Fara á efnissvæði

Tanntaka barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Tanntaka hefst venjulega við sex til átta mánaða aldur og nýjar tennur bætast smám saman við þar til allar barnatennurnar 20 hafa skilað sér við tveggja og hálfs árs aldur.

Það er einstaklingsbundið hvenær fyrsta tönnin kemur. Einstaka börn fæðast með tönn en önnur eru ekki komin með sína fyrstu tönn við eins árs aldur. Óþarfi er að hafa áhyggjur af því þó tennurnar komi seint. 

Tanntöku geta fylgt ákveðin einkenni svo sem pirringur og kláði í gómum auk þess sem mikið er slefað á þessu tímabili. Börn vilja gjarnan naga og setja því upp í sig það sem þau ná í. Sumum börnum finnst gott að láta bursta gómana með mjúkum tannbursta. Látið lítil börn þó ekki leika með burstann því tannbursti í munni barns sem dettur fram fyrir sig getur valdið miklum skaða í hálsi barnsins. Pirringur barnsins getur einnig stafað af einhverju allt öðru en tanntökunni. Í þeim undantekningartilvikum þegar barnið verður svo órólegt og aumt í gómunum að það unir sér ekki vel þá er best að hafa samband við lækni eða tannlækni. Gott er að hafa í huga að börn gráta oft, án þess að við vitum hvers vegna, stundum er það kannski vegna tanntöku en oftast gráta þau af öðrum ástæðum.

Ef barnið fær hærri hita en 38 gráður í meira en sólarhring þá er það aldrei vegna tanntöku.