Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Meðgöngukvillar og ráð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Meðgöngukvillar eru einstaklingsbundnir og misjafnt er hversu mikið og hversu lengi konur finna fyrir þeim. Líðanin getur verið breytileg hjá sömu konunni eftir því sem líður á meðgönguna.

Meðgöngukvillar eru ekki hættulegir þó þeir geti verið slæmir og valdið vanlíðan. Þeir hafa ekki áhrif á hvernig barnið dafnar í móðurkviði, hvernig fæðingin kemur til með að ganga eða hvernig líðan móður og barns verður eftir fæðinguna.

Konur ganga í gegnum mismunandi reynslu af meðgöngu. Hver meðganga er einstök og er ekki aðeins mismunandi á milli kvenna, sama konan getur haft mismunandi reynslu af hverri meðgöngu. Það er mikilvægt að hafa í huga að meðgöngukvillar vara tímabundið. Við flestum meðgöngukvillum eru til ráð sem draga úr einkennum en við sumum er minna hægt að gera. Sýnt hefur verið fram á að jákvæð sýn á lífið og jákvætt hugarfar er hjálplegt þegar verið er að takast á við nýja reynslu.

Bjúgur

Vegna breytinga á blóðrás geta konur fundið fyrir vökvasöfnun í líkamanum. Oft er hún mest á fótunum. Talið er að allt að 80% kvenna fái einhvern bjúg á meðgöngu. Samkvæmt rannsóknarniðurstöðum eru ekki til einhlít ráð sem duga við bjúg, en margt hefur þó reynst vel. 

Gott er að forðast langar stöður og góð hvíld með hátt undir fótunum getur dregið úr vökvasöfnun á fætur. Stuðningssokkar geta komið sér vel og góðir skór geta dregið úr óþægindum. Léttar fótaæfingar; teygja og rétta úr ökklanum til skiptis og snúa fætinum um ökklann geta dregið úr vökvasöfnun á fætur og minnkað óþægindi.

Grape ávöxtur og ávaxtasafi og vatnsmelóna geta dregið úr vökvasöfnun. Þá hefur reynst vel að drekka nóg af vatni.

Hreyfing í vatni getur hjálpað og því gott að fara reglulega í sund. 

Brjóstsviði

Brjóstsviði er algengur fylgikvilli á meðgöngu. Vegna hormónabreytinga hægist á starfsemi meltingarfæranna sem seinkar tæmingu magans. 

Loft og magasýrur berast upp í vélinda og valda brjóstsviða. Einnig getur þrýstingur á maga móðurinnar vegna stækkunar á legi og barni aukið einkennin. Það reynist oft hjálplegt að borða oftar en minna í einu.

Sumar fæðutegundir geta aukið á brjóstsviðann s.s. hvítkál, laukur, pylsur, pítsur og mikið kryddaður matur, einnig matur sem steiktur er í mikilli fitu.  
 
Ef brjóstsviðinn eykst við að leggjast útaf á kvöldin gæti hjálpað að hækka höfðalagið í rúminu. Setja má bækur/handklæði undir dýnuna eða fæturna á rúminu svo að dýnan halli svolítið. Ef þessi ráð duga ekki til, má reyna töflur eða mixtúru við brjóstsviða, sem fást í apóteki án lyfseðils. 

Hafa ber í huga að öll lyf við brjóstsviða geta valdið harðlífi og hægðatregðu. Því þarf að auka enn frekar vökva og trefjainntekt, þegar þau eru notuð. Velja því  gróft brauð og kornvörur og líka gróft morgunkorn.

Borða ávexti daglega, ferska og þurrkaða (döðlur, gráfíkjur, rúsínur, sveskjur, apríkósur). Allt grænmeti er líka ríkt af trefjum, hvort sem það er snætt hrátt eða eldað. Til að trefjarnar virki vel þarf að drekka nóg af vökva og  er vatnið best.

Það getur verið að þú þolir illa sumar fæðutegundir. Reyna að finna hvað fer vel í þig og hvað gerir líðanina betri. 

Ekki er gott að leggjast útaf fljótt eftir máltið, láta líða að minnsta kosti klukkustund áður en þú leggur þig eftir að hafa borðað.

Lyfjafræðingar í apótekum geta leiðbeint um viðeigandi lyf á meðgöngu

Hægðatregða

Breyting sem verður á starfsemi meltingarfæranna á meðgöngu getur leitt til hægðatregðu.

Hægðatregða er algengara vandamál á síðasta þriðjungi meðgöngunnar en getur komið á öðrum tíma. Þær konur sem hafa slíka tilhneigingu fyrir þungun ættu að gera viðeigandi ráðstafanir snemma á meðgöngunni. Þannig er hægt að koma í veg fyrir versnandi harðlífi, hægðatregðu og jafnvel gyllinæð. Harðlífi og hægðatregða valda ýmsum óþægindum og vanlíðan og auðveldara er að koma í veg fyrir slík vandamál en að leysa þau.

Aukin neysla á trefjum og vökva er mikilvæg.

Grænmeti, ávextir og grófar kornvörur ættu því að vera á matseðlinum þínum daglega. Borðaðu gróft brauð og gróft morgunkorn í stað þess sem er unnið úr fínu hveiti. Gráfíkjur, döðlur, sveskjur og kíví gagnast t.d. oft vel til að bæta meltinguna. Allt grænmeti er trefjaríkt, hvort sem það er borðað hrátt eða eldað.

Drekktu vel af vökva og er vatnið best. Hafðu í huga að kaffi og te eru vökvabindandi.

Dagleg hreyfing skiptir verulegu máli fyrir eðlilega meltingu, stundum nægir eingöngu að auka hreyfinguna daglega til að bæta meltinguna. Rösk ganga úti eða á hlaupabretti, sund og önnur hreyfing ætti því að geta hjálpað.

Dugi þessi ráð ekki til mætti reyna hægðalosandi lyf. En það er ekki sama hvaða lyf eru notuð á meðgöngu.

Ráðfærðu þig við ljósmóðurina í mæðraverndinni eða lækni.

Kláði

Ef þú ert með kláða er ástæða til að ræða það við ljósmóður eða lækni.

Kláði er algengur á meðgöngu. Oftast er hann vægur og meinlaus. Hann getur verið staðbundinn eða um allan líkamann. Algengt er að konan finni aðallega fyrir kláða á kviði, bringu og á útlimum og stundum sjást útbrot eða roði þar sem kláðinn er.

Helstu orsakir kláða:

  • Þurr húð.
  • Tog á húðinni og aukið blóðflæði um húð á meðgöngu.
  • Húðsjúkdómar, t.d. kláðabólur á meðgöngu, exem og psoriasis.
  • Sýkingar í húð, t.d. kláðamaur eða sveppasýkingar.
  • Kláði við endaþarm vegna gyllinæðar.
  • Skordýrabit.
  • Sólbruni.
  • Ofnæmi, t.d. fyrir snyrtivörum, lyfjum, ýmsum efnum og málmum (í skartgripum).
  • Gallstasi á meðgöngu.

Ef kláði er til staðar eða ef hann versnar er mikilvægt að láta vita af því í mæðraverndinni svo hægt sé að staðfesta eða útiloka að um gallstasa sé að ræða og veita viðeigandi meðferð ef þörf er á.

Nokkur ráð við kláða:

  • Nota kælikrem eða rakakrem sem bera má á húð nokkrum sinnum á dag, alltaf eftir bað og fyrir svefn.
  • Klippa neglur til að minnka líkur á húðklóri og nota frekar lófana til að nudda húðina þar sem kláðinn er mikill.
  • Koma í veg fyrir svitamyndun með því að klæðast fötum úr náttúrulegum efnum t.d. bómull eða silki fremur en gerviefnum.
  • Klæðast víðum fötum fremur en þröngum.
    Sofa með þunna ábreiðu fremur en þykka ábreiðu eða dúnsæng.
  • Sofa við gott loft og ekki mikinn herbergishita.
  • Fara í volga/svala sturtu eða bað fremur en of heit böð.
  • Takmarka daglega notkun sápu við handarkrika og nára og nota milda, lyktarlausa og ofnæmisprófaða sápu.
  • Nota mild þvottaefni og skola vel allan þvott sem kemst í snertingu við húð.
  • Forðast kaffi og aðra heita drykki.
  • Kláðastillandi lyf t.d. Tavegyl eða Polaramin skv. læknisráði.
  • Svefnlyf skv. læknisráði ef kláði truflar nætursvefninn.
Ógleði

Ógleði og væg uppköst í upphafi meðgöngu eru eðlileg þungunareinkenni. Talið er að allt að 90% kvenna finni fyrir einhverri ógleði á meðgöngutímanum með eða án uppkasta. Einkennin geta verið mismikil og koma oftast fram á 5.-6. viku meðgöngu og ganga oftast yfir á 16.-18. viku. Um 15-20% kvenna geta þó haft einkenni fram að 27. viku og 5% hafa einkenni út alla meðgönguna.

Þungunarhormón er talið helsti orsakavaldur, ásamt breytingum á efnaskiptum, meltingu og tilfinningalegri líðan. Lyktarskynið verður oft næmara og getur það jafnvel valdið eða aukið við ógleðina. Þrátt fyrir vanlíðan móður hafa rannsóknir sýnt að ógleði og væg uppköst eru ekki skaðleg fóstrinu og hefur ekki slæm áhrif á meðgönguna eða fæðinguna.

Ferska, safaríka ávexti eins og melónur eða perur er gott að hafa til taks. Engifer reynist mörgum gagnlegt. Nota mætti það í mat og te. Finndu hvaða fæðutegundir hafa góð áhrif á líðan.

Forðast ætti feitan, mikið kryddaðan og brasaðan mat, hann gerir ástandið yfirleitt verra. Einnig ætti að forðast aðstæður sem gera líðanina verri svo sem þungt loft í vistarverum, ilmvatnslykt, tóbaksreyk, hita, raka og hávaða.

Þrýstipunktanudd á P6 punktinn á úlnlið getur reynst gagnlegt til að draga úr einkennum.

Ef ógleðinni fylgja mikil uppköst er afar nauðsynlegt að drekka vel og hvílast. Álag getur gert líðan verri og stundum er best að hreyfa sig sem minnst meðan ástandið er sem verst. Þegar líðan er með betra móti mætti reyna að fara út í létta göngu eða stunda þá hreyfingu og líkamsrækt sem hentar hverju sinni.

Uppköstum fylgir álag á tennur vegna þess að magainnihaldið er mjög súrt. Því er gott að skola munninn með vatni eftir uppköst en láta líða að minnsta kosti 30 mínútur þar til tennur eru burstaðar

Gæta að því að láta ekki líða of langan tíma á milli máltíða því sveiflur í blóðsykri geta aukið á vanlíðan og ógleði. Borðaðu á 2-3 klst fresti yfir daginn: 5-6 litlar máltíðir. Gættu þess að drekka vel af vatni. Oft reynist vel að drekka vökva á milli máltíða í stað þess að neyta hans með máltíðunum.

Ef uppköst eru mikil og erfitt er að halda vökva niðri, er ráðlagt að leita til læknis eða ljósmóður.

Óþægindi í baki, grind og nára

Aukin þyngd barnsins og breytt líkamsstaða valda álagi á bakið og þá aðallega mjóbakið.  Liðbönd í grindinni mýkjast vegna hormónabreytinga á meðgöngu og verða þá eftirgefanlegri. Þegar liðböndin mýkjast getur konan fengið verki. Verkir geta komið frá lífbeini og/eða spjaldliðum. Liðböndin styðja þá ekki eins vel við mjaðmagrindina og þola minna álag en áður. 

Einstaka kona finnur fyrir slæmum grindarverkjum á meðgöngu. Ástæður eru  margþættar og ekki er vitað með vissu hvers vegna sumar konur finna fyrir verkjum en aðrar ekki.

Góð líkamsstaða er mjög mikilvæg og í mörgum tilvikum er hægt að draga úr slæmum einkennum með réttri líkamsbeitingu. Nauðsynlegt er að komast hjá sársaukafullum hreyfingum. Ljósmæður, læknar og sjúkraþjálfarar veita ráð. 

Grindarverkir á meðgöngu hafa ekki áhrif á gang fæðingar en gott er að ráðfæra sig við ljósmóður í sambandi við stöður og stellingar í fæðingunni.  

Sýnt hefur verið fram á að nálarstungur geti hjálpað mörgum konum sem hafa grindarverki. Sérstök stuðningsbelti sem valin eru í samráði við sjúkraþjálfara geta hentað í ákveðnum tilvikum. Nudd og heitir bakstrar geta dregið verulega úr verkjum.

Meðgönguleikfimi í vatni undir handleiðslu sjúkraþjálfara hefur gagnast mörgum svo og önnur meðferð hjá sjúkraþjálfara.

Togverkir í nára stafa af því að legböndin eru að lengjast, þau fjórfalda lengd sína á meðgöngunni. (Rauða örin á myndinni bendir á legband)

Togverkir geta komið við lítið álag eins og það að stíga fram úr rúmi eða standa upp úr stól. Langar göngur og kyrrstöður geta einnig aukið á togverki.

Þrátt fyrir að togverkir geti verið mjög sárir eru þeir algerlega skaðlausir.

Ráðfærðu þig við ljósmóður eða lækni ef verkir eru miklir á meðgöngunni.

Sinadrættir

Sinadrættir, pirringur í fótum eða þreyta stafa trúlega af auknum þrýstingi frá leginu á taugar sem liggja um grindina.

Regluleg hvíld með hátt undir fótum getur verið til bóta.

Léttar æfingar svo sem teygjuæfingar fyrir vöðvana í kálfunum og að lyfta sér upp á tábergið gagnast oft vel. Þessar æfingar má gera nokkrum sinnum á dag.

Hreyfing í vatni getur hjálpað og því gott að synda reglulega.

Útferð

Öllum kynþroska konum er eðlilegt að hafa útferð frá leggöngum og er hún tilkomin vegna endurnýjunar fruma í leggöngum. Hjá flestum konum eykst útferð á meðgöngunni, sérstaklega síðustu vikurnar.

Eðlileg útferð getur verið glær, gulleit eða mjólkurhvít og getur magn og þykkt verið mismunandi. Engin óþægindi s.s. kláði eða vond lykt fylgja eðlilegri útferð.

Hluti af eðlilegu leggangaflórunni er sveppurinn candida albicans en hann er mjög næmur á sýrustigið í leggöngum. Ef sýrustigið hækkar fer hann að fjölga sér óhóflega og veldur þá gjarnan óþægindum eins og kláða og sviða sem getur þurft að veita meðferð við.

Á meðgöngu er algengt að sýrustigið hækki og óþægindi vegna sveppasýkinga því heldur tíðari. Sýkingar af þessu tagi eru yfirleytt ekki hættulegar en geta valdið mismiklum óþægindum.

ÓEÐLILEG ÚTFERÐ?

Útferð getur verið óeðlileg ef hún breytir um lit, verður t.d. grænleit eða þegar hún er illa lyktandi, þegar hún veldur óþægindum, kláða eða sársauka í leggöngum.
Algengasta orsök óeðlilegrar útferðar er sýking af völdum baktería, sveppa eða veira.

Leitaðu ráða hjá lækni eða ljósmóður í mæðraverndinni.

Þreyta og syfja

Þreyta er algeng á meðgöngu, aðallega fyrstu vikurnar og svo aftur þær síðustu. Orsökin er ekki þekkt en trúlega stafar hún af aukinni hormónaframleiðslu og aðlögun líkamans að þeim miklu breytingum sem fylgja þunguninni og örum vexti barnsins.
Mikil þreyta getur dregið úr félagslegri virkni og haft mikil áhrif á daglegt líf og störf. Konan finnur að hún þarf að fara fyrr að sofa en hún er vön og hefur ekki úthald eins og áður og þarf líklega að hvíla sig meira yfir daginn.

Í lok meðgöngu verður oft breyting á svefnmynstri vegna hinna miklu líkamlegu breytinga sem hafa átt sér stað. Kúlan er orðin það stór að erfitt getur verið að láta fara vel um sig. Fyrirvaraverkir/samdrættir, ásamt tíðum salernisferðum geta truflað svefninn og erfitt reynist að hvílast nægilega á nóttunni. Draumsvefn og andvökur geta einnig haft áhrif og konan vaknar oftar yfir nóttina. Verðandi móðir þarf að hvílast meira en venjulega og skapa jafnvægi milli hvíldar og athafna.

Slökunarbað og ljúf tónlist fyrir svefninn geta hjálpað. Hafið í huga að fara snemma í rúmið á kvöldin til þess að tryggja einhverja hvíld ef fæðingin byrjar að nóttu til.

Æðahnútar

Æðahnútar stafa m.a. af auknum þrýstingi frá leginu á æðarnar sem liggja frá grindinni og auknu vökvamagni í blóðrásarkerfinu. Æðaveggirnir sem eru slakari á meðgöngunni vegna áhrifa frá prógesterón hormóninu, gefa meira eftir og álag á æðalokurnar eykst. Æðahnútar geta komið í ljós á fótum, á skapabörmum og við endaþarm (gyllinæð).

Með trefjaríku mataræði og nægri vökvainntöku er hægt að koma í veg fyrir hægðatregðu, sem getur valdið slæmri gyllinæð. Til eru bæði krem og stílar við gyllinæð, og sem draga úr einkennum vegna æðahnúta.

Stuðningssokkar geta dregið úr einkennum og óþægindum í fótleggjum, en þeir koma ekki í veg fyrir myndun æðahnúta. Einnig getur hjálpað að sitja/liggja með hærra undir fótum, forðast langar setur eða stöðu í sömu stellingu og sofa á vinstri hlið.

Gerðu léttar fótaæfingar, svo sem lyftu þér upp á tábergið og hreyfðu fætur í hringi um ökklann. Það eykur blóðflæðið og dregur úr álagi. Fylgstu með einkennum um bólgu, hita og roða.

Ráðfærðu þig við ljósmóður eða lækni.

Upplýsingar um réttindi í barneignarferli má finna hér