninu og ræða við það um efnið.
  • Vanda val á sjónvarpsefni. Mælt er með að finna efni sem:
    • Hefur lærdómsgildi
    • Sýnir persónur eiga í samskiptum og leika á uppbyggilegan hátt.
    • Er með rólegri atburðarrás og hægum söguþræði.
Börn 18 mánaða - 5 ára
  • Takmarka skal skjátíma, sérstaklega hjá yngstu börnunum.
  • Skjárinn er ekki barnfóstra.
  • Samvist foreldris og barns, þar sem truflandi áreiti úr umhverfinu er haldið í lágmarki, ýtir undir sterkari tengsl og jákvæð samskipti.
  • Gæta þess að hafa sjónvarpið ekki stöðugt í gangi, það grípur athygli og hefur neikvæð áhrif á eðlilega hreyfiþörf barnsins.
  • Ekki skal nota skjátæki til að róa barnið. Barnið þarf að læra að stjórna tilfinningum sínum.
  • Skipuleggja reglulegar skjálausar stundir á heimilinu.
  • Tengsl eru á milli mikillar skjánotkunar og slökum orðaforða hjá ungum börnum. Aftur á móti getur gæða efni sem hefur menntunargildi haft jákvæð áhrif.

Skjátíma er hægt að nýta á uppbyggilegan hátt til að læra nýja hluti, tengjast öðrum, til að tjá sig, vera skapandi, leysa vandamál og margt fleira. Þegar börn fá skjátíma er mælt með að hafa eftirfarandi í huga:

  • Hvernig reglur heimilisins eiga að vera í kringum skjánotkun. Hafa skýrar reglur um hvenær skjátími er og hvenær ekki.
    • Gott viðmið er að takmarka skjánotkun á morgnanna, í matartímum og háttartíma.
    • Ef stöðugleiki er í reglum og skýr mörk eru um skjátíma læra börn að hverju þau ganga. Það kemur í veg fyrir að þau biðja um skjátíma í tíma og ótíma.  
  • Velja vandað og þroskandi efni á móðurmáli barnsins og horfa á það með barninu.
  • Kynna sér leiki og smáforrit sem barnið notar til að fullvissa sig um að þau hæfi aldri og þroska barnsins. Vera vakandi fyrir auglýsingum sem fylgja smáforritum, þær eru oft ekki við hæfi barna.
  • Velja verkefni og leiki sem bjóða upp á hreyfingu eða hafa lærdómsgildi.
  • Ræða við barnið um það sem það sér og upplifir, m.a. til að örva málþroska.
Börn 6 - 12 ára
  • Tryggja þarf skjálausar samverustundir fjölskyldu eins og t.d. á morgnanna fyrir skóla, á matmálstímum og eftir kvöldmat.
  • Sýna skjánotkun barnsins áhuga og ræða við barnið um hana. Mikilvægt er að foreldrar séu upplýstir um hvað börnin þeirra eru að gera í skjánum.
  • Nýta öryggisstillingar og vefsíur (líkt og family-link, family sharing, life 360 o.fl.) til að hafa yfirsýn og stjórn á skjánotkun barnsins.
  • Virða aldurstakmörk  leikja og samfélagsmiðla. Ræða við foreldra/forráðamenn vina barnsins og gera samkomulag um að fylgja aldurstakmörkum. Auðveldara er að fylgja eftir reglum þegar leikfélagarnir þurfa að fylgja sömu reglum.
  • Styrkja jákvæða skjánotkun með því að benda barninu á áhugavert og lærdómsríkt skjáefni og hrósaðu því fyrir uppbyggilega og hófstillta notkun skjátækja.
  • Kenna barninu að gefa ekki upp persónuupplýsingar á netinu eins og nafn, síma, netfang, heimilisfang, lykilorð, nafn á skóla eða myndir.
  • Kenna barninu góðar venjur á netinu eins og að vera kurteis í samskiptum og bera virðingu fyrir öðrum. Hjálpaðu því einnig að leysa átök sem þau lenda í á netinu, eins og annarsstaðar í lífinu.
  • Kenna barninu um mikilvægi þess að segja fullorðnum frá ef það upplifir óæskilega atburði á netinu líkt og ef ókunnugir reyna að hafa samband við það í gegnum smáforrit.
  • Gæta þess að hafa sjónvarpið eða önnur tæki ekki stöðugt í gangi, það truflar góð samskipti foreldra og barna.
  • Tryggja þarf börnum nægan svefn en börn á yngri stigum grunnskóla þurfa almennt um 9-11 klst. svefn á nóttu. Ráðlagt er að hafa engin skjátæki í svefnherbergjum barna vegna neikvæðra áhrifa á nætursvefn. Einnig er ráðlagt að takmarka skjánotkun tveimur klukkustundum fyrir svefn því útfjólubláa ljósið frá skjánum hefur hamlandi áhrif á framleiðslu svefnhormónsins sem gerir okkur þreytt. Skjáefni getur haft örvandi áhrif á börn og komið í veg fyrir að þau nái ró. 
Börn/unglingar 13 - 18 ára

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að skjánotkun og samfélagsmiðlanotkun ungmenna er hluti af daglegu lífi þeirra og það ber að virða. Þó þarf að hafa í huga að foreldrar mega setja börnum sínum ákveðin mörk.

Ráðlagt er að foreldrar/forráðamenn og ungmenni ræði saman um skjánotkun og komi sér saman um reglur. Foreldrar/forráðamenn ættu að sýna áhuga á því sem ungmennið er að skoða á netinu.

Unglingar þurfa 8-10 klukkustunda svefn á sólarhring og því þarf að tryggja að skjánotkun hafi ekki neikvæð áhrif á svefn eða aðrar grunnþarfir eins og hreyfingu, hreinlæti eða næringu.

  • Minnka áreiti með því að slökkva á tilkynningum frá forritum.
  • Mælt er með skjátímalausum stöðum t.d. við matarborðið og uppi í rúmi.

Hér á eftir koma umræðupunktar sem foreldrar geta stuðst við þegar ræða á um skjánotkun:

  • Ef þú fengir að stjórna skjánotkun á heimilinu, hvernig væri henni háttað?
  • Ef þú værir með skjálausan dag, hvað myndirðu gera?
  • Finnst þér þú, foreldrar/forráðamenn þínir eða vinir vera of mikið í símanum, spjaldtölvunni eða horfa mikið á sjónvarp?
  • Hvað skoðarðu í símanum eða tölvunni og hvenær gerirðu það? – Skoðarðu þetta af því að þér leiðist eða ertu að leita að einhverju sérstöku?
  • Hvernig líður þér eftir að hafa verið lengi við skjáinn?
  • Ertu að skoða símann á þínum forsendum eða vegna tilkynninga eða skilaboða?
  • Tekur síminn mikinn tíma frá þér sem þú gætir notað í annað?
  • Hvernig finnst þér að hafa símann alltaf á þér?
  • Hversu mikill tími fer í að skoða efni sem gagnast þér og hversu mikill tími fer í annað?

Hverju þarf að huga að áður en barn fer á netið?

Það er að mörgu að hyggja þegar börn verða virkir notendur á netinu og það getur verið erfitt fyrir foreldra að fylgjast með. Hér fyrir neðan er að finna ráð og ábendingar um hvernig hægt er að skapa góðar venjur og hvernig er hægt að vera góð fyrirmynd.

Aldursviðmið á tölvuleikjum

Tölvuleikir hafa ólík aldurstakmörk út frá innihaldi og framsetningu leikjanna. Flestir seldir leikir eru með aldurstakmörkum. Auk þess eru leikirnir með eitt eða fleiri tákn sem sýna hvort í þeim sé t.d. ofbeldi, kynlíf, gróft málfar eða eitthvað ógnvekjandi.

Merkingarkerfi er notað á tölvuleiki á Íslandi og í Evrópu. Þetta kerfi hefur aldursviðmiðin 3,7,12,16 og 18 ára. Þetta kerfi byggir á rannsóknum á þroska barna og ungmenna. Aldursviðmið eru ákveðin út frá því hvað hæfir hverjum aldursflokki fyrir sig.  

Aldursviðmiðin eru leiðbeinandi og flokkunin notuð sem stuðningur til að velja leiki en foreldrar/forráðamenn þekkja barnið best. 

Mælt er með að spyrja barnið um ráð ef óvissa er til staðar. Það eru oft börnin sjálf sem hafa mesta þekkingu á leikjategundum, efni og hvernig leikirnir eru notaðir í mismunandi samhengi.

Nánari upplýsingar fyrir foreldra má finna hér.

Aldursviðmið á samfélagsmiðlum

Það eru tvennskonar týpur af aldursviðmiðum fyrir samfélagsmiðla:

  • Aldursviðmið fyrir að safna persónuupplýsingum.
  • Aldursviðmið fyrir innihald.

Á flestum samfélagsmiðlum þarf barn að hafa náð 13 ára aldri til að geta stofnað notendaaðgang. Hafa ber í huga að þetta aldursviðmið er einungis sett til að vernda persónuupplýsingar barna en tekur ekki tillit til rannsókna á þroska þeirra líkt og á við um aldursviðmið tölvuleikja.

Á samfélagsmiðlum er ógrynni af efni sem ekki er við hæfi barna og ungmenna.

Samfélagsmiðlar hafa einnig sínar eigin aldursráðleggingar varðandi efni eða hverjum þjónustan hentar. Netverslanir líkt og App Store eða Windows Store nota mismunandi kerfi til flokkunar en fyrir vikið getur verið misræmi á milli aldursviðmiða. Mælt er með að:

  • Ræða við barnið um samfélagsmiðlana sem það hefur áhuga á til að auka skilning á hvað er aðlaðandi og skemmtilegt við þá.
  • Fara á upplýsingasíður hinna ýmsu samfélagsmiðla, skoða aldurstakmörkin og notkunarskilmála þjónustunnar.
  • Foreldrar/forráðamenn ákveða hvort barnið sé nægilega þroskað og tilbúið að hafa sinn eigin notendaaðgang á samfélagsmiðli.
  • Ræða um samfélagsmiðla á foreldrafundum og ekki hika við að búa til sameiginlegar reglur eða leiðbeiningar til notkunar. Bera virðingu fyrir reglunum.  

Smáforrit og kaup

Það eru til mörg áhugaverð og skemmtileg smáforrit í símanum og spjaldtölvunni. Sum eru ókeypis en önnur kosta.

Flesta síma og spjaldtölvur er hægt að stilla á þann hátt að ekki sé hægt að versla smáforrit eða það sé eingöngu hægt með ákveðnum kóða. 

Einnig geta foreldrar/forráðamenn oftast takmarkað aðgang barna að völdum smáforritum og innkaupum í gegnum eigin síma. Kaup á og í smáforritum fara í gegnum reikning og kóða sem tengist kreditkorti. Munum að ef kóðanum er deilt er það sama og að deila kreditkortanúmerinu með öðrum. 
 
Gott er að ræða við barnið um:

  • Hvaða smáforrit barnið sækir og hvort möguleiki sé að frekari kaupum í forritinu.
  • Afleiðingar þess að smella á ,,tilboð” í smáforritum og að það geti kostað peninga.
  • Mögulega hámarksupphæð sem barnið getur eytt í smáforrit (á viku eða mánuði) ef það er í boði.

Skjárinn og svefn

Of mikill skjátími getur haft neikvæð áhrif á heilsuna og valdið svefnvanda. Þetta á bæði við um börn og fullorðna. Enn fremur hefur ónægur svefn verið tengdur við hegðunar- og tilfinningarvanda hjá börnum. Því er mikilvægt að setja skýrar reglur varðandi skjátíma og svefn og fylgja þeim eftir.

Áhrif skjátíma á svefn:

  • Skjánotkun, sérstaklega nálægt háttatíma hefur slæm áhrif á lengd og gæði svefns.
  • Bláa ljósið frá skjánum getur komið í veg fyrir að líkaminn seyti melatonin (svefnhormónið sem gerir líkamann þreyttan á kvöldin) og áhorf á skjá á kvöldin getur því komið í veg fyrir að barnið upplifi þreytu og verður því erfiðara að sofna.  
  • Efnið sem horft er á getur haft örvandi áhrif á hugann vegna áreitisins og erfiðara getur verið að ná ró fyrir svefn.
  • Börn sem fá of mikinn skjátíma geta orðið pirruð og skapofsaköst í kringum háttatíma geta aukist.
  • Því vanari sem börn verða skjánum, því erfiðara er að fjarlæga þau frá honum án þess að þau fari í uppnám, sem er óhentugt þegar þau eiga að fara að sofa.
  • Skjááhorf á kvöldin getur haft áhrif á svefntímann þannig að honum seinkar, sem getur leitt til þess að barn fái ekki nægan svefn.
  • Gott er að setja upp skjátímasvefnvenjur fyrir barnið sem ýtir undir heilbrigðar svefnvenjur:
    • Sleppa öllum skjátíma a.m.k. tveimur klukkutímum fyrir háttatíma barnsins.
    • Setja inn rólegri athafnir á kvöldin fyrir börnin (t.d. lesa, lita, spjalla).
    • Halda öllum tækjum frá herbergi barnsins. Skjátæki inni í herbergi barns getur haft truflandi áhrif á svefninn, þó svo að ekki sé kveikt á því.
    • Setja reglur/rútínur sem eiga við alla fjölskyldumeðlimi því þá eru þær líklegri til að virka.
  • Góð regla er að geyma snjalltæki heimilisins á ákveðnum stað þegar skjátími er ekki í boði t.d. á matmálstímum eða fyrir svefn.

Hér eru frekari upplýsingar um ráð til að bæta svefn.

Áhyggjur af netnotkuninni?

Ef áhyggjur eru af skjánotkun barnsins er ráðlagt að skoða meðfylgjandi lista yfir atriði sem líta ber til. Þetta eru atriði sem foreldrar/forráðamenn geta haft áhrif á og aðstoðað barnið við að setja sér mörk.

  • Sinnir barnið skóla og heimanámi á viðunandi hátt?
  • Hittir barnið vini utan skóla (ekki bara á netinu)?
  • Er barnið virkt í íþróttum eða öðrum tómstundum?
  • Fær barnið nægan svefn, næringu og hreyfingu?
  • Er barnið sátt við að settar séu skorður á skjánotkun þess?
  • Hefur barnið í raun ánægju og gagn af notkun tækjanna?
  • Veldur notkun tækjanna kvíða, depurð eða skapsveiflum?
  • Felur barnið skjánotkunina?
  • Veist þú hvað barnið gerir í tölvunni/símanum?
  • Einnig getur þú skoðað kaflann um tölvuleikjaröskun

Hvert getur þú leitað til að fá aðstoð?

Ef skjánotkun barns virðist vera komin út fyrir eðlileg mörk er ráðlagt að leita til sálfræðinga á heilsugæslustöðvum eða fagaðila á stofu. Með tilvísun frá heimilislækni fá börn undir 18 ára aldri niðurgreiðslu frá sjúkratryggingum fyrir sálfræðiþjónustu.

Finna næstu heilsugæslu hér

Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Geðheilsumiðstöð barna hefur hannað og heldur utan um. Það er tilvalið að kynna sér hvort námskeið er í boði í þínu nágrenni. 

Geðheilsumiðstöð barna heldur námskeiðið ,,Ertu að tengja? Uppeldi, tengsl og foreldrahlutverkið" þar sem m.a. er farið yfir skjánotkun.

Í stuttu máli til útprentunar

Skjáviðmið fyrir 0 til 5 ára

Skjáviðmið fyrir 6 til 12 ára

Skjáviðmið fyrir ungmenni 13 til 18 ára