Fara á efnissvæði

Vinur í vanda - sér ekki þörf á aðstoð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það getur verið erfitt að horfa á vin glíma við heilbrigðis vanda en sjá ekki þörfina á því að þiggja hjálp, sérstaklega ef það lítur út fyrir að um hættuástand sé að ræða. Hvernig er hægt að hjálpa þeim sem þarf að fara á sjúkrahús en vill ekki fara eða sér ekki þörf á því?

Slíkar aðstæður geta skapast til dæmis hjá einstaklingum sem eru í geðrofi. Geðrof getur verið vegna neyslu eða geðsjúkdóms. 

Aðstæður geta komið upp vegna líkamlegra veikinda sem skerða dómgreind eða vitsmuni, til dæmis heilabilun eða höfuðáverkar.

Það er alltaf best ef hægt er að fá viðkomandi til að þiggja hjálp af fúsum og frjálsum vilja. Ef það gengur ekki, verður í flestum tilfellum að sætta sig við þeirra ákvörðun. Mikilvægt er að halda áfram samtalinu með hlýju og virðingu. 

Nokkrir gagnlegir punktar

Útskýra 
Gott er að segja viðkomandi af hverju þú hefur áhyggjur, tala um hegðunina eins og hún er núna án þess setja stimpla eða greiningar. Þú getur til dæmis sagt: „Ég hef áhyggjur af þér því ég hef tekið eftir því að síðustu vikur hefur þú virst vera leiður, lokað þig inni í herbergi og ekki viljað borða með okkur.“

Hlusta
Spyrja af hverju viðkomandi vill ekki fá aðstoð, hlusta á svörin og spyrja meira til að skilja betur. Þú getur til dæmis sagt: „Má ég spyrja af hverju þú vilt ekki þiggja aðstoð?“ Það getur líka verið hjálplegt að draga saman svörin og fá endurgjöf á þann skilning sem þú færð. Til dæmis: „Skil ég þig rétt að þú hafir áhyggjur af því að ef þú færir á spítalann eða heilsugæslustöðina myndi þér líða verr?“ Sýna þolinmæði gagnvart því að viðkomandi sjái sín veikindi kannski öðruvísi en þú. 

Tilbúin að hjálpa
Spyrja hvernig þú getur hjálpað. Mögulega gagnast að bjóða aðstoð við að hafa sig til fyrir viðtal, passa hundinn eða eitthvað annað heimilisverk. Bjóðast til að panta tíma fyrir viðkomandi á stofu eða heilsugæslustöð. Borga tímann ef það er hindrun eða fylgja viðkomandi á bráðamóttöku. Láta vita að þú sért til staðar og vilt hjálpa í gegnum allt ferlið.

Möguleikar í stöðunni
Þú getur stungið upp á ýmsum leiðum til hjálpar, t.d. að finna viðeigandi heilbrigðisstarfsmann á heilsugæslu eða stofu, stuðningshóp eða sjálfshjálparsamtök. 
Góðar upplýsingar um úrræði eru á vef Geðhjálpar.
Ef um vímuefnavanda er að ræða eru ýmis úrræði hjá SÁÁ.
Gagnlegar upplýsingar um heimilisofbeldi 

Opið samtal
Gagnlegt er að halda áfram að eiga opið samtal við vin þinn þannig að möguleikinn til að þiggja aðstoð verði áfram til staðar, jafnvel þó hún hafi verið afþökkuð í upphafi. Það eykur líkurnar á að ná árangri að bera virðingu fyrir mörkum viðkomandi en láta vita að þú ert áfram til reiðu þegar á þarf að halda.

Aðstoð frá meðferðaraðila
Ef vinur þinn er í meðferð hjá fagaðila er stundum hægt að hafa samband við þann aðila eða heimilislækni viðkomandi. Athugaðu að heilbrigðisstarfsfólk getur ekki gefið þér upplýsingar um viðkomandi nema með leyfi en þau geta hlustað á það sem þú hefur að segja og gefið þér ráðleggingar. 

Hvenær þarf að grípa inní?

Ef merki er um bráðan og alvarlegan vanda. Til dæmis gæti verið um að ræða:

  • Bráðar breytingar á hegðun eða hugsun, til dæmis einhver sem talar skyndilega samhengislaust, lokar sig skyndilega af eða neitar að tjá sig.
  • Alvarlegar geðsveiflur, t.d. dæmis ofurkæti og æsingur eða mikil depurð og vonleysi til skiptis.
  • Ógnandi hegðun; beitir ofbeldi eða eyðileggur muni.
  • Rof á raunveruleikatengslum, t.d. að sjá eða heyra hluti sem eru ekki til staðar. Stundum kemur það þannig fram að erfitt er að ná sambandi við viðkomandi.
  • Aðsóknarkennd (paranoia)
  • Ákveðin sjálfsvígsáform eða tilraunir.

Ef viðkomandi samþykkir að fara í viðtal til heilbrigðisstarfsmanns getur verið gagnlegt að fá að fara með í viðtalið. Það er hægt að fara á eftirtalda staði:

Þegar ástandið er alvarlegt og líkur á að það þurfi að flytja viðkomandi á spítala til nánari athugunar er hægt að óska eftir mati vakthafandi læknis á héraðsvakt. Ef læknir fer á vettvang, kemur lögregla með af öryggisástæðum. Læknir getur ákveðið að flytja viðkomandi á sjúkrastofnun til nánari athugunar ef ástandið er metið þannig að um alvarleg veikindi sé að ræða og viðkomandi mögulega hættulegur sjálfum sér eða öðrum.

Ef málið er ekki brátt er hægt að hafa samband við heilsugæslustöð eða í síma 1700 og fá ráðgjöf um næstu skref hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni.

Í bráðatilvikum má hringja í 112 og óska eftir aðstoð.