Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Martraðir

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Martraðir eru í eðli sínu slæmir draumar þar sem fólk upplifir mjög ógnandi aðstæður eins og að vera elt, lokað inni, lenda í náttúruhamförum eða annað sem ógnar eða skelfir þann sem sefur. Í svefni skiptast á hvíldarsvefn og draumasvefn. Börn sofa hlutfallslega meiri draumasvefni en fullorðnir og skýrir það að einhverju leiti af hverju börn fá frekar martraðir en fullorðnir. Draumatímabilin lengjast eftir því sem líður á nóttina en í heildina er draumasvefn ekki nema um 20% svefntímans þegar um eðlilegan svefn er að ræða. Við martraðir verður hjartsláttur og öndun hraðari rétt áður en fólk vaknar upp af martröðinni eins og það hafi upplifað ógn.

Martraðir eru að jafnaði ekki merki um að neitt alvarlegt sé að en óþægilegar eru þær vissulega og oft gengur illa að sofna eftir að hafa vaknað upp af martröð. Hafir þú áhyggjur af ítrekuðum martröðum getur þú leitað ráða hjá heilsugæslunni

Orsakir

Þó ekki sé vitað hvað veldur martröðum er þó vitað um ýmislegt sem getur aukið líkurnar á þeim. Ýmis lyf geta haft áhrif og aukið líkur á martröð. Þetta eru helst:

  • Sefjandi lyf
  • Nýrri gerðir þunglyndislyfja
  • Bólgueyðandi lyf
  • Svefnlyf
  • Háþrýstingslyf
  • Sumar gerðir sýklalyfja

Áfengisnotkun og neysla vímuefna eykur einnig líkur á martröð. Þekkt er að mikið andlegt áfall getur aukið líkur á martröð. En svo geta martraðir einnig verið einkenni sumra svefnsjúkdóma. 

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína