Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Meðfædd viðbrögð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Frá fæðingu eru börn ólík að eðlisfari. Á meðan eitt er lágvært og rólegt sýnir annað fjörlegri geðbrigði. Eitt barn er fljótt til að tala, ganga eða stjórna þvaglátum á meðan önnur eru seinni. Allt getur það verið innan eðlilegra marka og ekkert til að hafa áhyggjur af. Hafi foreldrar áhyggjur af þroska barns síns ættu þeir að ræða þær áhyggjur við lækni eða hjúkrunarfræðing í ung- og smábarnaverndinni.

Meðfædd viðbrögð

Í fyrstu eru meðfædd viðbrögð ríkjandi hjá kornabarninu. Eins og í móðurkviði eru bolur og útlimir mest í kreppu. Höfuðið snýr oftast til annarrar hliðarinnar þegar barnið liggur á bakinu og hreyfingar stýrast af meðfæddum viðbrögðum. Meðfædd viðbrögð eru fjölmörg en öll eiga þau það sameiginlegt að dofna með aldrinum.

Sogviðbragð

Sogviðbragðið þekkja flestir. Þetta viðbragð er lífsnauðsynlegt fyrir barnið, því það nærist með því að sjúga. Næmi er mikið kringum munninn og sé snert við því svæði opnar barnið munninn og leitar í áttina að því sem snerti það til þess að sjúga (leitarviðbragð).  Þó barnið skilji ekki sjálft strax hvernig það á að bera sig að við brjóstið, skiptir það ekki máli, því sogviðbragðið sér fyrir því. Það finnur geirvörtuna og byrjar að sjúga. Barnið getur sogið, kyngt og andað samtímis, en það er eiginleiki sem síðar glatast.

Skylmingarviðbragð

Þegar barnið liggur vakandi á bakinu leitar höfuðið til annarrar hliðarinnar, t.d. vinstri. Er þá vinstri handleggur (og fótleggur) beinn en sá hægri boginn. Snúi barnið höfðinu í gagnstæða átt fylgja útlimir með sem því nemur, þ.e. hægri handleggur beinn, sá vinstri boginn.

Gripviðbragð

Er mjög áberandi bæði í fingrum og tám þar sem snertiskyn er næmt.  Sé snert með fingri í lófa barnsins grípur það ómeðvitað þéttingsfast um fingurinn og rígheldur þar til losað er um.

Hræðsluviðbragð

Verði kornabarn hrætt eða óöruggt bregst það við með hræðsluviðbragðinu. Það sveiflar handleggjum út, teygir úr sér og spennir líkamann aftur. Strax á eftir fylgir umfaðmandi hreyfing auk þess sem skelfingarsvipur kemur á barnið. Það sem vekur þetta viðbragð er oftast hávaði eða ef undirstaða svíkur og barninu finnst eins og það falli.  Þá er gott að taka handleggina, leggja þá rólega yfir brjóst barnsins og halda þeim þar og tala rólega til barnsins.

Skriðviðbragð

Liggi barnið á grúfu og iljar þess eru snertar dregur það fótleggi að sér eins og það sé að reyna að skríða.

Gangviðbragð

Tekið er undir handarkrika barns og fætur látnir snerta sléttan flöt. Barnið hreyfir fæturnar líkt og það gangi.