Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hormónameðferð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Kvenhormón eru áhrifamesta meðferðin við einkennum breytingaskeiðs og tíðahvarfa. Meðferðin inniheldur hormónið estrógen og oftast einnig prógesterón. Allflestar konur ættu að geta nýtt sér hormónameðferð óski þær eftir henni og rétt að ráðfæra sig við heimilislækni, kvensjúkdómalækni eða aðra sérfræðinga ef vafi liggur þar á. 

Estrógen

Estrógen er til í töflum, plástri og geli og er gefið stöðugt.

Prógesterón

Prógesterón er til í töflum og er gefið 10-12 daga mánaðarlega (kaflaskipt), samfellt daglega  eða með  hormónalykkju sem sett er inn í leghol og er ætluð til 5 ára notkunar. 
Við val á meðferð þarf að taka tillit til blæðingasögu, heilsufars og velja þá meðferð sem hentar best hverri konu.

Þegar kon hefur enn tíðablæðingar eða ef minna en 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu tíðablæðingu er valin meðferð með estrogeni stöðugt og prógesteróni kaflaskipt eða í hormónalykkju.

Þegar 12 mánuðir eða meira eru liðnir frá síðustu tíðablæðingu er valin meðferð með estrógeni stöðugt og annaðhvort prógesteróni stöðugt eða í hormónalykkju.

Ef kona hefur farið í legnám er hægt að gefa eingöngu estrógen með þeirri undantekningu að ef legslímuflakk hefur verið staðfest þarf einnig prógesterón stöðugt.

Ávinningur hormónameðferðar á heilsu framtíðar

Ef konur hefja hormónameðferð innan 10 ára frá tíðahvörfum eða innan 60 ára aldurs hafa þær minni áhættu á að þróa með sér hjarta – og æðasjúkdóma síðar á lífsleiðinni og eru síður í hættu á að deyja af völdum þeirra sjúkdóma.

Hormónameðferð er áhrifaríkasta leiðin til þess að viðhalda beinmassa og hindra beinþynningarbrot hjá konum eftir tíðahvörf. Oft er mælt með slíkri meðferð sem fyrsta vali til að hindra beinþynningu hjá konum upp að 60 ára aldri.

Hormónameðferð minnkar líkur á ristilkrabbameini.

Áhætta hormónameðferðar

Estrogen tekið inn um munn hefur tengsl við vægt aukna áhættu á myndun bláæðasega. Bláaæðasegar geta valdið heilaslag (stroke). Heilaslög eru óalgeng hjá konum yngri en 60 ára. Sú áhætta er ekki til staðar sé estrógen gefið í gegn um húð með geli eða plástri.

Samsett meðferð með estrógeni og prógesteróni tengist vægt aukinn áhættu á brjóstakrabbameini eftir 5 ára notkun. Þegar hormónameðferð er hætt minnkar sú áhætta fljótt. Estrógen meðferð ein og sér felur í sér mun minni áhættu eða jafnvel alls enga. Dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins er lægri hjá konum sem hafa verið á hormónameðferð samanborið við aðrar konur.

Staðbundin hormónameðferð

Einkenni frá leggöngum og þvagfærum vegna rýrnunar á slímhúð eru meðhöndluð með staðbundnum estrógenum og engin áhætta fylgir meðferðinni. Til eru stílar, krem og forðahringur sem ætlaður er til þriggja mánaða notkunar. Nota má slíka meðferð samhliða annarri hormónameðferð.

Testósterón meðferð hjá konum

Um 40% kvenna á breytingaskeiði finna fyrir minni áhuga á kynlífi og minni kynlöngun. Hjá konum eftir tíðahvörf með minnkaða kynlöngun sem hefur neikvæð áhrif í nánu sambandi getur komið til greina að nota testosterón hormón. Þá er það einungis ráðlagt ef meðferð með kvenhormónum hefur ekki hjálpað. 

Meðferð með því lyfjaformi sem ætluð er karlmönnum er vandmeðfarin og enn ekki nægilega gagnreynd með tilliti til aukaverkana. Ekki eru til gögn um öryggi meðferðar umfram 2 ár hjá konum. Því er aðeins hægt að ráðleggja testósterón meðferð í litlum skömmtum í afmarkaða tímalengd. 

Tímalengd horrmónameðferðar

Engin mörk eru á tímalengd  kvenhormónameðferðar og er það konunnar sjálfrar í samráði við lækni að meta. Mat á ávinningi og áhættu ásamt lífsgæðum ætti að ráða. Rétt er að velja það form meðferðar sem felur í sér minnsta áhættu og reyna alltaf að nota estrógen í gegn um húð ef hægt er. Oft er hægt að minnka hormónaskammt við hækkandi aldur.