Fara á efnissvæði

Fullorðinstennur

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Oftast er það svonefndur 6 ára jaxl sem kemur fyrstur fullorðinstanna. Hann kemur aftan við barnajaxlana oftast um 6 ára aldurinn. Upp úr því fara barnatennurnar að losna, fyrst fremstu tennurnar, oftast í neðri góm.

Oft líður nokkur tími frá því að barnatönn dettur þar til fullorðinstönnin kemur í staðinn. Það er eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Fullorðinstennurnar eru talsvert stærri en barnatennurnar og því stundum lítið pláss fyrir þær en það lagast þegar barnið stækkar.

Einnig kemur fyrir að fullorðinstönn kemur niður fyrir framan eða aftan barnatönn. Oftast dettur barnatönnin af sjálfu sér en ef það dregst er ráðlegt að ræða málið við tannlækni.

Við 12 ára aldurinn kemur 12 ára jaxlinn fyrir aftan 6 ára jaxlinn og þá eru allar barnatennur venjulega farnar og 28 fullorðinstennur komnar í þeirra stað. Endajaxlarnir koma svo ekki fyrr en um 18 ára aldurinn eða seinna og sumir fá þá aldrei. Algengt er að fjarlægja þurfi endajaxlana vegna þess að þeir rúmast ekki í munninum.