Fara á efnissvæði

Mikilvægi svefns

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Svefn er öllum mönnum og dýrum nauðsynlegur. Í svefni hvílist líkaminn og endurnýjar sig. Taugakerfið endurnærist í svefni og skorti menn svefn skerðist andleg geta þeirra. Ætla má að hver og einn verji um það bil þriðjungi ævinnar sofandi og á þeim tíma er margt og mikið í gangi í líkamanum. Í svefni framleiðir líkaminn til dæmis vaxtarhormón sem meðal annars stýra vexti barna og unglinga og hraðar endurnýjun fruma líkamans hjá þeim sem eldri eru. Það má því segja að góður nætursvefn stuðli að hægari öldrun. 

Að sofa ekki nóg hefur margvísleg áhrif á heilsuna. Fyrir utan það augljósa að vera þreyttur og eiga erfitt með að sinna daglegum störfum hafa margir sjúkdómar verið tengdir skertum svefni. Þeirra á meðal eru sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómar, hár blóðþrýstingur, Alzheimersjúkdómur og þunglyndi.

Svefnstigin

Talað er um svefn í fimm stigum eftir dýpt svefnsins. Fyrstu fjögur þeirra einkennast af mis djúpum svefni og kallast NREM-svefn (non rapid eye movement) en fimmta stigið sem er grunnur svefn einkennist af hröðum augnhreyfingum og er kallaður REM-svefn (rapid eye movement), öðru nafni draumsvefn. Talað er um svefnhringi þegar farið er um tvö eða fleiri svefnstig. Hver einstaklingur fer nokkra slíka hringi yfir nóttina. Dýpsti svefninn, eða svefnstig 3 og 4, er ríkjandi fyrri hluta nætur. Draumsvefn aftur á móti seinni hluta nætur. Nýfædd börn eyða lengri tíma í REM-svefn en fullorðnir. Sofa sem sagt meira grunnum svefni.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína