Fara á efnissvæði

Að eignast systkini

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn sem alast upp við ástríka leiðsögn, aga og hafa lært að deila með öðrum eru líkleg til að þróa með sér jákvæða, sterka sjálfsmynd sem hjálpar þeim að komast til manns og þykja vænt um og njóta systkina sinna alla ævi. 

Með góðum undirbúningi fyrir komu nýbura geta foreldrar ýtt undir jákvæða reynslu eldra barns. Það stuðlar að betri tengslamyndun á milli systkina og jákvæðri hegðun eldra systkinis í garð nýja barnsins og minnkar líkur á afbrýðisemi.

Á meðgöngu

Það fer eftir aldri barna hversu fljótt og hve nákvæmlega þeim er sagt frá því að von sé á nýju barni. Eldra barni er sagt frá því um leið og öðrum í fjölskyldunni, en yngra barni síðar, þegar nær dregur fæðingunni. Gagnlegt getur reynst að lesa bækur með barninu, sem fjalla um það að eignast systkin og sýna barninu myndir af því sjálfu frá því það var lítið.

Barnið okkar

Mikilvægt er að fullvissa barnið um tilfinningar ykkar í garð þess og að þær muni ekki breytast: Að væntanlegt barn verði „okkar barn“.

Leyfið barninu að taka þátt í undirbúningi að komu nýburans t.d. með því að velja og hafa til föt á barnið, undirbúa vöggu/rúm og þess háttar.

Breytingar

Ef breyta þarf daglegum háttum barns (s.s. skipta um herbergi, rúm, hætta með snuð eða bleiu eða læra að borða sjálft og klæða sig sjálft) er betra að gera það snemma á meðgöngunni svo það fái að venjast breytingunum í ró og næði og tengi það ekki komu nýja barnsins.

Eftir fæðinguna

Fyrstu kynni

Þegar eldra barn hittir systkin sitt í fyrsta sinn, getur það verið viðkvæmt fyrir því ef nýburinn er í fangi móðurinnar eða jafnvel á brjósti. Reynið því að koma því þannig fyrir að móðirin geti tekið á móti eldra barninu og veitt því athygli og sýnt því nýja systkinið.

Að koma heim

Leyfið eldra barni að koma með til að sækja nýburann svo öll fjölskyldan geti komið saman heim. Halda áfram daglegum venjum eldra barns eins og að sækja leikskóla og tómstundaiðkun t.d. íþróttir, tónlist eða hitta vini. 

Ættingjar og vinir

Gott er að hvetja ættingja og vini til þess að sýna eldra systkininu sérstaka athygli á þessu tímabili. Breytingin er mikil þegar nýr einstaklingur bætist í fjölskylduna.

Jákvætt systkinasamband

Hægt er að stuðla að jákvæðu systkinasambandi með því að kenna þeim eldri að lesa í hegðun nýburans og skilja viðbrögð hans. Gott er að færa í orð ”sjáðu, nú er hún að horfa á þig” eða ”nú grætur hann, því hann þarf nýja bleiu” til að auka skilning þeirra á hegðun nýburans.

Sýnið barninu ást og umhyggju og segið því hversu heppið litla barnið er að eiga svona yndislegan bróður eða systur.

Gefið eldra barni tækifæri til að hjálpa til við umönnun nýburans svo sem við böðun, sækja bleiu eða snuð eða hugga barnið. Einnig gæti eldra barn hjálpað til við að opna þá pakka sem litla barninu eru færðir og tekið þátt í að sýna gestum litla systkin sitt. Munið að hrósa barninu.

Til að styrkja barnið í systkinahlutverkinu getur verið gott að það eigi mynd af sér með nýja systkininu til að sýna t.d. á leikskólanum. Ýmsir hlutverkaleikir t.d. mömmuleikur með dúkku geta hjálpað.

Varist að gera upp á milli barna eða bera þau saman á neikvæðan hátt. Slíkt getur aukið sundurlyndi í fjölskyldu og valdið ójafnvægi og vanlíðan innan hennar.

Góð systkinatengsl eru grunnur að vellíðan og vænlegum þroskaskilyrðum fyrir börn. Systkinatengsl eru einstök tilfinningaleg tengsl sem vara alla lífstíð. Bræður og systur geta verið uppspretta félagsskapar, hjálpar og tilfinningalegs stuðnings og eldri systkin taka jafnvel að sér hlutverk gæsluaðila, kennara eða fyrirmyndar. Í samskiptum við hvort annað geta systkini því öðlast félagslega og vistmunalega færni sem stuðlar að meiri og heilbrigðari félagsþroska.

Í breyttum aðstæðum

Gefið eldra barninu ákveðinn tíma einu, ýmist með mömmu eða pabba til að gera eitthvað sem barnið hefur gaman af. Það geta verið mikil viðbrigði fyrir eldra barnið að deila athygli.

Þegar börnin þurfa athygli samtímis getur nýburinn beðið í stutta stund á meðan eldri börnum er sinnt.

Algengt er að eldri systkin sýni afturhvarf í þroska sem svörun við breyttum aðstæðum á heimili og geta foreldrar búist við því hvenær sem er eftir komu nýburans. Börnin byrja þá gjarnan að tala barnamál, vilja fá snuð o.s.frv. Óþarfi er að hafa áhyggjur af breyttri hegðun barnsins því hún er oftast tímabundin.

Hafið í huga að sé eldra systkinið í dagvistun eða á leikskóla, getur það sýnt sömu hegðun þar. Dagmæður/leikskólakennarar geta hjálpað eldra systkininu að vinna með þessar breytingar.

Forðist refsingar og ávítur, það ýtir undir tilfinningu barnsins um að það hafi hegðað sér illa eða að ykkur þyki ekki vænt um það.

Hrósið og hvetjið barnið til jákvæðrar hegðunar og minnið það á kosti þess að vera eldra og þroskaðra.

Reynið að vera þolinmóð. Munið að eldri systkin geta átt erfitt með að átta sig á af hverju ákveðin hegðun eins og að nota pela/snuð og bleiu er í lagi fyrir litla barnið, en ekki það sjálft.

Uppeldi og afbrýðissemi

Gott er að hafa í huga að afbrýðisemi er eðlileg tilfinning. Kennið börnunum og hvetjið þau til að tala um tilfinningar sínar eins og gleði, leiða, depurð, reiði eða sorg og sýnið þeim skilning.

Leitist við að leiðbeina börnunum á jákvæðan hátt í stað þess að ávíta þau fyrir neikvæða/slæma hegðun. Komi upp rifrildi eða ósætti á milli systkina ættu þau að fá tækifæri til að útkljá málin sín á milli. Foreldrar ættu að forðast að skerast í leikinn, nema ef til slagsmála kemur eða ef þau beita ofbeldi. Ekki er hægt að ætlast til að systkini leiki sér alltaf saman í sátt og samlyndi, en hægt er að dreifa athygli þeirra með því að láta þau hafa sitt hvort verkefnið að fást við, á sama tíma.

Börn sem alast upp við ást og umhyggju og læra að deila með öðrum eru líklegri til að öðlast gott sjálfstraust og hafa ánægju af systkinum sínum ævilangt.

Mikilvægt er að bregðast við þegar barn sýnir vanlíðan í tengslum við að eignast systkini þar sem neikvæðar tilfinningar geta annars fylgt viðkomandi til fullorðinsára.

Sjálfsagt er að leita til heilsugæslunnar varðandi úrræði eða ráðgjöf. Starfsmenn heilsugæslunnar búa að áralangri reynslu og góðu samstarfi við aðra fagaðila í umönnun barna s.s. skóla/leikskóla, sálfræðinga og félagsþjónustu.