Fara á efnissvæði

Vanræksla gagnvart börnum

Kaflar
Útgáfudagur

Vanræksla gagnvart barni er skilgreind sem skortur á nauðsynlegri athöfn, sem leiðir til skaða eða er líkleg til að leiða til skaða á þroska barns. Vanræksla skiptist í eftirfarandi fjóra flokka:

  • Líkamleg vanræksla
  • Vanræksla varðandi umsjón og eftirlit
  • Vanræksla varðandi nám
  • Tilfinningaleg vanræksla

Í barnaverndarlögum  er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings og segir svo í 16. grein laganna:
„Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.“

Margir eru óvissir um hvort þeir eigi að láta barnavernd vita ef þeir hafa áhyggjur af barni. Á vef Barna- og fjölskyldustofu má lesa sér til um barnavernd og þjónustu við börn og foreldra. Það er sameiginlegt hlutverk okkar allra að vernda börnin. Tilkynningar til barnaverndar eiga að fara á barnaverndarnefnd í heimasveitarfélagi barnsins. Á vef barna- og fjölskyldustofu má finna upplýsingar um allar barnaverndarnefndir landsins.

Mál er hægt að tilkynna til barnaverndar með símtali í 112. Vefsvæði 112.is