Foreldrar þurfa að gefa sér tíma með börnum sínum og ungmennum. Það er ungu fólki sérstaklega mikilvægt að foreldrar sýni því áhuga sem þeir hafa fyrir stafni, hlusti á þá og eigi hlutdeild í áhugamálum þess. Með opnum og einlægum samskiptum foreldra og ungmenna er líklegra að þau leiti til foreldra sinna ef ráð vantar eða eitthvað bjátar á og viti að hlustað verði á þau. Í mannlegum samskiptum skiptir samskiptahæfni megin máli og því er sérlega mikilvægt að foreldrar kenni börnum sínum góð samskipti.
Góðar fyrirmyndir
Foreldrar hafa mikil áhrif á börn sín og með því að sýna að hægt sé að leysa vandamál án þess að beita ofbeldi eða tala á niðurlægjandi máta sýnum við börnum og unglingum hvernig á að koma fram við aðra og hvaða framkomu við getum krafist af öðrum.
Samhygð
Með aukinni samhygð minnkum við líkur á að börn meiði aðra viljandi. Gott er að kenna börnum að sjá hlutina frá sjónarhorni annarra og átta sig á hvernig þeim líður. Slíkt getur aukið á samskiptafærni.
Lausn vandamála
Hjálpið börnum ykkar að leysa vandamál með því að ígrunda vel hvaða vanda þau glíma við. Með því að búta vandamál sín í smærri viðráðanlegar einingar, koma auga á hugsanlegar lausnir og hvað lausnirnar hafa í för með sér hjálpum við börnum að takast á við vandamál á jákvæðan hátt og án ofbeldis.
Samningagerð
Börn og ungmenni verða að átta sig á að þau fá ekki alltaf það sem þau vilja. Í heilbrigðum samböndum eiga málamiðlanir sér stað. Það þarf að læra að skoða hlutina frá ýmsum sjónarhornum og reyna að finna leiðir sem koma til móts við væntingar sem flestra.
Skýrleiki
Að vera opinn og skýr um tilfinningar og væntingar getur komið í veg fyrir ágreining. Það þarf að bera virðingu fyrir eigin þörfum og annarra. Ekki er átt við ýtni og yfirgang til að koma vilja sínum á framfæri. Ýtni og yfirgangur getur orðið leið til að drottna yfir öðrum og beita andlegu og félagslegu ofbeldi. Þau börn sem geta vandræðalaust sagt frá óskum sínum og þörfum eru síður líkleg til að fara í sambönd þar sem ofbeldi og kúgun á sér stað
Sanngjörn rifrildi
Öll lendum við einhvern tímann í því að rífast. Það skiptir miklu máli í samböndum hvernig fólk rífst. Að rífast á sanngjarnan máta er að halda sig við efnið, forðast svívirðingar eða móðganir og vísa ekki í fortíðina. Börn þurfa einnig að læra að það er í lagi að yfirgefa aðstæður og koma aftur að þeim síðar þegar þau hafa róast og geta rætt hlutina.