Á bilinu 40 til 50% hjónabanda á Vesturlöndum enda með skilnaði og þá er ótalið þegar fólk hefur verið í skráðri sambúð eða eignast börn saman og ekki skráð saman.
Skilnaður er talinn vera einn mest streituvaldandi lífsatburður fullorðinsáranna og mikilvægt að vera vakandi fyrir neikvæðum áhrifum sem geta fylgt.
Áhrif skilnaðar á fullorðinna geta verið:
Jákvæð
- Léttir að hætta í erfiðu sambandi
- Ný tækifæri
- Sjálfstæði
- Betri einbeiting
- Meiri ró á heimili
Neikvæð:
- Kvíði
- Þunglyndi
- Geðvefræn einkenni
- Almennt verri andleg og líkamleg líðan
- Efnahagserfiðleikar
Að sama skapi getur skilnaður haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á börn. Það getur haft jákvæð áhrif ef foreldrar hafa tækifæri til að blómstra í eigin lífi. Ef samkomulag gengur vel á milli foreldra og þau hafa jafnvel meiri tíma til að sinna börnunum þegar þau eru hjá þeim. Ef að mikil átök eru í kringum og eftir skilnað getur það haft neikvæð áhrif á heilsu og velferð barna og því mikilvægt að hlúa vel að þeim.
Skilnaður getur enn fremur haft áhrif á börn og það líf sem þau þekkja. Margt bendir til þess að skilnaðurinn geti verið þeim skaðlegur ef ekki er vel að honum staðið og hagsmunir barna hafðir í fyrirrúmi.
Börn fráskilinna foreldra geta þurft frekari stuðning vegna:
- Andlegrar vanlíðunar
- Hegðunarerfiðleika
- Félagslegra erfiðleika
- Slakrar námsframvindu
Skilnaðarráðgjöf og stuðningur við foreldra með hagsmuni barna að leiðarljósi er því mikilvægur þáttur við sambúðarslit eða skilnað. Grundvöllur skilnaðarráðgjafar er að veita almenna fræðslu um mál sem þarf að ganga frá við skilnað líkt og fjármál, forsjár- og umgengnismál, samvinnu foreldra og samskipta í fjölskyldum. Meginmarkmið skilnaðarráðgjafar er að efla samvinnu á milli foreldra. Í sameiningu geti þau farið með þau mál sem snúa að börnunum og uppeldi þeirra með gagnkvæmri virðingu og sameiginlegum skilningi um að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi.
Verkefnið ,,Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna" (SES) er stafrænt gagnreynt námsefni sem hjálpar foreldrum að takast á við breytingar og áskoranir í kjölfar skilnaðar eða slita á sambúð. Námskeiðin eru notendum að kostnaðarlausu.
Markmiðið er að foreldrar fái verkfæri til að hjálpa sjálfum sér og börnunum á sem jákvæðastan hátt í gegnum skilnaðinn. Það er ekki skilnaðurinn sjálfur heldur ágreiningur á milli foreldranna sem fer verst með börnin.
Hugmyndafræði SES byggir á því að efla samvinnu foreldra með hagsmuni barna að leiðarljósi. Það er gert með tvennum hætti:
- Fræðsla fyrir foreldra í formi vefnámskeiða
- Sérhæfð skilnaðarráðgjöf sem veitt er af fagaðilum innan félags- og heilbrigðisþjónustu og sýslumannsembætta.
Frá júlí 2021 hefur félagsmálaráðuneytið innleitt SES á landsvísu þar sem öllum foreldrum á Íslandi var gefinn kostur á að nýta sér stafræna vettvang SES.