Fara á efnissvæði

Hegðun barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Allir foreldrar geta lent í erfiðleikum með hegðun barna sinna. Þegar börn eru farin að temja sér erfiða hegðun og ekkert er gert í því er hætta á að hlutirnir versni. Því fyrr sem gripið er inn í með bættum uppeldisháttum, því betra. Vissulega geta meðfæddir eiginleikar barna, t.d. skapgerð eða þroskafrávik líka átt þátt í erfiðri hegðun barna en horfurnar eru alltaf betri ef tekið er á þeim erfiðleikum sem upp koma á skipulegan hátt með viðurkenndum aðferðum.

  • Hegðun eða atferli á við um allt sem einstaklingur gerir og er sýnilegt öðrum.
  • Hegðun er lærð en ekki meðfædd.
  • Þótt hegðun sé ekki meðfædd, fæðast börn með mismunandi skapgerð og eiginleika.
  • Þessir meðfæddu þættir hafa áhrif á hegðun og samskipti annarra gagnvart barninu og þar með á það hvernig hegðun barnsins mótast og þróast.
  • Það að hegðun sé lærð þýðir að hægt er að móta hana og breyta með viðeigandi kennslu eða uppeldi.

Hvað er erfið hegðun?

  • Almennt er hugtakið „hegðunarerfiðleikar“notað um hegðun sem víkur það mikið frá hegðun barna á sama aldri að það gengur á rétt annarra og hindrar einstaklinginn sjálfan í þroska, námi eða leik.
  • Erfið hegðun barna getur birst sem: Skapofsaköst, öskur, hótanir, ljótt orðbragð, að meiða aðra, skemma hluti, hvatvísi, óhlýðni, mótþrói og krafa um mikla og stöðuga athygli.
  • Öll börn sýna erfiða hegðun stöku sinnum eða tímabundið án þess að um „hegðunarerfiðleika“ sé að ræða. Þetta getur t.d. tengst því þroskaskeiði sem barnið er á eða einhverju öðru tilfallandi. Það er samt mikilvægt að taka strax rétt á málunum og nota aðferðir sem tryggja árangursríkt uppeldi.
Að fyrirbyggja erfiða hegðun
  • Væntingar til barnsins eiga að vera sanngjarnar, raunhæfar og í samræmi við þroska þess og getu. Þær eiga því hvorki að vera of miklar né of litlar.
  • Leggja þarf áherslu á að mynda góð tengsl við barnið, sýna því hlýju og jákvæða athygli, ræða við það, hlusta á það og svara.
  • Mikilvægt er að vera vakandi fyrir æskilegri hegðun og hrósa fyrir hana eða umbuna á annan hátt.
  • Uppalendur þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér og standa við það sem er sagt; nei á að þýða nei.
  • Mikilvægt er að fylgjast með eigin hegðun og viðbrögðum og vera meðvitaður um áhrif þess á hegðun barnsins.
  • Nauðsynlegt er að uppalendur séu samtaka og noti samræmdar uppeldisaðferðir.
  • Börn þurfa að fá skýr og einföld skilaboð um hvað má og hvað ekki. Mikilvægt er að útskýra af hverju, eftir því sem þroski barnsins leyfir.
  • Þegar erfiðleikar eða óvissa um réttar aðferðir koma upp er mikilvægt að leita ráðgjafar eða annarrar aðstoðar.
Að takast á við hegðunarerfiðleika
  • Nauðsynlegt er að skoða eigin uppeldisaðferðir og viðbrögð við hegðun barnsins.
  • Skoða hvaða reglur eru í gildi og hvort og hvernig þeim er fylgt.
  • Reyna að átta sig á hvað annað gæti ýtt undir og viðhaldið erfiðri hegðun barns. Til dæmis að láta athuga hvort eitthvað er að hjá barninu sem gæti orsakað erfiða hegðun.
  • Setja sér markmið til að vinna að, skilgreina vandamálið, ákveða hvaða hegðun vonast er til að ná fram og hvernig.
  • Einblína ekki bara á erfiðleikana heldur muna líka eftir hinu jákvæða í fari barnsins.
  • Gefist ekki upp þó allt gangi ekki alltaf að óskum strax og ekki hika við að leita viðeigandi aðstoðar. Leita má upplýsinga hjá hjúkrunarfræðingum heilsugæslunnar, leikskólakennurum eða öðru fagfólki um uppeldisráðgjöf, námskeið, fræðsluefni, athuganir, meðferð og önnur úrræði sem standa til boða.

 

Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Þroska- og hegðunarstöð hefur hannað og heldur utan um. Það er tilvalið að kynna sér hvort námskeið er í boði í þínu nágrenni.