Heilsuvernd grunnskólabarna er hluti af þjónustu heilsugæslunnar og framhald af ung- og smábarnavernd. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
Markmið: Að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan.
Áherslur: Forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar.
Unnið er í náinni samvinnu við forsjáraðila nemanda, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi.
Samkvæmt lögum er öll vinna heilsugæslunnar skráð í rafræna sjúkraskrá.
Heilbrigðisfræðsla
Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá forsjáraðilar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.
Áherslurnar í fræðslunni eru eftirfarandi:
Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi - „Líkaminn minn”:
Markmið fræðslunnar:
- Börnin viti að þau eiga sinn líkama sjálf
- Börnin viti að kynferðisleg misnotkun er alltaf röng og ekki þeirra sök
- Börnin viti að þau megi segja NEI
- Börnin viti að þau eigi rétt á að segja frá verði þau fyrir óþægilegri reynslu
Slysavarnir - Hjálmanotkun
Markmið fræðslunnar:
- Börnin geri sér grein fyrir mikilvægi þess að nota hjálm
- Börnin kunni að setja á sig hjálm
Tilfinningar
Markmið fræðslunnar:
- Börnin læri að þekkja mismunandi tilfinningar
- Börnin geti tjáð sig um tilfinningar sínar og líðan
6H heilsunnar - áhrifaþættir heilsu
Markmið fræðslunnar:
Að fræða börnin um áhrifaþætti heilsu og hvernig er hægt að stuðla að heilsusamlegum lífsvenjum.
Hamingja - Tilfinningar
- Börnin læri hvað samkennd er og átti sig á hvað hún getur gert fyrir þau og aðra
- Börnin geri sér grein fyrir mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
- Börnin læri að virða skoðanir annarra
Hollusta
- Börnin læri að fjölbreytt fæði er undirstaða holls mataræðis
- Börnin læri að velja hollar fæðutegundir
- Börnin læri um mikilvægi morgunmatar
- Hvetja börnin til að borða meira af grænmeti og ávöxtum, 5 á dag
- Börnin læri um mikilvægi D- vítamíns
Hreinlæti
- Börnin læri og skilji mikilvægi góðrar tannhirðu
- Börnin þekki hvað er holl og óhöll fæða fyrir tennurnar
- Börnin þekki skaðsemi sykurs fyrir tennurnar
- Börnin læri að bursta tennurnar
Hreyfing
- Börnin læri að dagleg hreyfing er mikilvæg
- Börnin viti hver er ráðlögð dagleg hreyfing fyrir börn
Hvíld
- Börnin geri sér grein fyrir mikilvægi svefns.
- Börnin geri sér grein fyrir því að þau þurfi að sofa 10-11 klukkustundir á hverri nóttu
- Börnin þekki helstu svefnráðin
- Börnin átti sig á því að skjátækjanotkun getur haft áhrif á nauðsynlegan svefn
Hamingja
Markmið fræðslunnar:
- Börnin læri að þekkja tilfinningar sínar og viti að kvíðatilfinning sé eðlilegt varnarviðbragð líkmanns
- Börnin þekki helstu merki kvíða
- Börnin læri einföld bjargráð
- Börnin kynnist núvitundaræfingum
Slysavarnir
112 dagurinn er þann 11. febrúar ár hvert og reynt er að hafa þessa umfjöllun um það leiti.
Markmið fræðslunnar:
- Börnin þekki helstu slysahættur á skólalóðinni og í nánasta umhverfi
- Börnin viti hver eru fyrstu viðbrögð við slysum
- Börnin þekki neyðarnúmerið 112 og viti hvenær á að hafa samband við það
- Börnin læri að nota bílbelti rétt
- Börnin geri sér grein fyrir hættunni sem öryggispúðar í framsætum bíla skapa fyrir þá sem ekki hafa náð tilskilinni hæð
Samskipti
Markmið fræðslunnar:
- Börnin læri grunnatriði í góðum samskiptum
- Börnin velti fyrir sér hvort sömu samskiptareglur gilda á netinu og í öðrum samskiptum
Kynþroskinn
Markmið fræðslunnar:
- Börnin þekki hugtakið kynþroski og þær breytingar sem verða á líkamanum við hann
- Börnin þekki hugtakið kynhneigð
- Börnin þekki hugtakið sjálfsfróun
- Börnin þekki hugtakið kynferðisofbeldi
Endurlífgun
Markmið fræðslunnar:
- Börnin kunni að bregðast rétt við hjartastoppi
- Börin læri hjartahnoð og kunni að beita því
Bólusetning
Markmið fræðslunnar:
- Börnin skilji mikilvægi bólusetninga
- Kynna fyrir börnunum við hvaða sjúkómum er verið að bólusetja fyrir
Hugrekki
Markmið fræðslunnar:
- Nemendur þekki einkenni félagsþrýstings
- Nemendur læri að bregðast við neikvæðum félagsþrýstingi
Sjálfsmynd og samskipti
Markmið fræðslunnar:
- Nemendur átti sig á mikilvægi góðrar sjálfsmyndar
- Nemendur skilji hverjir geta verið áhrifaþættir sjálfsmyndar, hvernig hægt sé að byggja upp góða sjálfsmynd og viðhalda henni.
- Nemendur átti sig á mikilvægi góðra samskipta og hvernig þau geti stuðlað að bættri sjálfsmynd hvors annars
Endurlífgun
Markmið fræðslunnar:
- Börnin kunni að bregðast rétt við hjartastoppi
- Börnin læri hjartahnoð og hvernig eigi að beita því
Kynheilbrigði
Markmiðið fræðslunnar:
- Nemendur þekki og skilji hugtökin sjálfsvirðing, kynhneigð, kynvitund, kynlíf, kynmök og kynferðisofbeldi
- Nemendur verði færir um að ræða sín á milli um málefni sem snerta kynlíf
- Nemendur viti hvað getnaðarvarnir eru og þekki þær helstu
- Nemendur kunni að nota smokkinn og viti að hann er eina getnaðarvörnin sem minnkar líkur á kynsjúkdómum
- Nemendur þekki neyðargetnaðarvörnina og viti hvar má fá hana
- Nemendur viti hvað kynsjúkdómar eru, þekki smitleiðir þeirra og einkenni
- Nemendur viti hvernig forðast má kynsjúkdómasmit
- Nemendur viti hvert eigi að leita ef grunur er um kynsjúkdómasmit
Bólusetning
Markmið fræðslunnar:
- Börnin skilji mikilvægi bólusetninga
- Kynna fyrir börnunum við hvaða sjúkómum er verið að bólusetja fyrir
Geðheilbrigði
Markmið fræðslunnar:
- Nemendur velti fyrir sér geðheilbrigði og líðan
- Nemendur átti sig á tengingu hugsana, tilfinninga, hegðunar og líðan
- Nemendur þekki helstu einkenni geðsjúkdóma
- Nemendur viti hvert hægt er að leita eftir aðstoð
- Nemendur þekki í bjargráð eins og slökun og núvitund
Endurlífgun
Markmið fræðslunnar:
- Börnin kunni að bregðast rétt við hjartastoppi
- Börin læri hjartahnoð og kunni að beita því
Ábyrgð á eigin heilsu
Markmið fræðslunnar:
- Nemendur viti hvernig þau geti fylgst með eigin heilsu, t.d. með því að þreifa brjóst og eistu
- Nemendur þekki starfsemi heilsugæslunnar og hvenær þau geti leitað þangað
- Nemendur þekki hvar má finna öruggar upplýsingar um heilsu og þekki vefinn heilsuvera.is
- Nemendur hugi að þáttum sem stuðla að bættu kynheilbrigði. Til umfjöllunar eru þættir sem tengjast kynheilbrigði. Dæmi um umfjöllunarefni:
- Sambönd
- Áhrif menningar og trúarbragða á kynhegðun
- Ástarsorg
- Væntingar og mörk í kynlífi
- Kynhneigð
- Kyntjáning
- Trans
- Áreitni, mörk og kynferðisofbeldi
- Klám
- Staðalmyndir
Heilsueflandi viðtöl um lífsvenjur og líðan
Heilsueflandi einstaklingsviðtöl fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk, gjarnan í tengslum við skimanir. Þar ræðir hjúkrunarfræðingur við nemendur um líðan og lífsvenjur. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði og líðan. Gripið er til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur.
Skimanir
Skimað er í 1., 4., 7. og 9. bekk fyrir fráviki í vexti og sjónskerpu. Ef grunur er um heilbrigðisvanda samkvæmt niðurstöðum skimana er haft samband við forsjáraðila. Niðurstöður skimana eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.
Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef þurfa þykir og í samráði við forsjáraðila.
Bólusetningar
Í 7. bekk er bólusett við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og einnig er bólusett gegn HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini og kynfæravörtum.
Í 9. bekk er bólusett við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt.
Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til forsjáraðila með upplýsingum um tímasetningu.
Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:
- Nánari upplýsinga er óskað
- Talið er að barn sé ekki að fullu bólusett
- Óskað eftir því að barn sé ekki bólusett
Það er á ábyrgð forsjáraðila að láta bólusetja börn sín.