Það er erfitt að segja til um af hverju fólk beitir ofbeldi. Ástæður geta verðið margar og mismunandi en allt í kringum okkur sjáum við hinn sterka, stóra, valdamikla beita hinn veikari, minni og valdalausari ofbeldi og kúgun. Þetta er ljóst bæði í samskiptum manna og þjóða. Ástæðurnar eru því ef til vill djúpstæðari en okkur finnst gott að horfast í augu við. Hér eru nokkrir þættir sem legið geta að baki því að fólk beiti ofbeldi eða kúgun.
- Til þess að stjórna hinum aðilanum, hvað hann gerir og hvernig honum líður.
- Gerandi heldur að um sé að ræða eðlilega hegðun.
- Geranda finnst hann hafa eignarhald yfir hinum.
- Gerandi þarf, að eigin mati, að hafa völdin í sínum höndum.
- Gerandi óttast að missa virðingu haldi hann ekki völdunum.
- Gerandi kann ekki aðrar leiðir til að takast á við reiði og vonbrigði.
- Gerandi hefur komist upp með að fá sitt fram með því að beita ofbeldi eða kúgun.
Höfum í huga að þó mögulega megi finna ástæður ofbeldis er ofbeldi aldrei réttlætanlegt eða viðurkennt og er alltaf sök gerandans.