Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Heimilisofbeldi

Kaflar
» Helstu einkenni heimilisofbeldis» Fáðu hjálp
Útgáfudagur

Heimilisofbeldi er því miður allt of algengt. Það er oft falið og erfitt að átta sig á því. Heimilið nýtur friðhelgi og innan veggja þess geta gerst hlutir sem fara algerlega framhjá öðrum. Að átta sig á því að maður sjálfur eða einhver sem manni er annt um búi við ofbeldi af hálfu maka síns er mikið áfall. Verið getur að þolandi hafi markvisst verið brotinn niður árum saman. Það er hluti andlegs og félagslegs ofbeldis að gera þolandann bjargarlausan. Þolandi veit ef til vill ekkert um fjárhagslega stöðu sína, hefur lítið tengslanet og óttast ef til vill afleiðingar sambandsslita bæði fyrir sig og börn sín ef þau eru til staðar. Gott er að leita aðstoðar hjá vini, ættingja, á heilsugæslunni eða hjá félagsþjónustunni í þínu sveitarfélagi til að byrja að fá aðstoð og byggja sig upp. Hafið í huga að heimilisofbeldi er ekki bundið við heimilið. Ofbeldi fyrrum maka, systkina eða annarra í fjölskyldunni er líka heimilisofbeldi. Allir geta orðið fyrir heimilisofbeldi, óháð stöðu í samfélaginu.

Ef þú ert í ofbeldisfullu sambandi getur verið gott að búa sér til neyðaráætlun um hvernig hægt er að komast út úr hættulegum aðstæðum.

Þau börn sem tilheyra heimilum þar sem ofbeldi á sér stað geta orðið fyrir skaðlegum áhrifum þess og þurfa á stuðningi að halda. 

Helstu einkenni heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi birtist í ýmsum myndum en í öllum tilvikum er um að ræða að gerandi hefur vald og stjórn á þolandanum.

Ef þú svarar einhverri af eftirfarandi spurningum játandi gætir þú verið í ofbeldissambandi.

Andlegt ofbeldi
Gerir maki þinn einhverntíma eftirfarandi:

  • Niðurlægir þig eða gerir lítið úr þér?
  • Ásakar þig fyrir ofbeldið eða rifrildið?
  • Neitar því að ofbeldi eigi sér stað eða gerir lítið úr því?
  • Einangrar þig frá vinum og fjölskyldu?
  • Stýrir því hvað þú gerir á samfélagsmiðlum?
  • Krefst þess að fá að lesa öll rafræn samskipti?
  • Nýtir sér erlendan uppruna þinn til að stjórna á heimilinu?
  • Kemur í veg fyrir að þú sækir vinnu, skóla eða áhugamál?
  • Kemur í veg fyrir að þú farir án maka til læknis, sálfræðings eða álíka?
  • Gerir ósanngjarna kröfu um athygli þína?
  • Ásakar þig um daður og framhjáhald af tilefnislausu?
  • Ákveður hverju þú klæðist, hverja þú hittir, hvert þú ferð og hvað þér finnst?
  • Telur þér trú um að þú eigir við geðveiki að stríða.

Fjárhagslegt ofbeldi og kúgun
Gerir maki þinn einhverntíma eftirfarandi:

  • Stjórnar fjármálum ykkar og einnig launum þínum og fjármunum ykkar?
  • Skammtar pening til að fara í búðina?
  • Hefur aðgang að heimabankanum þínum?
  • Stýrir því hvað má kaupa á heimilið?
  • Eyðileggur hluti sem þér þykir vænt um?

Ógnanir og hótanir
Gerir maki þinn einhverntíma eftirfarandi:

  • Hótar að meiða þig eða drepa?
  • Eyðileggur hluti sem þú átt?
  • Króar þig af og fer innfyrir þitt persónulega rými?
  • Hótar að taka eigið líf eða drepa börnin?
  • Les tölvupóstinn þinn, smáskilaboð eða bréf sem tilheyra þér?
  • Áreitir þig, hrellir eða eltir?
  • Heldur nauðsynlegum lyfjum frá þér?
  • Hótar að senda nektarmyndir af þér?

Líkamlegt ofbeldi
Gerir maki þinn einhverntíma eftirfarandi:

  • Slær þig, lemur eða kýlir?
  • Ýtir þér eða hrindir?
  • Sparkar í þig eða bítur þig?
  • Brennir þig?
  • Heldur þér niðri eða hindrar öndun?
  • Kastar hlutum?

Kynferðisofbeldi
Gerir maki þinn einhverntíma eftirfarandi:

  • Snertir þig á þann hátt sem þú vilt ekki og hættir ekki þrátt fyrir beiðni þína þar um?
  • Krefur þig um hluti sem þú vilt ekki gera í kynlífi ykkar?
  • Meiðir þig meðan þið hafið kynmök?
  • Krefst þess að þú hafir óvarin mök við hann - til dæmis að nota ekki smokk?
  • Neyðir þig til að hafa kynmök þegar þú vilt það ekki?

Ef maki þinn hefur mök við þig þegar þú vilt það ekki þá er það nauðgun.  Mundu að allir geta orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Hefur þú óttast maka þinn? Óttast þú um öryggi þitt eða annarra á heimilinu? Hér má lesa reynslusögur þeirra sem hafa hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.

Hefur þú einhverntíma breytt hegðun þinni af því að þú óttast hvað maki þinn gæti gert?

Ef þú heldur að þú sért í ofbeldissambandi er mikilvægt að vita að það er fólk tilbúið að hjálpa þér. Hér er listi yfir stofnanir og félagasambönd sem þú getur leitað til.

Fáðu hjálp

Þú þarft ekki að bíða eftir því að neyðarástand skapist til að leita þér hjálpar. Þú getur leitað til:

  • Vinar eða fjölskyldumeðlims sem þú treystir
  • Læknis, hjúkrunarfræðings eða ljósmóður
  • Hér er listi yfir opinbera aðila og félagasamtök sem geta aðstoðað þig
  • Í neyðartilvikum hringdu í 112. Einnig má taka netspjall við neyðarvörð á vefsíðunni 112.is
  • Fyrir sálræna aðstoð getur þú hringt í hjálparsíma Rauðakrossins 1717 eða talað við þau á netspjallinu á vefsíðunni 1717.is
  • Á netspjallinu hér á síðunni má fá stuðning og ráð hjá reyndum hjúkrunarfræðingi
Ofbeldi á meðgöngu